Skip to main content

Samsæri og sjálfhverfa: Pólitísk vopn eða misskilningur almennings?

Samsæri og sjálfhverfa: Pólitísk vopn eða misskilningur almennings? - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
16. júní 2023 14:00 til 16:30
Hvar 

Veröld - Hús Vigdísar

023

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Félag stjórnmálafræðinga stendur fyrir, í samstarfi við Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála, Degi stjórnmálafræðinnar ásamt verðlaunaafhendingu fyrir framúrskarandi ritgerðir í stjórnmálafræði föstudaginn 16.júní kl. 14:00-16:30, í Veröld 023 við HÍ. Boðið verður upp á léttar veitingar að dagskrá lokinni.

Þema dagsins er um sjálfhverfu og samsæriskenningar, og hvernig þessu tvennu er beitt í stjórnmálum og í átökum á milli hópa. Með erindi verða þau Bjarki Þór Grönfeldt, lektor við Háskólann á Bifröst, Hulda Þórisdóttir, dósent við Háskóla Íslands og Eiríkur Bergmann, prófessor við Háskólann á Bifröst.

Í lok dags verða svo veitt verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerðir í stjórnmálafræði sem var skilað árið 2022.

Nánari lýsing:

Getur sjálfhverfa hópa dregið úr samstöðu borgara og unnið gegn réttlátu samfélagi? Hverjir trúa á samsæriskenningar og hvernig er samsæriskenningum beitt sem vopni í stjórnmálum? Ýtir vantrú fólks á stjórnmálakerfinu undir útskúfun og samsæriskenningar? Nota stjórnmálaöfl tilhneigingu fólks til sjálfhverfu í eigin þágu? Allt eru þetta spurningar sem verða ræddar og reynt að svara á Degi stjórnmálafræðinnar.

14:00-16:00:

Bjarki Þór Grönfeldt – Hver þarf óvini með svona vini? Áhrif sameiginlegs narsissisma á samskipti innan hópa

Sameiginlegur narsissismi er hugtak sem hefur verið að ryðja sér rúms í félagslegri sálfræði og stjórnmálasálfræði á undanförnum árum, og vísar til útblásinnar (en viðkvæmrar) trúar einstaklings á ágæti eigin hóps og ákalls til virðingar fyrir hönd hópsins. Í þessum fyrirlestri verður greint frá rannsóknum á áhrifum sameiginlegs narsissisma á viðhorf almennings í Bandaríkjunum og Bretlandi um viðbrögð við COVID-19 faraldrinum.

Hulda Þórisdóttir – Sálfræði samsæriskenninga

Það hverjir trúa á samsæriskenningar og af hverju fólk trúir á þær hefur lengi verið viðfangsefni í stjórnmálasálfræði. Í þessu erindi fjallar Hulda um nýjustu rannsóknir á þessu sviði og hvernig samspil félagslegra, pólitískra og efnahagslegra þátta hafa áhrif á hvers vegna sumir laðast að samsæriskenningum.

Eiríkur Bergmann – Óvinir okkar: Vopnvæðing samsæriskenninga í stjórnmálabaráttu

Í fyrirlestrinum er greint hvernig popúlískir leiðtogar beita samsæriskenningum fyrir sig sem umræðuvopni í stjórnmálabaráttu. Þrjú dæmi eru tekin til skoðunar; Evrarabíukenningin í Evrópu, djúpríkiskenningin í Bandaríkjunum og and-vestrænar samsæriskenningar í Rússlandi.

16:00-16:30:

Verðlaunaafhending fyrir framúrskarandi lokaritgerðir í stjórnmálafræði sem var skilað árið 2022. G.Rósa Eyvindardóttir, leiðtogi dómnefnda mun veita verðlaunin fyrir hönd Félags stjórnmálafræðinga.

Fundarstjóri verður Björg Magnúsdóttir dagskrágerðarkona og handritshöfundur.

Í framhaldi verður boðið upp á léttar veitingar á kaffistofunni á annarri hæð í Odda.

Sjá viðburð á Fésbók hér: https://www.facebook.com/events/258348703514171/?ref=newsfeed

Öll velkomin. Viðburðurinn fer fram á íslensku. Aðgangur ókeypis.