Sérsvið hjúkrunar - Örnám


Sérsvið hjúkrunar
Örnám á framhaldsstigi – 30 einingar
Stutt nám á meistarastigi í hjúkrun til þess að gefa hjúkrunarfræðingum kost á að auka þekkingu sína og færni á ákveðnu sviði.
Kjörsvið námsins eru skipulögð í takt við samfélagslegar þarfir og eftirspurn hjúkrunarfræðinga hverju sinni.
Skipulag náms
- Haust
- Fræðileg aðferð
- Rekstur og heilbrigðisþjónusta
- Vor
- Stjórnun í heilbrigðisþjónustuE
- Forysta í heilbrigðisþjónustu
Fræðileg aðferð (HJÚ140F)
Markmið námskeiðsins er að nemendur nái tökum á fræðilegum vinnubrögðum á þann hátt að þeir geti hagnýtt fyrirliggjandi fræðilega þekkingu í hjúkrun. Athyglin beinist að aðferðum við öflun heimilda í gagnasöfnum og mati á þeim. Fjallað er um gagnreynda starfshætti, s.s. notkun klínískra leiðbeininga og verklagsreglna. Áhersla er lögð á að þjálfa aðferðir við leitir og mat á fræðilegu efni ásamt textavinnslu.
Námskeiðið er haldið í upphafi kennslumisseris.
Rekstur og heilbrigðisþjónusta (HJÚ142F)
Markmið námskeiðsins er að veita nemendum innsýn í fræðilega nálgun ýmissa hagrænna þátta sem hafa áhrif á starfsumhverfi í heilbrigðisþjónustu. Þessir þættir eru óumflýjanlegir í öllum rekstri stórum og smáum, hvort sem er opinber rekstur eða einkarekstur. Í námskeiðinu er farið yfir með hvaða hætti þættirnir birtast og hvernig hægt er að hafa áhrif á þá rekstrinum til góða. Meðal hugtaka sem farið verður yfir:
- Framboð, eftirspurn, framleiðsluþættir, teygni
- Breytilegur-, fastur-, beinn- og óbeinn kostnaður.
- Áhrif skattheimtu og utanaðkomandi áhrif. Einkagæði og sameiginleg gæði.
- Viðskipti og hlutfallslegir yfirburðir. Hringrás efnahagslífsins.
- Framfærslukostnaður, vísitölur og þjóðhagsreikningar.
- Fjárhagsbókhald, rekstrar- og efnahagsreikningur.
- Rekstrarbókhald, mismunandi rekstrargreiningar.
Stjórnun í heilbrigðisþjónustu (HJÚ259F)
Markmið námskeiðsins er að nemandi öðlist fræðilega og hagnýta þekkingu á viðfangsefnum stjórnunar og búa þá undir hlutverk stjórnenda í heilbrigðisþjónustu. Áhersla er lögð á hlutverk stjórnenda, mannauðsstjórnun, teymisvinnu, vinnuumhverfi, þjónustu við sjúklinga, gæði og öryggi. Leitast er við að taka fyrir hagnýt viðfangsefni heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi í nútíð og framtíð og þannig efla fræðilega og hagnýta hæfni nemandans.
Námskeiðið er kennt í samstarfi við University of Minnesota og er COIL námskeið (Collaborative Online International Learning) sem felur í sér sameiginlegt kennsluefni og verkefni með kennurum og nemendum í DNP námi í forystu í hjúkrun. Aðalsamstarfskennari við University of Minnesota er dr. Stephanie Gingerich, lektor við University of Minnesota.
Forysta í heilbrigðisþjónustu (HJÚ258F)
Á síðustu árum hafa orðið miklar breytingar á starfsumhverfi heilbrigðisstofnana sem gerir auknar kröfur til hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstarfsmanna um færni í leiðtogahlutverkinu, hvort heldur er í klínísku starfi, við stjórnun eða kennslu. Námskeiðinu er ætlað að búa nemendur undir forystuhlutverk í starfi.
Fjallað verður um ýmis hugtök, kenningar og hugmyndafræði forystu almennt. Enn fremur verður fjallað um hlutverk og hegðun leiðtoga og hlutverk leiðtoga í breytingaferlinu. Fjallað verður um forystuhlutverk hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta innan heilbrigðisstofnana og í samfélaginu, staðbundið og í alþjóðlegu samhengi, nú og til framtíðar. Lögð er áhersla á hnattræna framtíðarsýn og frumkvöðlahugsun.
Fyrirkomulag
Staðlotur og vefkennsla.
