Skip to main content
28. janúar 2022

Tilslakanir á takmörkunum

Tilslakanir á takmörkunum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (28. janúar 2022):

Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Núna í morgun tilkynnti ríkisstjórnin tilslakanir á takmörkunum vegna COVID-19. Fimmtíu mega koma saman frá miðnætti og 1 metra nándarregla tekur jafnframt gildi. Óbreyttar takmarkanir verða í skólastarfi nema alls staðar í byggingum HÍ verður heimilt að hafa 1 metra milli einstaklinga, að öðrum kosti þarf að nota andlitsgrímu. Þá mega 50 koma saman og á það jafnt við um starfsfólk og nemendur.

Þessar tilslakanir skipta okkur öll verulegu máli en ásamt vísbendingum um afléttingaráætlun hérlendis höfum við nú væntingar um lyktir á þessum þungbæra faraldri.

Fréttabréf Háskóla Íslands kom út í gær, stútfullt af áhugaverðu efni eins og endranær. Starfið hér er enda komið á fullt þótt það hafi vissulega áhrif á okkur öll að eiga enn í höggi við kórónuveiruna.

Háskóli Íslands gegnir afar mikilvægu hlutverki í lýðræðislegri og upplýstri samfélagsumræðu og þekkingarsköpun við skólann styður samfélagið við að takast á við margvíslegar áskoranir. Þess sjást augljós merki í fréttabréfi þessa mánaðar þar sem lesa má greinar um samfélagslega mikilvægar rannsóknir á mjög ólíkum fræðasviðum. Þar er t.d. sagt frá vísindamönnum skólans sem vinna í alþjóðlegu rannsóknarverkefni við þróun leiða til vinnslu sérhæfðra efni úr jarðhitavatni. Efnin eru m.a. nýtt í raftæki og hátæknibúnað. Verkefnið hefur hlotið jafnvirði nærri 1,1 milljarða króna styrks úr Horizon Europe, nýrri rannsóknaráætlun Evrópusambandsins. Þetta er fyrsti styrkurinn sem vísindamenn HÍ fá úr þeirri áætlun.

Einnig er sagt frá verkefni þar sem ráðist er til atlögu gegn matvendni með leik að vopni til að tryggja börnum meiri hollustu. Sýnt hefur verið fram á með ýmsum rannsóknum að hollusta fæðu á fyrstu árum ævinnar getur skipt miklu um heilbrigði hér og nú en einnig síðar í lífinu. Verkefninu er líka ætlað að draga úr matarsóun.

HÍ hefur um alllangt skeið stutt bæði starfsfólk og stúdenta af öllum fræðasviðum til nýsköpunar og hagnýtingar rannsóknaniðurstaðna. Með því aukast áhrif skólans á samfélagið og ný tækifæri skapast í atvinnu- og þjóðlífi. Háskólinn á nú hlut í um 20 sprotafyrirtækjum sem starfsfólk og stúdentar hafa stofnað en öll vinna þau að því að leysa áskoranir sem heimurinn stendur nú frammi fyrir. Þeirra á meðal er fyrirtækið Atmonia sem þróar byltingarkennda tækni sem auðveldar umhverfisvænni áburðarframleiðslu. Frá þessu er einmitt sagt í nýja fréttabréfinu.

Nám við HÍ stenst strangar alþjóðlegar gæðakröfur og býr ykkur, kæru nemendur, undir þátttöku í fjölbreyttu og síkviku atvinnulífi. Á mánudag hefjast árvissir atvinnudagar í skólanum með sérstaka áherslu á atvinnulíf og undirbúning ykkar fyrir þátttöku á vinnumarkaði. Náms- og starfsráðgjöf HÍ og Fjármála- og atvinnulífsnefnd SHÍ standa að dagskránni. Vegna COVID verður dagskráin í ár stafræn en ég hvet ykkur öll til að taka þátt og nýta þá þjónustu sem verður í boði.

Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Það er afar brýnt að við höldum áfram vöku okkar og fylgjum sóttvarnareglum þrátt fyrir þær tilslakanir sem boðaðar voru í morgun. Þvoum hendur og sprittum og berum andlitsgrímu þegar ekki er unnt að fylgja reglum um nándarmörk.

Njótum helgarinnar sem best við getum.

Jón Atli Benediktsson, rektor.“
 

Nemendur á Háskólatorgi