Skip to main content

Heimaþjónusta við fólk með heilabilun

Margrét Guðnadóttir, doktorsnemi við Hjúkrunarfræðideild

„Heilabilun er vaxandi vandamál á alheimsvísu með hækkandi aldri fólks. Það eru fleiri sem greinast og búa heima við flóknari vanda,“ segir Margrét Guðnadóttir, doktorsnemi við Hjúkrunarfræðideild. Margrét hefur starfað sem hjúkrunarfræðingur í 15 ár og lengst af við heimahjúkrun. „Ég er mjög heilluð af heimaþjónustuumhverfinu. Það að sinna og annast einstakling í sínu umhverfi, á sínu heimili, er bara svo gjörólíkt því að sinna einstaklingi inni á stofnun eða sjúkrahúsi. Heima hefur einstaklingurinn miklu ríkari vilja og sjálfstæði. Fólk vill búa heima með viðeigandi aðstoð og svo er það stefna heilbrigðisyfirvalda að fólk búi lengur heima. Heimaþjónusta er því framtíðin sem við þurfum að efla og styrkja.“

Margrét rannsakar í doktorsverkefni sínu aðstæður fólks með heilabilun sem býr heima. „Hvernig einstaklingum og fjölskyldum þeirra gengur í þessum aðstæðum og hvaða þjónustu þarf að styrkja til að styðja við búsetu heima,“ útskýrir hún.

Margrét Guðnadóttir

„Ég er mjög heilluð af heimaþjónustuumhverfinu. Það að sinna og annast einstakling í sínu umhverfi, á sínu heimili, er bara svo gjörólíkt því að sinna einstaklingi inni á stofnun eða sjúkrahúsi.“

Margrét Guðnadóttir

Í fyrsta hluta rannsóknarinnar voru tekin viðtöl við stjórnendur í þjónustu við fólk með heilabilun. „Niðurstöður okkar þar benda til að það sé margt vel gert en líka nokkuð sem vantar upp á, eins og meiri sveigjanleika í dagþjálfun,“ segir Margrét.

Í næsta hluta rannsóknarinnar verður nokkrum fjölskyldum fylgt eftir í heilt ár. Margrét segist vænta þess að öðlast skilning og vitneskju um hvernig fólk kemst í gegnum ferlið, hvaða úrræði það búi sér til, hvaða úrræði það hafi að leita í og hvað það sé sem við getum gert betur. Áhersla verði lögð á einstaklinga sem bíði eftir dagþjálfun og að skoða áhrif þeirrar þjónustu.

Í þriðja og síðasta hlutanum verða skoðaðar mælingar úr svokölluðu RAI-HC-mælitæki. „Þar sjáum við hlutfall þeirra sem eru greindir með heilabilun og eru með þjónustu í heimahúsi, hvaða þjónustu þeir fá og hvaða stuðning þeir fá frá fjölskyldunni.“ Margrét segist einnig vonast til að geta metið umönnunarbyrði aðstandenda. Það skorti rannsóknir á daglegu lífi einstaklinganna og fjölskyldna þeirra.

Að lokum bendir Margrét á að umræðan um áhrif heilabilunar á einstaklinga og fjölskyldur hafi opnast. „Sem betur fer því þetta stendur okkur nærri, það þekkja allir til einhverra sem glíma við heilabilun.“

Leiðbeinendur: Kristín Björnsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild, Christine Ceci, prófessor við Háskólann í Alberta í Kanada, Marit Kirkevold, prófessor við Háskólann í Ósló, og Jón Snædal, klínískur prófessor, og Pálmi V. Jónsson prófessor, báðir við Læknadeild.