Skip to main content
24. maí 2021

Ótal hliðar nýsköpunar í HÍ í Nýsköpunarvikunni

Ótal hliðar nýsköpunar í HÍ í Nýsköpunarvikunni - á vefsíðu Háskóla Íslands

Gönguferð á slóðum nýsköpunar í sjávarútvegi, opnun nýs netnámskeiðs Háskóla Íslands og CCP um vináttu á tölvuöld og skyndikynni af sprotafyrirtækjum sem eiga rætur að rekja til Háskóla Íslands er meðal þess sem Háskóli Íslands býður upp á í Nýsköpunnarvikunni dagana 26. maí -2. júní.  Vísindagarðar skólans eru jafnframt þungamiðja hátíðarinnar.

Hátíðin er ný af nálinni og fer fram víða um land en á henni gefst frumkvöðlum og fyrirtækjum tækifæri til að kynna skapandi starfsemi, opna dyrnar fyrir gestum og gangandi og vekja athygli á þeim framúrstefnulegu lausnum sem hafa sprottið upp úr íslensku hugviti. Í boði verða spennandi viðburðir, bæði í streymi og á staðnum, og þar lætur Háskóli Íslands ekki sitt eftir liggja sem vettvangur fjölbreyttar nýsköpunar, rannsókna og þróunar.

Hátíðin verður sett í Grósku – hugmyndahúsi á Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri miðvikudaginn 26. maí kl. 16 þar sem m.a. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eru meðal þeirra sem taka þátt.

Í framhaldi af setningunni, nánar tiltekið kl. 17, standa Háskóli Íslands og tölvuleikjaframleiðandinn CCP fyrir viðburði í húsakynnum CCP í Grósku þar sem nýtt alþjóðlegt netnámskeið innan edX-samstarfsins verður opnað. Það ber heitið „Vináttuvélin: Að mynda nýja tegund mannlegra tengsla“ og í því rýnt í þau margslungnu áhrif sem tölvuleikir hafa í samfélaginu í dag. Innan CCP hafa verið unnar rannsóknir á samskiptum og vináttuböndum sem myndast hafa milli spilara í fjölspilunarleiknum EVE Online og hjá Háskóla Íslands er löng hefð fyrir rannsóknum á heilsu og líðan ungs fólks. Hvoru tveggja er miðlað í námskeiðinu en það er er opið öllum áhugasömum um allan heim og fólk getur tekið það á þeim hraða sem það kýs. 

Viðburðurinn verður á ensku og í beinu streymi

Daginn eftir, fimmtudaginn 27. maí kl. 12, er komið að viðburðinum „Skyndikynni af sprotafyrirtækjum Háskóla Íslands“. Þar munu fulltrúar sprotafyrirtækjanna Akthelia Pharmaceuticals, Atmonia, Grein Research og Oculis, sem öll hafa verið stofnuð á grunni rannsókna við Háskóla Íslands og vinna að nýjum lausnum sem nýst geta öllum heiminum, fjalla í stuttum og spennandi erindum um áskoranir í starfi og framtíðarsýn.

Viðburðinum verður streymt

Föstudaginn 28. maí kl. 14-16 verður lokadegi samfélagshraðalsins Snjallræðis fagnað en Háskóli Íslands er meðal aðstandenda hans. Á lokadeginum gefst frábært tækifæri til þess að kynnast þeim átta framúrskarandi verkefnum sem valin voru til þátttöku í hraðlinum og fólkinu á bak við þau. Viðburðinn fer fram í Grósku og þarf að skrá sig á hann en einnig verður hægt að fylgjast með honum í streymi.

Laugardaginn 29. maí kl. 11 bjóða Háskóli Íslands og Ferðafélag Íslands upp á gönguferð á slóðum nýsköpunar í sjávarútvegi við Reykjavíkurhöfn undir forystu frumkvöðulsins Sigurjóns Arasonar, prófessors emeritus við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands og yfirverkfræðings hjá Matís. Vignir Albertsson, fyrrum skipulagsfulltrúi hjá Faxaflólahöfnum, mun ganga með Sigurjóni og fróðsleiksfúsu göngufólki og miðla af sinni þekkingu. Hist verður við Kaffivagninn og ætlunin er að ganga um bryggjurnar þar sem fiskvinnslan hefur gjarnan verið mest í Reykjavík og útgerðin hvað mest áberandi en í seinni tíð hafa fjölbreytt sprota- og þjónustufyrirtæki tengd sjávarútvegi einnig komið sér fyrir þar. Sigurjón hefur á löngum ferli unnið með fjölmörgum sjávarútvegsfyrirtækjum að margs konar nýsköpunarverkefnum. 

Gangan er öllum opin en nánari upplýsingar um hana eru á vef Háskóla Íslands.

Háskóli Íslands slær svo botninn í Nýsköpunarvikuna af sinni hálfu með afhendingu Vísinda- og nýsköpunarverðlauna skólans miðvikudaginn 2. júní kl. 12 í Hátíðasal Aðalbyggingar. Metfjöldi tillagna, eða 50, barst í samkeppnina að þessu sinni og verða veitt verðlaun fyrir bestu hugmyndirnar í fjórum flokkum: Heilsa og heilbrigði, Tækni og framfarir, Samfélag og Hvatningarverðlaun. Auk þess verður sigurvegari keppninnar valinn úr hópi verðlaunahafa úr ofangreindum flokkum. Á athöfninni munu nemendur Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík jafnframt fjalla um verkefni sitt sem hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands í upphafi árs.

Afhending verðlaunanna verður í beinu streymi.

Dagskrá Nýsköpunarvikunnar í heild sinni má finna á vef vikunnar.

""