Skip to main content

Þjóðin, sögurnar, Grimm og Jón Árnason

Terry Gunnell, prófessor við Félags- og mannvísindadeild

Þessa dagana er Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði, á kafi í þjóðsögum og er það sjálfsagt eitt það skemmtilegasta sem þjóðfræðingur getur sýslað við, að komast inn í kvikuna á heilli þjóð í gegnum munnmælasögur sem hún hefur notað sér til skemmtunar.

„Þetta er sameiginlegt þriggja ára RANNÍSverkefni okkar Rósu Þorsteinsdóttur, rannsóknarlektors við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Verkefnið snýst um þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri sem kom út árin 1862 til 1864,“ segir Terry um þessa rannsókn. „Þjóðsagnasafn Jóns Árnasonar er talið eitt mikilvægasta bókmenntaverk Íslendinga. Jón fór þó ekki um landið sjálfur til að safna sögum heldur fékk hann fólk til þess verks um land allt.“
 

Terry Gunnell

Terry segir að þjóðsagnagagnasafnið Sagnagrunnur geri honum og Rósu kleift að kortleggja söfnunarferilinn yfir tíma en Sagnagrunnurinn er kortlagður gagnagrunnur yfir sagnir úr helstu þjóðsagnasöfnum Íslendinga, „en um leið skoðum við söfnunarferilinn í alþjóðlegu samhengi.“

Terry Gunnell

Terry segir að með aðstoð Landsbókasafns sé nú verið að skanna öll frumhandrit af þjóðsögunum til að unnt sé að bera saman upprunalegar útgáfur sagnanna við lokagerðirnar sem voru prentaðar.

„Þar að auki er verið að skanna og skrifa upp bréfin sem fóru milli Jóns og safnaranna, og milli hans og meðritstjóranna, Guðbrands Vigfússonar í Kaupmannahöfn og Konrads Maurer í München.“

Terry segir að þjóðsagnagagnasafnið Sagnagrunnur geri honum og Rósu kleift að kortleggja söfnunarferilinn yfir tíma en Sagnagrunnurinn er kortlagður gagnagrunnur yfir sagnir úr helstu þjóðsagnasöfnum Íslendinga, „en um leið skoðum við söfnunarferilinn í alþjóðlegu samhengi.“

Árið 2014, þegar verkefnið hófst, voru 150 ár liðin frá útgáfu þjóðsagnasafns Jóns Árnasonar og árið 2018 verður 200 ára afmæli Deutsche sagen, þjóðsagnasafns Grimms-bræðra, sem var kveikja þess að farið var að safna þjóðsögum á Norðurlöndum.

Til viðbótar þessu íslenska verkefni leiðir Terry alþjóðlegt verkefni sem ber einmitt heitið Grimm Ripples. „Þar rannsökum við hlutverk þjóðsagnasöfnunar 19. aldar á Norðurlöndum við sköpun þjóðmenningar og könnum þá sérstaklega þjóðsögur sem minni í þjóðlegum leikritum, skáldsögum, tónlist og myndlist,“ segir Terry. „Um leið er upphaf þjóðfræði sem greinar rannsakað.“

Terry segir að bók með alþjóðlegum fræðigreinum um Grimm Ripples komi út á næsta ári: „Rannsóknin er liður í því að skilja hvernig þjóðmenning verður til og hve nauðsynlegt er að skoða tilurð íslenskrar menningar í alþjóðlegu samhengi.“