Skip to main content

Kerfið frá sjónarhóli hælisleitenda

Helgu Katrínu Tryggvadóttur doktorsnema finnst gaman að grúska í gögnum og greina þau. Hún er fróðleiksfús og finnst hún aldrei vita nógu mikið, alltaf sé einhverjum spurningum ósvarað. Ef hún finnur leið til þess að svara þeim þá vonar hún að svörin nýtist fleirum líka.

Í doktorsverkefni sínu í mannfræði fær Helga Katrín útrás fyrir að grúska, greina og leita svara. „Rannsóknin mín snýst um að skoða hæliskerfið út frá sjónarhorni hælisleitenda. Hvernig hælisleitendur upplifa þetta kerfi og það að vera í raun staddur á landamærum þrátt fyrir að vera staðsettur innan landsins. Hvernig upplifa þeir það að vera valin(n) sem „verðug(ur)“ til að hljóta stöðu flóttamanns eða vera hafnað um þá stöðu og hvaða þættir hafa áhrif á það val? Ég leita eftir svörum við þessum spurningum út frá ýmsum kenningum, til dæmis um landamæri og mörk, þjóðríki, verðugleika og stjórnvisku,“ segir hún.

Helga Katrín Tryggvadóttir

„Rannsóknin mín snýst um að skoða hæliskerfið út frá sjónarhorni hælisleitenda. Hvernig hælisleitendur upplifa þetta kerfi og það að vera í raun staddur á landamærum þrátt fyrir að vera staðsettur innan landsins.“

Helga Katrín Tryggvadóttir

„Ég hafði kynnst hælisleitendum og þekkti nokkuð til aðstæðna þeirra og var beðin um að gera rannsókn á aðstæðum þeirra sem þróaðist út í þetta doktorsverkefni. Það eru ekki komnar niðurstöður úr heildarverkefninu en ég er um það bil hálfnuð með vettvangsrannsókn og viðtöl. Úr þeim niðurstöðum sem komnar eru hef ég greint hvernig landamæri og mörk útiloka hælisleitendur frá því að verða hluti af samfélaginu,“ segir Helga Katrín.

Áður en Helga Katrín fór af stað með rannsóknina sína hafði staða hælisleitenda lítið verið rannsökuð hér á landi. „Sem betur fer hefur rannsóknum á þessu sviði fjölgað mjög hratt undanfarin ár. Þessi rannsókn getur dýpkað viðfangsefnið. Auk þess að kanna stöðu og líðan hælisleitenda eða velta upp spurningum um lagaleg álitaefni er tilgangur hennar að nálgast ýmsar grundvallarspurningar með því að notast við rannsóknaraðferðir mannfræðinnar,“ segir grúskarinn mikli að lokum.