Skip to main content
11. nóvember 2022

Aðstæðubundið sjálfræði – ný bók komin út

Aðstæðubundið sjálfræði – ný bók komin út - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hverju vill fólk með þroskahömlun ráða í eigin lífi? Á það að stunda nám í háskóla? Hvernig má stuðla að bættu kynheilbrigði meðal þess? Hvernig má hindra nauðung og þvinganir á heimilum fólks með þroskahömlun? Spurningarnar hér að framan og margar fleiri móta rannsóknina sem nýútkomin bók Aðstæðubundið sjálfræði – Líf og aðstæður fólks með þroskahömlun byggist á.

Aðalhöfundar bókarinnar eru Ástríður Stefánsdóttir, læknir og dósent í hagnýtri siðfræði, Guðrún V. Stefánsdóttir er prófessor í fötlunarfræði og Kristín Björnsdóttir, prófessor í fötlunarfræði en allar starfa þær við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Bókin fjallar um líf og aðstæður fólks með þroskahömlun. Í bókinni er unnið með femínískar kenningar um aðstæðubundið sjálfræði og þær notaðar til að greina aðstæður fólks með þroskahömlun á ýmsum sviðum lífsins – bæði á persónulega sviðinu og opinberu lífi. Má sem dæmi nefna sjálfræði og nauðung inn á heimilum fólks með þroskahömlun, háskólanám fyrir fólk með þroskahömlun og sjálfræði tengt hagsmunabaráttu fólks með þroskahömlun.  
Bókinni er ætlað að vera kennsluefni í námi verðandi fagfólks ásamt því að veita þeim sem starfa með fötluðu fólki upplýsingar um hvernig styðja megi betur við sjálfræði fólks með þroskahömlun. Enn fremur getur bókin verið gagnleg fyrir aðstandendur fólks með þroskahömlun. 
Höfundar bókarinnar eru alls átta. Fimm fræðikonur af Menntavísindasviði HÍ, tveir meistaraprófsnemar og sérfræðingur í mannréttindalöggjöf. 
Bókin er gefin út af Háskólaútgáfunni.
 

Aðstæðubundið sjálfræði nýútkomin bók.