Skip to main content
1. júlí 2022

Átta nýir lektorar ráðnir við Menntavísindasvið

Átta nýir lektorar ráðnir við Menntavísindasvið - á vefsíðu Háskóla Íslands

Átta nýir lektorar hófu störf á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Lektorarnir eru ráðnir til starfa við allar fjórar deildir sviðsins; Deild faggreinakennslu, Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, Deild kennslu- og menntunarfræði og Deild menntunar og margbreytileika.

Eftirtalið starfsfólk var ráðið til starfa:

Arngrímur Vídalín er nýr lektor við Deild faggreinakennslu. Arngrímur er doktor í íslenskum bókmenntum frá Háskóla Íslands árið 2017 og var aðjunkt í sömu grein á Menntavísindasviði HÍ frá árinu 2019. Áður var hann íslenskukennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og Háskólabrú Keilis auk sem hann stundaði sjálfstæð rannsóknastörf hjá Reykjavíkurakademíunni. Þá hefur hann stundað rannsóknir við Kaupmannahafnarháskóla og Harvard háskóla, auk Háskólans í Slesíu í Katowice og Háskólans í Tartu þar sem hann hefur kennt á bakkalár- og meistarastigi.

Auður Magndís Auðardóttir er nýr lektor við Deild menntunar og margbreytileika. Auður Magndís lauk doktorsgráðu í menntavísindum frá Háskóla Íslands árið 2021 en fyrri menntun hennar er á sviði félagsfræði. Hún hefur áður gegnt starfi verkefnastjóra hjá Félagsvísindastofnun, verkefnastjóra jafnréttis hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og framkvæmdastjóra Samtakanna ´78. Frá árinu 2017 hefur hún sinnt rannsóknum og kennslu á Menntavísindasviði nú síðast í starfi nýdoktors. Rannsóknir hennar hverfast um markaðsvæðingu, stétt, kyn og hinsegin málefni í tengslum við uppeldi og skólastarf.

Kristján Ketill Stefánsson er nýr lektor við Deild kennslu- og menntunarfræði. Kristján er menntaður grunnskólakennari og lauk kennaranámi við Kennaraháskóla Íslands árið 2003. Kristján útskrifaðist úr meistaranámi í kennslufræði frá Háskólanum í Ósló árið 2006 og hefur frá þeim tíma unnið að uppbygginu upplýsingakerfis fyrir innra mat leik-, grunn-, og framhaldsskóla sem nefnist Skólapúlsinn. Kristján lauk doktorsprófi í menntunarfræðum frá Háskóla Íslands árið 2017. Rannsóknir Kristjáns hafa á undanförnum árum sérstaklega beinst að lestraráhughvöt, lesskilningi, sjálfsáliti barna, próffræði og sjálfsstjórnun náms.

Milos Petrovic er nýr lektor við Deild heilsueflingar íþrótta og tómstunda. Milos lauk B.Ed. og meistaraprófi í íþrótta- og heilsufræði í Serbíu þar sem hann er fæddur og uppalinn. Áður en Milos flutti til Íslands starfaði hann í Belgíu, Malasíu, Serbíu og Englandi þar sem hann lauk doktorsprófi frá Manchester Metropolitan University í hreyfifræði. Milos hefur starfað síðustu 15 árin sem íþróttaþjálfari og ráðgjafi fyrir nokkur íþróttafélög. Samhliða kennslu- og þjálfaraferli sínum er Milos virkur þátttakandi í vísindastarfi.

Renata Emilsson Peskova er nýr lektor í Deild kennslu- og menntunarfræði. Renata lauk BA-gráðu í fullorðinsfræðslu og mannauðsstjórnun frá Karlsháskóla í Prag í Tékklandi. Hún stundaði kennaranám við sama háskóla með sérhæfingu í þýsku og ensku í þrjú ár og lauk náminu með MA gráðu í þvermenningarsamskiptum og þýskum annarsmálsfræðum eftir tvö ár við Universität Bayreuth í Þýskalandi. Renata kenndi ensku og þýsku í Hlíðaskóla í sjö ár og vann síðan sem stundakennari og aðjunkt við Menntavísindasvið og Hugvísindasvið Háskóla Íslands meðfram doktorsnámi. Rannsóknir Renötu snúast um fjöltyngi, fjöltyngdar kennsluaðferðir í fjölbreyttum bekkjum, tungumálastefnur, móðurmálsnám og tungumálasjálfsmyndir.  
 

Rúna Stefánsdóttir er nýr lektor við Deild heilsueflingar íþrótta og tómstunda. Rúna lauk kennaraprófi í líffræðikennslu (B.Ed) frá St. John´s University, New York, árið 2012 og MPH í Lýðheilsuvísindum frá Háskóla Íslands. Rúna útskrifast með doktorspróf í Íþrótta- og heilsufræði frá Háskóli Íslands, mars 2022 og hefur starfað sem aðjúnkt við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda á Menntavísindasviði Háskóla Íslands undanfarin þrjú ár.

Susan E. Gollifer er nýr lektor við Deild menntunar og margbreytileika. Susan er með MEd.próf í fullorðinsfræslu, læsi og samfélagsþróun. Hún útskrifaðist með doktorsgráðu fyrir Háskóla Íslands, júní 2021. Rannsóknir hennar beinast að mannréttindakennslu sem umbreytandi kennslufræði í formlegu og óformlegu menntakerfi, uppeldisaðferðir enskukennara í skólum á Íslandi og alþjóðavæðingu háskólamenntunar frá sjónarhóli félagslegs réttlætis.

Valgerður S. Bjarnadóttir er nýr lektor við Deild menntunar og margbreytileika. Valgerður lauk BA-prófi í uppeldis- og menntunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2004, kennslufræði til kennsluréttinda 2005, meistaraprófi í alþjóða- og samanburðarmenntunarfræðum frá Stokkhólmsháskóla árið 2013 og doktorsprófi í menntavísindum frá deild menntunar og margbreytileika við Háskóla Íslands árið 2019. Hún starfaði sem kennari við Menntaskólann á Akureyri 2005-2015 og hefur verið í stöðu nýdoktors að loknu doktorsprófi, fyrst við Háskólann á Akureyri og svo við Menntavísindasvið HÍ.

Menntavísindasvið býður þau öll hjartanlega velkomin til starfa.

Átta nýráðnir lektorar við Menntavísindasvið. Frá vinstri uppi: Arngrímur Vídalín, Auður Magndís Auðardóttir, Kristján Ketill, Milos Petrovic, Renata Emilsson Peskova, Rúna Stefánsdóttir, Susan E. Gollifer og Valgerður S. Bjarnadóttir.