Skip to main content

Kaupa fíkniefni á Facebook

""

Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild

Stórfelld sala á fíkniefnum fer fram í íslenskum söluhópum á Facebook. Þetta kemur fram í samnorrænni rannsókn á fíkniefnasölu á netinu sem Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði, hefur tekið þátt í. Um þrjátíu lokaðir söluhópar fundust en fjöldi meðlima í hverjum hóp var allt frá nokkrum tugum til þúsunda. Innan hópanna kom í ljós líflegur markaður þar sem finna mátti allar tegundir fíkniefna sem fást hér á landi auk stera sem buðust í nokkrum hópum.

Rannsóknin fólst í að safna upplýsingum um það hvernig sölu á fíkniefnum væri háttað á netinu á Norðurlöndunum og hvert umfang þeirrar sölu væri í hverju landi. Hún var gerð að frumkvæði fræðimanna við Háskólann í Kaupmannahöfn.

Sala að færast yfir á Netið

Helgi segir þróun fíkniefnamarkaðarins vera í takt við þær öru tækniframfarir og netvæðingu sem á sér stað í nútímanum. „Sala á öllu er að færast yfir á netið. Ef þú ert farinn að kaupa fötin á netinu þá kaupirðu dópið á netinu líka,“ segir hann.

Að sögn Helga er auðvelt að komast inn í Facebook-hópana svo lengi sem áhugi er til staðar. Rannsakendur hafi fljótt fengið aðgang að hópunum sem fundust hér á landi og að í ljós hafi komið gróskumikill fíkniefnamarkaður fullur of myndefni og auglýsingum.

Hluti af verkefni rannsakenda var að taka viðtöl við seljendur og kaupendur og safna skjáskotum úr hópunum. Háskólanemum var boðið að taka þátt í upplýsingaöfluninni og það boð þáði Inga Rut Helgadóttir, þáverandi nemandi Helga í félagsfræði, og skrifaði hún BA-ritgerð sína um rannsóknina.

Á skjáskotum íslensku hópanna má sjá ýmsa frasa sem eiga að gera fíkniefnin aðlaðandi fyrir notendur: „Gerir þig mýkri en lítið lamb“, „sendir þig beint út í geim“ og „silkimjúk lending“, eru dæmi um slíka frasa. Auglýsingarnar vísa oft í kvikmyndir og poppmenningu. Þær eru grípandi og litríkar og mikið um tjámerki og broskalla.

Að sögn Helga kom í ljós að alls konar fólk nýtti sér netið til að kaupa fíkniefni en yngri karlar voru mest áberandi og þannig endurspeglaði markaðssetningin markhópinn.

„Við þurfum að vita hvað við erum að fást við. Ótrúlegur fjöldi ungmenna hefur dáið á síðustu tveimur árum af völdum fíkniefna. Hvar eru þau að fá þessi efni?“ spyr Helgi. „Nýjustu mælingar sýna að nær helmingur fólks á aldrinum 18-29 ára hefur notað fíkniefni. Þetta er hluti af skemmtanamenningu unga fólksins í dag.“ MYND/Kristinn Ingvarsson

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði

Fíkniefnamarkaðurinn opnastur í Danmörku, Svíþjóð og Íslandi

Helgi segir rannsóknina gefa til kynna að sala fíkniefna hafi aukist við það að verða aðgengileg á netinu. Á þeim tíma sem rannsóknin var gerð á Íslandi, frá hausti 2017 til upphafs árs 2018, urðu rannsakendur varir við fjölgun hópa og meðlima innan hópanna. Viðtöl við seljendur leiddu í ljós að þeim fannst vettvangurinn auðvelda söluna og gera þeim kleift að ná til stærri hóps.

Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu jafnframt að markaðurinn væri opnastur í Danmörku, á Íslandi og í Svíþjóð en mun lokaðri í Finnlandi og Noregi þar sem sams konar söluhópa væri varla að finna á aðgengilegum samfélagsmiðlum eins og Facebook. Helgi segir margt vera sameiginlegt með löndunum þremur þar sem fíkniefnasala á netinu væri virk. Þá vakti það athygli  rannsakenda að innan hópanna sem fundust voru nánast allar upplýsingar á þjóðartungu hvers lands. Lítið væri reynt að ná til þeirra sem ekki töluðu þjóðartunguna. Helgi segir þá staðreynd benda til þess að markmið hópanna sé að þjóna nærumhverfi sínu fyrst og fremst. Aðeins á Íslandi fundust örfáir hópar sem notuðu ensku.

Íslenskan segir til um áreiðanleika sölumanna

Helgi segir íslenska fíkniefnakaupendur skera sig úr þegar kemur að því að meta áreiðanleika og öryggi innan hópanna en ein mælieining á öryggi er góð íslenska. „Ef efnið er vel sett fram á réttri íslensku þá treysta kaupendur sölumönnunum frekar,“ segir Helgi. Hann segir hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa aðrar aðferðir til að meta áreiðanleika innan hópanna. Til að mynda hefði mesta skipulagið verið innan sænsku hópanna en þar ríkti eins konar einkunnakerfi þar sem fólk gaf efnum og seljendum umsögn.

Helgi bendir þó á það sé engin leið að tryggja öryggi fólks inni á þessum markaði. Tilhneiging fíkniefnakaupenda til að treysta seljendum svo auðveldlega væri áhyggjuefni. „Þetta vekur upp þá spurningu hvort það sé viðunandi fyrir velferðarsamfélög eins og Norðurlöndin að vera með svartan markað sem er algjörlega eftirlitslaus,“ segir Helgi og bætir við að vitanlega sé ekki boðið upp á neytendavernd í þessu umhverfi. Engin leið sé fyrir kaupendur að vita hvert innihald efnanna sé, hversu sterk þau séu eða hvað beri að varast. 

Rannsóknina telur Helgi meðal annars mikilvæga í sambandi við t.d. ópíatavandann sem þjóðin stendur frammi fyrir í dag. „Við þurfum að vita hvað við erum að fást við. Ótrúlegur fjöldi ungmenna hefur dáið á síðustu tveimur árum af völdum fíkniefna. Hvar eru þau að fá þessi efni?“ spyr Helgi. „Nýjustu mælingar sýna að nær helmingur fólks á aldrinum 18-29 ára hefur notað fíkniefni. Þetta er hluti af skemmtanamenningu unga fólksins í dag.“ 
    
Höfundur greinar: Rósa Margrét Tryggvadóttir, nemi í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands