Skip to main content

Auknar líkur á háþrýstingi eftir hrunið

Kristín Helga Birgisdóttir, doktorsnemi við Hagfræðideild

Þótt rúmlega átta ár séu liðin frá efnahagshruninu á Íslandi kveikir það enn hugmyndir að rannsóknarverkefnum hjá bæði nemendum og starfsmönnum á fjölmörgum fræðasviðum Háskóla Íslands. Kristín Helga Birgisdóttir, doktorsnemi í heilsuhagfræði, er ein þeirra sem rýnt hefur í afleiðingar hrunsins en hún segir að flokka megi atburðinn sem náttúrulega tilraun og því sé það kjörið rannsóknarefni, ekki síst innan félagsvísindanna.

„Í doktorsverkefni mínu skoða ég hvernig efnahagsaðstæður yfir höfuð hafa áhrif á heilsufar. Könnunin „Heilsa og líðan Íslendinga“, sem unnin var af Lýðheilsustöð og síðar Landlæknisembættinu, var lögð fyrir árin 2007, 2009 og 2012 og hana nýti ég í mínum rannsóknum. Það vill svo „skemmtilega“ til að akkúrat á þessum tíma átti efnahagshrunið sér stað og því eru til frábær gögn, fyrir og eftir hrun, til að vinna með,“ segir hún.

Kristín Helga Birgisdóttir

„Fyrir samfélagið í heild er mikilvægt að vera a.m.k. meðvitaður um að þættir eins og efnahagsumhverfið geta haft áhrif á heilsu.“

Kristín Helga Birgisdóttir

Kristín hefur í rannsókn sinni m.a. skoðað langtímaáhrif efnahagshrunsins á háþrýsting og hjarta- og æðasjúkdóma á Íslandi. Sú skoðun leiðir athyglisverða hluti í ljós. „Niðurstöður okkar benda til þess að til lengri tíma litið sé jákvætt samband á milli efnahagshrunsins og háþrýstings í konum. Það þýðir að það reyndust auknar líkur á háþrýstingi hjá konum árið 2012, þegar samfélagið var búið að upplifa efnahagslegt hrun og í kjölfarið töluverðan efnahagsbata, í samanburði við 2007 þegar góðæri ríkti,“ segir Kristín.

Efnahagssveiflur hafa verið tíðar á Íslandi í gegnum tíðina og því er mikilvægt að sögn Kristínar að afla þekkingar á því hvaða áhrif þær hafa á heilsufar. „Fyrir samfélagið í heild er mikilvægt að vera a.m.k. meðvitaður um að þættir eins og efnahagsumhverfið geta haft áhrif á heilsu. Dags daglega finnum við kannski ekki fyrir slíkum áhrifum en svona hlutir geta læðst aftan að manni,“ segir hún að endingu.

Leiðbeinandi: Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild.