Skip to main content

Fatlað fólk í Íslandssögunni

Hanna Björg Sigurjónsdóttir, prófessor við Félags- og mannvísindadeild

Hanna Björg Sigurjónsdóttir, prófessor í fötlunarfræði, ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur í rannsóknum sínum en hún stýrir þessi misserin þverfaglega rannsóknarverkefninu „Fötlun fyrir tíma fötlunar“. Verkefnið hlaut hæsta styrk sem hægt er að fá, svokallaðan öndvegisstyrk, úr Rannsóknasjóði RANNÍS árið 2017. Markmið verkefnisins er að finna upplýsingar um fatlað fólk í Íslandssögunni, allt frá landnámi til þess tíma að lög um málefni fatlaðra voru fyrst sett á Alþingi.

„Til þess að nálgast þessar upplýsingar, sem sannarlega liggja ekki á yfirborðinu, er gripið til þess að tvinna saman aðferðafræði sjö fræðigreina innan Háskóla Íslands sem teljast til menningar-, hug- og félagsvísinda. Þetta eru sagnfræði, fornleifafræði, miðaldabókmenntir, mannfræði, þjóðfræði, safnafræði og upplýsingafræði auk fötlunarfræðinnar sem hýsir þetta metnaðarfulla rannsóknarverkefni,“ segir Hanna.

Hugmyndin að rannsókninni spratt upp úr samstarfi Hönnu og Ármanns Jakobssonar, prófessors í miðaldafræði, en þau ritstýrðu m.a. saman bókinni „Fötlun og menning: Íslandssagan í öðru ljósi“ ásamt Kristínu Björnsdóttur, dósent í fötlunarfræðum á Menntavísindasviði, sem kom út árið 2013.

Fötlunarfræði hefur eflst mjög sem fræðigrein innan Háskóla Íslands á undanförnum árum. „Undirstaða greinarinnar er gagnrýnin nálgun á öll málefni sem tengjast fötluðu fólki í fortíð og samtíð og með því að samþætta heimildir og upplýsingar sem mismunandi fræðigreinar hafa aflað og munu afla innan rannsóknarverkefnisins verður til einstakur heimildagrunnur um fatlað fólk í fortíðinni hér á landi,“ segir Hanna. Hún hafi miklar væntingar um verkefnið sem jafnframt muni leggja grunn að ótal öðrum rannsóknum á lífsferlum fatlaðs fólks í fortíðinni.

„Til þess að nálgast þessar upplýsingar, sem sannarlega liggja ekki á yfirborðinu, er gripið til þess að tvinna saman aðferðafræði sjö fræðigreina innan Háskóla Íslands sem teljast til menningar-, hug- og félagsvísinda. Þetta eru sagnfræði, fornleifafræði, miðaldabókmenntir, mannfræði, þjóðfræði, safnafræði og upplýsingafræði auk fötlunarfræðinnar sem hýsir þetta metnaðarfulla rannsóknarverkefni.“

Hanna Björg Sigurjónsdóttir

Í rannsóknarverkefninu er lögð sérstök áhersla á að að þjálfa ungt vísinda- og fræðafólk innan fræðagreinanna sem að verkefninu koma og verður undirstaðan samtvinnun aðferðafræða og samvinna. „Fyrirlestrar, þátttaka í innlendum og alþjóðlegum ráðstefnum, bækur, bókakaflar og ritrýndar greinar munu draga dám af þverfræðilegri nálgun á viðfangsefnið. Samhliða verður rannsóknarferlinum fylgt eftir í myndum og máli á vefnum og samfélagsmiðlum þar sem almenningur getur fylgst með hugmyndafræðilegri þróun og uppgötvunum ásamt því að heyra sögur af fötluðu fólki frá öllum tímum með þeirra eigin rödd eins og hún endurspeglast úr heimildasafninu í formi hluta, líkamsleifa, lýsinga, sagna, bréfa til yfirvalda, umsagna og fleiri þátta,“ segir Hanna Björg og bætir við: „Það er ekki einungis efni rannsóknarinnar sem er nýmæli heldur hefur aldrei áður verið hleypt af stokkunum jafnþverfræðilegri rannsókn á Íslandi.“