Skip to main content

Lifað með HIV

S. Ragnar Skúlason, MA frá Félagsráðgjafardeild

„Markmiðið með rannsókninni var að skyggnast inn í veruleika eldra HIV-smitaðs fólks og skoða persónulega og félagslega upplifun þess af að lifa og eldast með sjúkdóminn ásamt framtíðarsýn þess,“ segir S. Ragnar Skúlason. Honum fannst lítið hafa farið fyrir rannsóknum á þessu sviði á Íslandi í samanburði við nágrannaríkin og bætti úr því í lokaverkefni sínu til meistaraprófs í félagsráðgjöf sem bar yfirskriftina „Hinn týndi hópur: Að lifa með HIV“. „Það var löngu tímabært að draga þennan hóp fólks fram í dagsljósið og varpa ljósi á stöðu hans í samfélaginu,“ segir hann.

Tekin voru viðtöl við átta einstaklinga, fjóra karla og fjórar konur, sem áttu það sameiginlegt að hafa greinst með HIV. Hinn týndi hópur vísar til þess að HIV-smitaðir á Íslandi fela sjúkdómsstöðu sína og lifa í skugga sjúkdómsins. Ragnari fannst því full ástæða til að vekja athygli á málefninu. Með vali á viðfangsefni vildi Ragnar jafnframt sýna bæði þeim sem lutu í lægra haldi fyrir sjúkdómnum og þeim, sem börðust við sjúkdóminn og lifðu af, ákveðinn virðingarvott.
 

S. Ragnar Skúlason

„Markmiðið með rannsókninni var að skyggnast inn í veruleika eldra HIV-smitaðs fólks og skoða persónulega og félagslega upplifun þess af að lifa og eldast með sjúkdóminn ásamt framtíðarsýn þess.“

S. Ragnar Skúlason

Tengslanet og sjálfsmynd höfðu mikil áhrif á upplifun viðmælenda við greiningu sjúkdómsins. „Meira en helmingur þátttakenda ræddi ekki opinskátt um sjúkdóminn. Þeim fannst erfiðast að mynda rómantísk tengsl og ótti við höfnun var mjög mikill vegna sjúkdómsins. Eldra fólki með HIV á Íslandi hefur tekist með seiglu og bjargráðum að skapa sér gott lífsviðurværi þrátt fyrir erfiðar áskoranir sem það stóð frammi fyrir,“ segir Ragnar.

Ragnar telur að með auknum rannsóknum á þessu sviði megi stuðla að því að stefnumótun fái aukið vægi í tengslum við fræðslu og forvarnir á sviði HIV og alnæmis. Leiðbeinandi: Guðbjörg Ottósdóttir, lektor við Félagsráðgjafardeild.