Skip to main content

Samhygð í umönnun heilabilaðra

Arnrún Halla Arnórsdóttir, doktorsnemi við Sagnfræði- og heimspekideild

Hugmyndir innan heimspeki, siðfræði, hjúkrunarfræði og umönnunarfræða sem tengjast einstaklingum með heilabilun eru tengdar saman í doktorsverkefni í hagnýtri siðfræði sem Arnrún Halla Arnórsdóttir vinnur nú að. „Í rannsókninni hyggst ég sýna fram á hvernig hægt sé að nota hugtakið samhygð á markvissan hátt til að bæta framkomu fagaðila sem sinna fólki, með áherslu á umönnun einstaklinga með heilabilun. Markmiðið er því að tryggja gæði umönnunarinnar og þar með bæta líðan þessara einstaklinga eins og hægt er,“ segir Arnrún.

Arnrún bendir á að ört vaxandi fjöldi einstaklinga með heilabilun kalli á aukna þekkingu á bestu mögulegu meðferðarúrræðum. Sjálf státar hún af 15 ára reynslu af störfum sem hjúkrunarfræðingur, lengst af með einstaklingum með heilabilun. „Mér fannst eitthvað vanta til að aðstoða við að tryggja gæði meðferðarsamskipta. Það er ekki nóg að segja að sýna eigi virðingu heldur verður að vera klárt hvernig á að gera það. Og þar vantar upp á vitneskju og viðhorf – hvað er að sýna virðingu?“ segir hún um kveikjuna að verkefninu.

„Mér fannst eitthvað vanta til að aðstoða við að tryggja gæði meðferðarsamskipta. Það er ekki nóg að segja að sýna eigi virðingu heldur verður að vera klárt hvernig á að gera það. Og þar vantar upp á vitneskju og viðhorf – hvað er að sýna virðingu?“

Arnrún Halla Arnórsdóttir

Arnrún segir samhygð heillandi hugtak sem hún telji að geymi þau svör sem hún hefur leitað að. „Samhygðin felur í sér kröfu um ákveðinn skilning, mennsku, ímyndunarafl. Þessi skilningur er mögulegur því við erum öll fyrst og fremst manneskjur. Einstaklingur sem þjáist af Alzheimers-sjúkdómnum upplifir t.d. mikla angist á köflum. Ég þarf ekki að vita nákvæmlega hvers vegna til þess að geta nálgast hann því ég veit hvað angist er. Þar get ég því notað samhygðina sem kröfu um ákveðinn skilning til þess að aðlaga viðhorf mitt að aðstæðum skjólstæðings míns og þannig tryggt virðingu í allri minni framkomu,“ segir Arnrún enn fremur.

Arnrún vonast til þess að afrakstur doktorsverkefnisins verði grunnur að leiðbeiningum fyrir fagmanneskjur, sem starfa við umönnun, um hvernig á að tileinka sér viðhorf samhygðar. „Það skilar sér vonandi í bættum gæðum þeirrar umönnunar sem veitt er og betri líðan skjólstæðinga. Betri líðan skjólstæðinga skilar sér í skilvirkara kerfi og skilvirkara kerfi skilar sér í hagkvæmni fyrir alla í samfélaginu,“ segir hún enn fremur.

Leiðbeinandi: Salvör Nordal, doktor í heimspeki.