Ný bók um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja á norðurslóðum | Háskóli Íslands Skip to main content
7. september 2021

Ný bók um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja á norðurslóðum

Ný bók um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja á norðurslóðum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er komin bókin Corporate Social Responsibility in the Arctic - The New Frontiers of Business, Management, and Enterprise. Það er Routledge-bókaforlagið sem gefur bókina út. Höfundar bókarinnar eru Gisele M. Arruda, prófessor við Háskólann í Aberdeen í Skotlandi og Lára Jóhannsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.

Bókin tengist þeim vistfræðilegu, félagslegu og efnahagslegu breytingum sem eru að eiga sér stað á norðurheimskautssvæðinu, þeim áhrifum sem breytingarnar hafa á íbúa og vistkerfi og hlutverki og ábyrgð fyrirtækja í að tryggja að sjálfbæra þróun svæðisins. Bókin er innlegg inn í þá umræðu að gera norðurheimskautið að sjálfbærum stað þar sem fyrirtæki, frumkvöðlar, stjórnendur, vísindamenn, samfélag og vistkerfi geta vaxið og dafnað. Bókin fjallar um nýja stefnu og áherslur á sviði samfélagslegrar ábyrgðar fyrirtækja sem hafa mun áhrif á alþjóðleg viðskipti og viðskiptasiðfræði. 

Bókin verður kynnt á hnattrænum viðburði sem steymt verður frá Hátíðasal Háskóla Íslands þriðjudaginn 14. september 2021 kl. 15. Aðkomu að þeim viðburði hafa námsbraut í umhverfis- og auðlindafræði, Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands, Rannsóknarsetur um norðurslóðir, Stofnun Sæmundar fróða, Fulbright stofnunin á Íslandi, Festa – miðstöð um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni, auk Háskólans í Aberdeen í Skotlandi. 

Auk höfunda bókarinnar taka hr. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, Donald Hislop, prófessor við Háskólannn í Aberdeen, dr. Nathalie Hilmi, einn af höfundum skýrslna á vegum Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um um loftslagsbreytingar (IPCC) og vísindamaður við Monaco Scientific Center, Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða, Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu – miðstöðvar um samfélagslega ábyrgð og sjálfbærni, og Berglind Rán Ólafsdóttir, framkvæmdastýra Orku náttúrunnar,  þátt í viðburðinum. Fundarstjóri er Pia Hansson, forstöðumaður Alþjóðamálastofunar Háskóla Íslands.

Höfundar bókarinnar eru Gisele M. Arruda, prófessor frá Háskólanum í Aberdeen í Skotlandi og Lára Jóhannsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.

Bókin er mikilvægt innlegg inn í umræðuna um samfélagslega ábyrgð fyrirtækja sem starfa á norðurslóðum og gagnast nemendum, fræðimönnum, stjórnendum fyrirtækja, stjórnvöldum, frjálsum félagasamtölum og öðrum þeim sem láta sig þetta mikilvæga málefnið varða. 

Í bókinni eru 10 kaflar þar sem farið er á kerfisbundinn hátt yfir innri og ytri áhrifaþætti sem áhrif hafa á samfélagslega ábyrgð fyrirtækja sem starfa innan viðkvæms umhverfis norðurheimskautsins. Bókin byggir á hefðbundnum og nýjum líkönum um samfélagsábyrgð. Þau tengjast raundæmum frá norðurheimskautsþjóðunum átta auk þess taka mið af umræðu um samfélagslega ábyrgð og siðferðilegar áskoranir sem tengjast félagslegum og umhverfislegum þáttum í rekstri fyrirtækja, samfélögum sem þau starfa í og vistkerfum sem þau byggja tilvist sína á.

Gisela M. Arruda og Lára Jóhannsdóttir fara einnig yfir aðferðir til að virkja haghafa í umræðunni um samfélagslega ábyrgð, félags- og umhverfislega staðla og sjálfbærni. Sú umræða byggir áheimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, Global Compact sáttmála Sameinuðu þjóðanna um samfélagsábyrgð, leiðbeiningum OECD fyrir fjölþjóðafyrirtæki og Global Reporting Initative skýrslugerðarstaðalinn. Auk þess byggir ný sýn á samfélagslega ábyrgð fyrirtækja á norðurslóðum á hugmyndum og stefnum um hringrásarhagkerfi, bláa hagkerfið, snjalla sérhæfingu, þekkingarmiðað frumkvöðlastarf og nýjar áherslur í menntun. Í bókinni er skoðað hvernig breytt umhverfi og ríkar náttúruauðlindir norðurslóða skapa fyrirtækjum og samfélögum einstök tækifærien jafnframt gríðarlegar áskoranir.

Skip á siglingu milli ísljaka