Skip to main content

Bætir innviði Ísafjarðarhafnar

Majid Eskafi, doktorsnemi við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild

„Sterkir innviðir eru grundvöllur íslenska hagkerfisins. Þar sem inn- og útflutningur fer gjarnan fram í gegnum hafnir landsins er framlag þeirra til hagvaxtar og þróunar mjög mikið.“ Þetta segir doktorsneminn Majid Eskafi sem ætlar sér að auka sveigjanleika Ísafjarðarhafnar og bæta skipulag hennar í doktorsverkefni sem hann vinnur nú að.

„Á Íslandi byggist hagkerfið að verulegu leyti á skipaumferð og viðskiptum yfir hafið. Þess vegna eru hafnir mikilvægur miðpunktur í viðskiptum og hvati til hagvaxtar.“

Eskafi bætir við að hafnir hafi enn fremur mikilvæg áhrif á alþjóðleg viðskipti, hagvöxt og uppbyggingu þjóða. „Undanfarna áratugi hafa hnattvæðing, gámavæðing, tækniþróun og umhverfisbreytingar leitt til uppbyggingar hafna víða um lönd. Hún krefst sveigjanlegrar skipulagningar þar sem margir óvissuþættir, tækifæri og takmarkanir, koma í ljós á líftíma hafnar. Núverandi skipulagsaðferðir eru hins vegar takmarkaðar þar sem þær taka ekki nægilegt tillit til þarfa fyrir sveigjanleika og aðlögun. Þetta rannsóknarverkefni beinist að langtímaaðferðum við skipulag fyrir hafnir sem taka sérstakt tillit til óvissuþátta.“

Majid Eskafi

„Á Íslandi byggist hagkerfið að verulegu leyti á skipaumferð og viðskiptum yfir hafið. Þess vegna eru hafnir mikilvægur miðpunktur í viðskiptum og hvati til hagvaxtar.“

Majid Eskafi

Eskafi segir að notast verði við tölfræði, spálíkön og hagfræðilega greiningu til að meta aðferðir við skipulag. „Tilgangurinn er að veita skipulagsyfirvöldum betri tæki til að vinna að skipulagi fyrir hafnir sem getur gert þeim betur kleift að takast á við breytileg verkefni með hagkvæmum og sjálfbærum hætti.“

„Ég mun taka spá um eftirspurn eftir þjónustu Ísafjarðarhafnar með í reikninginn í rannsókninni. Ég set fram fjölmargar mögulegar sviðsmyndir fyrir höfnina og tek mið af ólíkum þáttum í starfsemi hennar. Ísafjarðarhöfn er t.d. þriðja mest sótta höfnin af skemmtiferðaskipum en hún er einnig notuð til gámaflutninga, fiskveiða og skemmtisiglinga. Hugmyndin er að skilgreina aðalskipulag með sveigjanleika, þ.e. að Ísafjarðarhöfn geti lagað sig að breytingum og fjölbreytni.“

Leiðbeinendur: Guðmundur Freyr Úlfarsson prófessor og Ragnheiður Inga Þórarinsdóttir gestadósent, bæði við Umhverfis- og byggingarverkfræðideild, Gunnar Stefánsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, Ali Dastgheib, stjórnandi við IHE Delft, og Poonam Taneja, kennari við Tækniháskólann í Delft.