Flókinn vefur fyrirtækjasamstæðna | Háskóli Íslands Skip to main content

Flókinn vefur fyrirtækjasamstæðna

Guðrún Johnsen, lektor við Viðskiptafræðideild

„Opinberar rannsóknir sem gerðar voru í kjölfar bankahrunsins á Íslandi leiddu að þeirri niðurstöðu að flókin eignatengsl og óhemju skuldsettar fyrirtækjasamstæður hafi í raun leitt til falls íslenska bankakerfisins.“ Þetta segir Guðrún Johnsen, lektor við Viðskiptafræðideild, en rannsóknir hennar tengdar hruninu hafa vakið athygli langt út fyrir landsteinana. „Fyrirtækjasamstæðurnar voru svo flóknar,“ segir Guðrún, „að þeir sem byggðu þær upp virtust ekki hafa almennilega yfirsýn yfir þær sjálfir. Það bendir til þess að áhætta sem fylgir lánveitingu inn í samstæðurnar hafi ekki verið rétt metin og ekki rétt verðlögð.“

Guðrún vinnur nú að nýrri rannsókn sem snýst einmitt um að skilja betur hvers vegna hluthafar og/eða stjórnendur kjósi að byggja upp flókinn vef fyrirtækja sem eru tengd saman með eignarhaldi í stað þess að stækka móðurfyrirtækið sjálft. „Þá þurfum við að skilja betur hvaða áhætta fylgir þessum flóknu strúktúrum fyrir fyrirtækin sjálf, fjárfesta og stofnanir samfélagsins; skattayfirvöld, bankakerfið o.s.frv.“
 

Guðrún Johnsen

„Opinberar rannsóknir sem gerðar voru í kjölfar bankahrunsins á Íslandi leiddu að þeirri niðurstöðu að flókin eignatengsl og óhemju skuldsettar fyrirtækjasamstæður hafi í raun leitt til falls íslenska bankakerfisins.“

Guðrún Johnsen

Guðrún segir að sagan af íslenska bankahruninu hafi vitaskuld verið kveikjan að því að viðfangsefnið varð fyrir valinu, „en fyrst og síðast þó það frábæra samstarf sem rannsóknarteymið hefur átt við fyrirtækið Creditinfo, sem lét teyminu einstök gögn í té.“ Guðrún segir að rannsóknarhópurinn sé á lokametrunum með fyrstu greinina sem fjalli um skattgreiðslur fyrirtækjasamstæða.

„Við erum langt komin með fyrstu greinina og niðurstöðurnar koma býsna mikið á óvart. Við erum þó enn að prófa ýmsar útgáfur af líkönum til að lýsa þessu og höfum vonir til að fagtímarit muni vilja birta þær svo við getum veitt m.a. stjórnvöldum leiðsögn um hvað er best að gera ef ætlunin er að skattleggja hluthafa og fyrirtæki með skilvirkum hætti.“

Guðrún segir að fyrirtækjasamstæður séu í eðli sínu mjög stórar að efnahag, séu þær lagðar saman. „Þær eru því stærstu lánþegar hvers fjármálakerfis. Það er ljóst að bæði kallar löggjafinn á það að áhætta tengd lánveitingum til þeirra sé metin rétt og hvaða áhrif þær geta haft á samkeppnismarkað, skattgreiðslur og fjármálastöðugleika.“

Bók Guðrúnar um bankahrunið, Bringing down the banking system – Lessons from Iceland, vakti mikla athygli fyrir fáeinum misserum en þar leitaði Guðrún svara við því hvað olli hruni íslensku bankanna í framhaldi af gríðarlegum vexti í íslensku hagkerfi. Guðrún segir að hún njóti ákveðinna forréttinda, að fá að kljást við hugðarefni eins og þá bók, sem ekki þurfi endilega að skila af sér beinni arðsemi eða hagnaði.

„Á móti þarf rannsókn eins og sú sem bókin byggðist á að koma með framlag til samfélagsins sem færir það áfram til betri vegar og framþróunar. Þannig nýtur samfélagið í heild arðseminnar sem getur almennt hlotist af rannsóknum.“