Skip to main content
20. janúar 2017

Áslaug nýr gæðastjóri Háskóla Íslands

""

Áslaug Helgadóttir tók við starfi gæðastjóra Háskóla Íslands (HÍ) þann 1. janúar sl. Hún var prófessor í jarðrækt og plöntukynbótum við Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ) frá stofnun skólans 2005 til ársloka 2016 og sérfræðingur við Rannsóknastofnun landbúnaðarins (Rala) frá 1981 til 2004. Hún gegndi ýmsum stjórnunarstörfum samhliða fræðistörfum sínum, m.a. sem deildarstjóri jarðræktardeildar og aðstoðarforstjóri á Rala og deildarforseti auðlindadeildar og aðstoðarrektor hjá LbhÍ. 

Áslaug hefur setið í vísindanefnd opinberu háskólanna frá 2009 og í stjórn Miðstöðvar framhaldsnáms við HÍ frá 2013. Hún hefur einnig gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir HÍ, m.a. setið í fastri dómnefnd Verkfræði- og náttúruvísindasviðs og í matsnefnd vegna framtals starfa á sama fræðasviði. 

Gæðastjóri starfar í hálfu starfi og mun Áslaug m.a. hafa umsjón með formlegu gæðakerfi HÍ og vinna með gæðanefnd háskólaráðs sem hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd gæðakerfisins, fjalla um og samræma útfærslu einstakra þátta og móta tillögur um þróun þess, eftirfylgni og úrbætur. Sérstök áhersla verður lögð á að fylgja eftir framgangi aðgerða er lúta að gæðamálum í Stefnu HÍ 2016-2021 (HÍ21) í samstarfi við aðstoðarrektor kennslumála og þróunar og aðstoðarrektor vísinda og framkvæmd annarrar lotu rammaáætlunar Gæðaráðs háskóla innan HÍ.

Áslaug Helgadóttir
Áslaug Helgadóttir