Skip to main content

Hversu lengi eru folöld á spena?

Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið 

Íslendingar kannast allir við að sjá hoppandi og skoppandi folöld í sveitum landsins á sumrin. Þar spígspora þau og leika sér en þó aldrei langt frá mæðrum sínum og því alltaf stutt í vænan sopa af mjólk. En hvernig er samskiptum þeirra háttað þegar þau hætta að sjúga mæður sínar? Viðfangsefnið tóku þær Severine Henry, atferlisfræðingur við Háskólann í Rennes í Frakklandi, og Hrefna Sigurjónsdóttir, prófessor í líffræði við Menntavísindasvið, fyrir í rannsókn. Hún fór fram á Íslandi því hér gefst gott tækifæri til að rannsaka hvernig folöld hætta á spena á náttúrulegan hátt.

„Það er misjafnt hvenær folöld eru vanin undan. Í Frakklandi eru folöldin yfirleitt tekin frá mæðrum sínum við sex mánaða aldur án þess að nokkur sérstök rök séu fyrir því. Margir hafa áhyggjur af þessu því aðskilnaðurinn skapar augljóslega mikið stress hjá folöldunum. Hrossaeigendur hér á landi gera þetta margir um svipað leyti en ýmsir láta þau ganga með mæðrum sínum fram á vorið. Við fengum aðstöðu til að fylgjast með hópum á Hólum og Kálfstöðum í Hjaltadal en þar eru folöldin úti með hryssunum frá fæðingu og út apríl árið á eftir, eða í um 11 mánuði. Þessar hryssur voru svo til allar fylfullar. Við skoðuðum hversu nákomið folaldið er móður sinni út frá því hversu nálægt henni það heldur sig og hver samskipti þeirra eru, einkum hvort móðirin ógnar því, sparkar eða bítur,“ segir Hrefna.

Hrefna Sigurjónsdóttir

„Niðurstöðurnar eru í grófum dráttum þær að flest folöldin hætta á spena þegar þau eru rúmlega níu mánaða gömul og að um er að ræða mjög friðsamlegt ferli því flestar hryssurnar sýndu afar litla árásargirni."

Hrefna Sigurjónsdóttir

Rannsóknasjóður Háskóla Íslands hefur styrkt verkefnið og hingað hafa komið fjórir franskir meistaranemar síðastliðna þrjá vetur og lokið rannsóknarritgerðum um tengsl hryssu og folalds. „Niðurstöðurnar eru í grófum dráttum þær að flest folöldin hætta á spena þegar þau eru rúmlega níu mánaða gömul og að um er að ræða mjög friðsamlegt ferli því flestar hryssurnar sýndu afar litla árásargirni. Í þeim fáu tilvikum þar sem hryssan var ekki fylfull voru folöldin enn á spena þegar rannsóknunum lauk um vorið,“ segir Hrefna.

Folald fær sér mjólkursopa að meðaltali einu sinni á klukkustund. „Hryssan lætur það yfirleitt um að hætta að sjúga. Meðalfjarlægð milli hryssu og folalds eykst með tímanum og upp að átta og hálfs mánaðar aldri en svo virðast þau aftur verða nánari seinna meir. Móðirin er samt allaf sá einstaklingur sem folaldið heldur sig mest hjá, líka eftir að það er hætt að sjúga,“ segir Hrefna.

„Það sem hvetur mig áfram í rannsóknum sem þessari er forvitni um eðli dýra og aðdáun á þeim. Þegar um er að ræða húsdýr þá er augljóst hvert gildi rannsóknanna er því við berum ábyrgð á vellíðan þeirra,“ segir Hrefna að lokum.