Sögur varpa ljósi á skiptingu húsverka á tímum heimsfaraldurs | Háskóli Íslands Skip to main content

Sögur varpa ljósi á skiptingu húsverka á tímum heimsfaraldurs

Fátt annað hefur komist að í umræðum í fjölmiðlum og meðal fólks undanfarna mánuði en COVID-19-faraldurinn og áhrif hans á heimsbyggðina. Áhrifin eru enda gríðarleg og snerta okkur öll á einhvern hátt, bæði úti í samfélaginu og inni á heimilinu. Flestar fjölskyldur hér á landi hafa t.d. fundið fyrir því með einhverjum hætti hvernig skólastarf hefur raskast og sama má segja um störf sem í æ ríkari mæli hafa færst inn á stofu- og eldhúsborð fólks með tilheyrandi álagi. 

„Skóla- og tómstundastarf barna var verulega skert vorið 2020 sem skapaði álag á útivinnandi foreldra. Rannsóknir sýna að kröfur til foreldra barna, einkum mæðra, hafa aukist gríðarlega í auðugum ríkjum heims og því er mikilvægt að skilja með hvaða hætti fólk skilur foreldrahlutverkið á tímum heimsfaraldurs og skerts skólastarfs,“ segir  Auður Magndís Auðardóttir, aðjunkt og doktorsnemi við Deild Menntunar og margbreytileika, sem ásamt Önnudís Gretu Rúdólfsdóttur, dósent við sömu deild, rýndi í núninginn í fjölskyldulífi landans í miðju kófinu í vor. 

Áherslan í rannsókninni, sem naut stuðnings Háskólasjóðs, var á orðræðu um fjölskyldulíf á tímum heimsfaraldurs en til þess að varpa ljósi á hana beittu þær rannsóknaraðferð sem lítið hefur verið notuð hér á landi hingað til, svokallaðri sögulokaaðferð (e. story-completion method). „Þátttakendur í rannsókninni fengu úthlutað af handahófi byrjun á sögu sem lýsti annaðhvort móður eða föður tveggja barna á grunnskólaaldri á tímum skerts skólastarfs vegna COVID-19. Þátttakendurnir voru síðan beðnir um að segja frá næstu dögunum í lífi foreldrisins,“ segir Annadís og bætir við að sögulokaaðferðin sé afar vel til þess fallin að festa fingur á orðræðu og það á hvaða hátt fólki er mögulegt að skrifa og hugsa um það rannsóknarfyrirbæri sem sjónum er beint að. „Þar sem um skáldskap er að ræða eru þátttakendur frelsaðir undan því að þurfa að lýsa eigin lífi eða vera bundnir af samfélagslega viðurkenndum svörum. Á sama tíma er skáldskapur alltaf grundaður í því þekkta og mögulega innan samfélags okkar og sögurnar gefa okkur því mikilvægt gögn til að skilja og greina samfélagsgerðina.“

Aðspurðar um þýðingu niðurstaðnanna benda þær á að gögnin afhjúpi með hvaða hætti þátttakendum var unnt að tala um fjölskyldulíf og álag sem skapaðist vegna skerts skólastarfs og átaka á milli umönnunar barna og atvinnuþátttöku í kófinu. „Slík þekking er mikilvæg í sjálfu sér og getur nýst við stefnumótun á sviði jafnréttismála, t.d. beint sjónum að þætti í jafnréttistarfi sem ekki hefur fengið nóga athygli undanfarna áratugi, það er jafnari verkaskiptingu inni á heimilum,“ segir Annadís. MYND/Kristinn Ingvarsson

Annadís og Auður

Orðræðan um hinn vanvirka heimilisföður enn nokkuð sterk

Þær stöllur söfnuðu samtals nærri hundrað sögum á meðan á fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins stóð, flestum frá háskólamenntunuðum konum en einnig körlum. 
Aðspurðar um niðurstöður segir Auður að orðræðan í sögunum hafi einkennst af átökum á milli foreldrahlutverksins og atvinnuþátttöku. „Þessum átökum er einkum mætt á þrennan hátt: Með aga og jákvæðni þar sem neikvæðar tilfinningar eru fordæmdar og bældar niður, með mótspyrnu þar sem þátttakendur mótmæla þeim ómanneskjulegu kröfum sem mæta foreldrum eða með uppgjöf sem oftast fólst í óhreinu heimili og börnum sem ekki sinna námi heldur horfa bara á sjónvarpið,“ segir hún og vísar í dæmi úr einni af sögunum:

Á daginn þarf að hafa ofan af fyrir börnunum á daginn, hjálpa þeim að læra, mæta á fjarfundi og klára verkefni, fara út með hundinn, þvo þvott, versla og elda í matinn og það bergmálar um allt samfélagið að fjölskyldur í þessari stöðu eigi bara að vera jákvæð og njóta. Það er hægara sagt en gert og Anna er mjög spennt þegar allt fer aftur í sama gamla horfið. Eins mikið og henni þykir vænt um börnin sín og fjölskylduna er erfitt að eiga njóta augnabliksins án afláts. Hún þorir samt ekki að viðurkenna þessar tilfinningar fyrir sjálfri sér og hvað þá fyrir öðrum því henni liður eins og öllum öðrum gangi svo vel í þessa ástandi.

Annadís bætir við að þátttakendur hafi í sögulokunum undirstrikað ólíka þátttöku mæðra og feðra í heimilishaldi meðal annars með því að láta heimfaraldurinn kenna karlrembum lexíu í húsverkum. „Það bendir til þess að þátttakendurnir séu ósáttir við karlmenn sem taka lítinn þáttt í heimilisstörfum og að orðræða um hinn vanvirka heimilisföður sé enn nokkuð sterk hérlendis,“ segir hún. Niðurstöðurnar varpi jafnframt ljósi á orðræðu um það hvað það þýðir að vera ábyrgt foreldri á Íslandi almennt. „Þannig er hið ábyrga foreldri álitið agað og setur þarfir og menntun barnanna í forgang, jafnvel á tímum heimsfaraldurs.“

Samfélagið horfist í augu við miklar kröfur til foreldra

Grein um niðurstöður rannsóknar þeirra Auðar og Önnudísar hefur þegar verið birt í fræðiritinu Gender, Work and Organization sem er með virtustu tímaritum í heimi á sviði kynjarannsókna. Þá eru þær stöllur með aðra grein í smíðum sem birtast mun í íslenska fræðiveftímaritinu Netlu á næstunni.

Aðspurðar um þýðingu niðurstaðnanna benda þær á að gögnin afhjúpi með hvaða hætti þátttakendum var unnt að tala um fjölskyldulíf og álag sem skapaðist vegna skerts skólastarfs og átaka á milli umönnunar barna og atvinnuþátttöku í kófinu. „Slík þekking er mikilvæg í sjálfu sér og getur nýst við stefnumótun á sviði jafnréttismála, t.d. beint sjónum að þætti í jafnréttistarfi sem ekki hefur fengið nóga athygli undanfarna áratugi, það er jafnari verkaskiptingu inni á heimilum,“ segir Annadís.

Undir þetta tekur Auður og bætir við: „Niðurstöður okkar benda einnig til þess að mikilvægt sé fyrir okkur sem samfélag að horfast í augu við hvaða kröfur við gerum til foreldra og hvort þær séu svo miklar að þær komi niður á lífsgæðum foreldra og barna og möguleikum okkar til kynjajafnréttis.“