Skip to main content
27. janúar 2023

Árangursríkt átak um fjölgun kennara

Árangursríkt átak um fjölgun kennara - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fjölþætt átak stjórnvalda og hagaðila í menntakerfinu um fjölgun kennaramenntaðra hér á landi hefur leitt til þess að bæði umsóknum um kennaranám og útskrifuðum kennurum úr háskólum landsins hefur fjölgað umtalsvert á síðustu árum. Þetta sýna nýjar tölur sem mennta- og barnamálaráðuneytið hefur tekið saman. 

Samkvæmt frétt á vef mennta- og barnamálaráðuneytis útskrifuðust 454 kennarar árið 2022 frá þeim fjórum háskólum sem bjóða upp á kennaranám hér á landi. Það er 160% aukning miðað við meðaltal áranna 2015–2019. 

Átaksverkefninu sem um ræðir var ýtt úr vör vorið 2019 í samstarfi mennta- og barnamálaráðuneytis, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Listaháskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Kennarasambands Íslands, Sambands íslenskra sveitarfélaga og kennaranema. Háskólarnir fjórir bjóða allir upp á kennaranám af einhverju tagi en mesta úrval námsleiða og sérhæfingar á öllum skólastigum er að finna á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. 

Átaksverkefnið er til fimm ára og markmið þess er að fjölga kennurum á öllum skólastigum og auka gæði náms og kennslu í íslensku skólakerfi með farsæld nemenda að leiðarljósi. Átakið hefur bæði falist í því að vekja betri athygli á kennarastarfinu sem spennandi og skapandi starfsvettvangi og fjölbreyttum stuðningsaðgerðum. 

Kennaranemum á lokaári stendur til boða að sækja um hvatningarstyrk úr sérstökum Nýliðunarsjóði sem nemur allt að 800.000 kr. að uppfylltum tilteknum skilyrðum og þá skipulögðu háskólar 50% launað starfsnám kennaranema á lokaári. Með tilkomu nýrra laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla var jafnframt lögfest ný námsgráða í kennaranámi, svo kölluð MT-gráða (e. Master of Teaching) en í því námi ljúka kennaranemar prófi með hagnýtum námskeiðum í stað rannsóknarverkefnis. Kennaranemar hafa með tilkomu nýrra laga um kennaramenntun þannig val milli MT-námsleiðar og M.Ed.-námsleiðar.

Liður í átakinu er herferðin Komdu að kenna. Þar hafa kennarar á öllum skólastigum og um allt land verið í aðalhlutverki og varpað ljósi á mikilvægi starfsins, skemmtilegum hliðum þess, nýsköpun í menntun og ýmsu fleiru.

Ljóst er að aðsókn í kennaranám undanfarin ár hefur farið fram úr björtustu vonum. Árið 2018 sóttu 855 um inngöngu í kennaranám en tveimur árum síðar voru umsækjendur um tvöfalt fleiri, eða ríflega 1.700. Þessa stundina leggja 1458 nemendur stund á kennaranám af ýmsu tagi á Menntavísindasviði og menntakerfið á því von á vænum liðsstyrki á næstu misserum og árum. 

„Aðsókn í kennaranám hafði dregist saman og kennaraskortur var í vændum áður en átaksverkefnið hófst. Við erum gríðarlega stolt af árangri þessa átaks og þeirrar mikillar vinnu sem unnin hefur verið innan Menntavísindasviðs í þágu átaksverkefnis stjórnvalda. Það sem ég tel að sé að skila sér er samvinna fjölmargra hagaðila, kennarastéttarinnar, stjórnvalda, háskóla og sveitarfélaga. Auk þess er gleðilegt að sjá þessar markvissu aðgerðir og alla samverkandi þætti virka sem skyldi; hvatningarstyrki, launað starfsnám, aukið námsúrval með tilkomu M.T. námsleiðar og Komdu að kenna kynningarherferðina sem leidd er af samstarfsvettvangi háskólanna sem koma að þessu sameiginlega átaki,“ segir Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs HÍ, en bætir svo við: „En betur má ef duga skal, verkefnið heldur áfram og við höldum ótrauð áfram að laða að okkur gott fólk í nám í menntavísindum.“

Við þetta má að bæta að Menntavísindasvið skipuleggur í samvinnu við mennta- og barnamálaráðuneyti, Háskólann á Akureyri og Kennarasamband Íslands svokölluð Menntafléttunámskeið sem ætluð eru kennurum, starfsfólki á vettvangi frítímans og fagfólki sem starfar við menntun og stuðlar þannig að símenntun og nýjum tækifærum fyrir kennara sem þegar eru innan menntakerfisins.

Mynd úr kynningarátakinu Komdu að kenna.