- Óháð misseri
- Vellíðan og heilsueflandi þjónandi forystaBE
- Mannauðsstjórnun ríkis og sveitarfélagaB
- Stjórnsýsluréttur fyrir stjórnendur og starfsmenn opinberra stofnanaB
- BreytingastjórnunB
- Nám fullorðinna og þróun mannauðsB
Vellíðan og heilsueflandi þjónandi forysta (VIÐ175F)
Vellíðan starfsmanna fær æ meiri athygli og umræða um forvarnir kulnunar í starfi hefur aukist undanfarið. Stjórnendur og leiðtogar leita leiða til að skapa heilbrigt starfsumhverfi sem eflir vellíðan starfsfólks og bætir árangur.
Í þessu námskeiði verður fjallað um nýja þekkingu um árangursríkar leiðir til að skapa heilbrigt starfsumhverfi. Séstaklega verður rýnt í samspil starfsumhverfis, þjónandi forystu, heilsu og líðan starfsfólks.
Markmiðið er að nemendur kunni skil á áhrifaþáttum heilbrigðis í starfi, þekki helstu kenningar í þessu samhengi, fái innsýn í tengsl starfsumhverfis, forystu og heilbrigðis og þekki nýjar rannsóknir á sviðinu. Sérstaklega verður rýnt í gagnreynd líkön um heilbrigt starfsumhverfi og hvernig hugmyndafræði og áherslur þjónandi forystu geta skapa heilbrigt starfsumhverfi. Fjallað verður um heilsueflandi forystu, heilsueflandi þjónandi forystu og forvarnir kulnunar í starfi.
Nemendur rýna í raunveruleg dæmi og setja fram áætlun um leiðir til að þróa og styrkja heilbrigt starfsumhverfi með áherslu á sameiginlega ábyrgð leiðtoga og starfsfólks. Nemendur kynnast áherslum fyrirtækja og stofnana sem hafa náð árangri í þessum efnum og fá innsýn í reynslu stjórnenda í því sambandi.
Námsefni og verkefni snúa að fræðilegri og hagnýtri þekkingu, nemendur rýna í nýjar rannsóknir á sviðinu, greina raunveruleg dæmi og setja fram áætlun um heilbrigt starfsumhverfi miðað við raunverulegar aðstæður.
Námskeið verður næst kennt haustið 2026
Mannauðsstjórnun ríkis og sveitarfélaga (OSS102F)
Fjallað er um mannauðsstjórnun hjá hinu opinbera. Farið er yfir lög og reglur sem gilda um réttarsamband opinberra starfsmanna við vinnuveitendur, samskipti á vinnumarkaði og uppbyggingu launakerfis opinberra starfsmanna. Rætt er um helstu tæki og tól við mannauðsstjórnun svo sem mannauðskerfi, aðferðir við val á starfsmönnum, notkun starfs- og árangursmats, starfsmannasamtöl og mótun og eftirfylgni með starfsmannastefnum. Fjallað verður um sálfræðilega samninginn, ýmis vandamál sem upp geta komið á vinnustað og vinnuvernd og öryggismál.
Stjórnsýsluréttur fyrir stjórnendur og starfsmenn opinberra stofnana (OSS204F)
Fjallað verður um íslensk stjórnvöld, íslenska stjórnsýslukerfið, reglur sem gilda um samskipti og yfirstjórn innan stjórnsýslukerfisins, um meðferð stjórnsýslumála og upplýsingarétt almennings. Aðalháerslan er á meðferð stjórnsýslumála og þýðingu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í því sambandi.
Breytingastjórnun (VIÐ190F)
Í þessu námskeiði verður farið yfir helstu atriði breytingastjórnunar, s.s. innleiðingu breytinga, viðbrögð starfsmanna, helstu hindranir í vegi breytinga ásamt þeim hamlandi og hvetjandi kröftum sem eru að verki í breytingaferlinu. Farið verður ítarlega í kenningar og aðferðir sem breytingastjórnun byggir á og ræddar verða algengustu lausnir og aðferðir í stjórnun breytinga. Rætt verður um hlutverk leiðtoga, stjórnenda almennt og millistjórnenda í breytingum sem og krísustjórnun. Fjallað verður einnig um fyrirtækjamenningu og hvers vegna hún er mikilvægur þáttur í breytingaferlinu.
