Sameinuðu þjóðirnar og stjórnarskrár í kjölfar stríðs | Háskóli Íslands Skip to main content

Sameinuðu þjóðirnar og stjórnarskrár í kjölfar stríðs

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir, mag. jur. frá Lagadeild

Dvöl Auðar Tinnu Aðalbjarnardóttur við Columbia-háskóla sumarið 2015 varð henni innblástur að meistaraverkefni í lögfræði sem hún lauk á haustmánuðum 2016. „Við Columbia-háskóla sat ég áfangann „The UN and the Challenges of Peacebuilding“. Þar komu skýrlega fram áhrif Sameinuðu þjóðanna á uppbyggingu ríkja að stríðsátökum loknum og ég fór að velta fyrir mér hvort þau áhrif næðu inn á svið lögfræðinnar, sérstaklega með tilliti til mannréttinda,“ segir Auður Tinna.

Í lokaverkefni sínu skoðaði hún annars vegar þau áhrif sem Sameinuðu þjóðirnar hafa á inntak mannréttindaákvæða stjórnarskráa að átökum loknum og hins vegar mannréttindavernd í þeim ríkjum þar sem SÞ hafa haft þessi áhrif. „Mér þótti spennandi að athuga hvaða mannréttindi koma sterkt fram í stjórnarskrám sem settar eru að loknum stríðsátökum, þegar SÞ taka mikinn þátt í ferlinu. Þá var ljóst að lítið sem ekkert hafði verið fjallað um slíka stjórnarskrárgerð frá sjónarhorni lögfræði,“ bendir Auður Tinna á.
 

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir

„Enn fremur komst ég að því að í ríkjunum tólf sem til athugunar voru virðist almennt ekki takast að fullnægja þeim kröfum um mannréttindavernd sem þau settu sér sjálf undir áhrifum SÞ, sérstaklega er varðar réttindi sem ekki eru af fyrstu kynslóð mannréttinda, t.d. jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og almenna vernd minnihlutahópa.“

Auður Tinna Aðalbjarnardóttir

Helstu niðurstöður Auðar Tinnu eru þær að svo virðist sem stjórnarskráraðstoð SÞ hafi þau áhrif að stjórnarskrár innihaldi mörg réttindi, oft sömu réttindin og þá sérstaklega mörg réttindi sem teljast til þriðju kynslóðar mannréttinda, en meðal þeirra er rétturinn til heilsusamlegs umhverfis og réttindi minnihlutahópa. „Enn fremur komst ég að því að í ríkjunum tólf sem til athugunar voru virðist almennt ekki takast að fullnægja þeim kröfum um mannréttindavernd sem þau settu sér sjálf undir áhrifum SÞ, sérstaklega er varðar réttindi sem ekki eru af fyrstu kynslóð mannréttinda, t.d. jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og almenna vernd minnihlutahópa,“ segir hún.

Niðurstöðurnar undirstrika, að sögn Auðar Tinnu, að þó að stjórnarskrárbreytingar hafi undanfarið verið viðurkenndar í auknum mæli sem mikilvægar við endurreisn í kjölfar átaka sé réttindavernd í raun í töluverðu ósamræmi við þau fyrirheit sem gefin eru í hinum nýju stjórnarskrám.

Leiðbeinandi: Oddný Mjöll Arnardóttir, prófessor við Lagadeild.