Skip to main content

Vináttuvélin: Að mynda nýja tegund mannlegra tengsla

Vináttuvélin: Að mynda nýja tegund mannlegra tengsla - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
26. maí 2021 17:00 til 18:00
Hvar 

Í Grósku og í streymi

Nánar 
Aðgangur ókeypis

- Nýsköpun í kennslu í samstarfi Háskóla Íslands og CCP

Fulltrúar Háskóla Íslands og CCP opna nýtt netnámskeið um vináttu á tímum vaxandi tölvuleikjaspilunar miðvikudaginn 26. maí kl. 17. Viðburðurinn er liður í Nýsköpunarvikunni sem sett verður í Grósku – hugmyndahúsi þennan sama dag. Viðburðurinn verður í streymi og verður á ensku.

Tölvuleikjaiðnaðurinn hefur vaxið afar hratt á 21. öldinni og eru tekjur af honum nú orðnar meiri en samanlagðar tekjur kvikmynda- og tónlistargeirans. Áætlað hefur verið að 2,6 milljarðar manna stundi nú tölvuleiki að jafnaði og reikna má með að 125 milljónir nýrra spilara bætist í þann hóp á þessu ári.

Tölvuleikir hafa hins vegar ekki aðeins breytt efnahagskerfi heimsins á nýrri öld heldur einnig haft áhrif á persónuleg samskipti fólks og menningu þvert á landamæri. Í nýju og opnu netnámskeiði Háskóla Íslands innan edX-netsins, sem þróað er í samstarfi við tölvuleikjaframleiðandann CCP, er rýnt í þessi margslungnu áhrif tölvuleikja en innan CCP hafa verið unnar rannsóknir á samskiptum og vináttuböndum sem myndast hafa milli spilara í fjölspilunarleiknum EVE Online.

Er hægt að hanna vináttu? Hefur vinátta sem verður til á netinu sömu þýðingu og sú sem verður til í raunheimum? Hvaða hlutverki gegna tölvuleikir í myndun nýrra vinasambanda þvert á heimsálfur? Hver eru heilsufarslega áhrif þess að vera einmana og hvaða hlutverki gegna tölvuleikir í að rjúfa einagrun fólks? Þessum og fleiri spurningum er svarað á námskeiðinu auk þess sem fjallað er um hvernig tölvuleikir eru að þróast, bæði sem afþreying og samfélagslegur áhrifavaldur.

Námskeiðið verður formlega opnað á athöfn í húsakynnum CCP á þriðju hæð í Grósku 26. maí. Við opnunina munu fulltrúar beggja aðila ræða þróun háskólastarfs til framtíðar og kennarar í námskeiðinu, þeir Tryggvi Hjaltason og Ársæll Már Arnarson, segja frá áherslum þess og efni.

Opnun námskeiðsins er hluti af opnu húsi í Grósku sem tekur við af setningarathöfn Nýsköpunarvikunnar. Fjöldi gesta á opnun námskeiðsins mun taka mið af sóttvarnatakmörkunum sem í gildi verða en opnunin verður einnig í beinu streymi.

Viðburðurinn er hluti af Nýsköpunarvikunni, nýrri hátíð í Reykjavík sem fer fram dagana 26. maí -2. júní. Frumkvöðlum og fyrirtækjum gefst tækifæri á að kynna þá skapandi starfsemi sem á sér stað á degi hverjum, opna dyrnar fyrir gestum og gangandi og vekja athygli á þeim framúrstefnulegu lausnum sem hafa sprottið upp úr íslensku hugviti. Nánar á nyskopunarvikan.is

Fulltrúar Háskóla Íslands og CCP opna nýtt netnámskeið um vináttu á tímum vaxandi tölvuleikjaspilunar miðvikudaginn 26. maí kl. 17. Viðburðurinn er liður í Nýsköpunarvikunni sem sett verður í Grósku – hugmyndahúsi þennan sama dag. Viðburðurinn verður í streymi.

Vináttuvélin: Að mynda nýja tegund mannlegra tengsla