Nám fullorðinna og þróun mannauðs (NAF003F)
Símenntun, endurmenntun, mannauðsþróun eru hugtök sem æ fleiri þurfa að takast á við vegna vinnu sinnar. Stjórnendur þurfa til dæmis að útbúa símenntunaráætlanir, sérfræðingar þurfa að kenna samstarfsfólki sínu, kennarar koma að foreldrastarfi eða starfsþróun samkennara sinna og svo mætti lengi telja. Þetta námskeið er fyrir fólk sem vill dýpka skilning sinn á námi fullorðinna, til að geta betur tekið ákvarðanir um símenntun, skipulagt fræðslustarf eða unnið á annan hátt með fullorðnum sem ætla að læra. Námskeiðið gefur fræðilegan grunn undir allt fræðslustaf með fullorðnum.
Markmið
Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist haldgóða þekkingu á rannsóknum og kenningum um nám fullorðinna, og geti nýtt þá þekkingu til að taka rökstuddar ákvarðanir í tengslum við skipulagningu náms fyrir fullorðna og / eða við það hjálpa fullorðnum á annan hátt til að læra, takast á við breytingaferli og þroskast.
Inntak / viðfangsefni
Til að ná þessum yfirmarkmiðum takast nemendur við þrjú aðal viðfangsefni á námskeiðinu:
- Greiningu á hlutverki náms og menntunar fullorðinna í ljósi þróunar samfélagsins, rannsókn á því hvernig stofnanir samfélagsins hafa brugðist við - einkum hvað varðar aðgerðir sem ætlað er að styðja við nám fullorðinna. Þátttakendur læra að nota ýmis verkfæri til þess að greina samtímann og meta mögulegar þarfir fullorðinna fyrir nám.
- Rannsókn á sérkennum og sérstöðu fullorðinna námsmanna. Könnun á kenningum um hið sama og greining á gagni þeirra til að skýra og skipuleggja nám fyrir fullorðna og með þeim.
- Þátttakendur kynna sér nokkur meginstef úr kennslufræði fullorðinna. Hugmyndir um fullorðna námsmenn, þátttöku þeirra í fræðslu, áhugahvöt og hindranir, hlutverk leiðbeinenda í fullorðinsfræðslu, mótun námsumhverfis, samskipti kennara og nemenda og fleira.
Vinnulag
Námskeiðið verður kennt á formi sem er kallað "Valvíst nám". En það þýðir að þátttakendur geta valið hvort þeir mæta í skólann, taka þátt í gegnum fjarfundabúnað í rauntíma eða hlusta á upptökur og taka virkan þátt í samvinnu þátttakenda á netinu milli reglulegra funda.
Á námskeiðinu eru tvær "vinnulotur" þar sem allir þátttakendur vinna saman í heilan dag í tengslum við efni namskeiðsins. Þátttakendur eru hvattir til að mæta í húsnæði Menntavísindaseviðs við Stakkahlíð í vinnuloturnar. Þar verða teknar mikilvægar ákvarðanir um námskeiðið, þátttakendur kynnast vel og það styður við samvinnu þeirra á námskeiðinu, þá reynum við að beita aðferðum sem nýtast vel í fullorðinsfræðslu, þannig að þátttakendur upplifa ýmsar aðferðir sem þeir geta síðan nýtt við skipulagningu náms og kennslu.
Síðan hittast þeir vikulega í húsnæði skólans eða á netinu.
Á milli funda og vinnulota fer samvinnan fram á vef námskeiðsins, t.d. í gegnum skriflegar umræður á umræðuþráðum námskeiðsins.
Fyrir hverja er þetta námskeið?
Námskeiðið hentar öllum þeim sem koma – eða vilja koma – á einhvern hátt að ákvörðunum um nám fullorðinna, skipulagningu þess og útfærslu. Það hentar þannig fólki sem starfar við mannauðs- og fræðslumál innan fyrirtækja og stofnana, stjórnendur og verkefnastjóra í stofnunum sem bjóða upp á nám og námskeið fyrir fullorðna sem og sérfræðingum sem hafa áhuga á að kenna fullorðnum. Námskeiðið býður þessu fólki tækifæri að afla sér góðrar grunnþekkingar á helstu spurningum og viðfangsefnum sem snerta nám fullorðinna, forsendur, aðstæður og skipulagningu þess. Námskeiðið gefur þannig góða undirstöðu fyrir alls konar verkefni er varða nám fullorðinna almennt.
Hafa samband
Skrifstofa Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar
Eirberg, 1. hæð, Eiríksgata 34
101 Reykjavík
Sími 525 4960
hjukrun@hi.is
Opið virka daga frá kl. 9-12 og 13-14

Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.