Hinn stóri samhljómur Sandsins | Háskóli Íslands Skip to main content

Hinn stóri samhljómur Sandsins

Hinn stóri samhljómur Sandsins - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
24. september 2021 16:30 til 18:30
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Heimildarmyndin Hinn stóri samhljómur Sandsins eftir Þorvarð Árnason, vísindamann og forstöðumann rannsóknaseturs HÍ á Höfn, og Gunnlaug Þór Pálsson kvikmyndagerðarmann verður frumsýnd í Hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 24. september kl. 16:30.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, mun flytja ávarp á undan sýningu myndarinnar.

Í nýju myndinni er áhersla á breytingar vegna loftslagsvár en linsunni er beint að landsvæði sem hefur löngum verið þekkt fyrir sérstæða fegurð og mikilfengleik en það skartar meðal annars Jökulsárlóni og Fjallsárlóni. Á þessu svæði blasa afar vel við áhrif lofslagsbreytinga en Jökulsárlón var t.d. varla til fyrir tæpri öld.

Þorvarður Árnason er framleiðandi myndarinnar ásamt Gunnlaugi Þór sem jafnframt stýrir upptökum. Þorvarður hefur farið nýstárlegar leiðir í rannsóknum sínum og ekki hvað síst í miðlun á niðurstöðum þeirra. Þar hefur hann oft notað snjallmiðlun og helgað sig allskyns formi ljósmyndunar, notað hefðbundnar ljósmyndir, kvikmyndir og skeiðmyndir, ekki síst til að sýna þróun yfir tíma. Sú aðferð hefur skilað mjög miklu þegar sýndar eru breytingar á bráðnandi jöklum og á landslagi sem kemur undan þeim þegar þeir hopa.

Í myndinni koma fram auk Þorvarðar, þeir Snævarr Guðmundsson, náttúrulandfræðingur og sviðsstjóri hjá Náttúrustofu Suðausturlands, Kieran Baxter, þrívíddarhönnuður og nýdoktor hjá Rannsóknasetri á HÍ á Höfn, og Heimir Freyr Hlöðversson, vídeólistamaður.

Myndin er framleidd af Sjónhendingu og Loftslagssjóði en klipping og myndstjórn var í höndum Ólafs Rögnvaldssonar. Tónlist er eftir Sindra Má Sigfússon.

Landakort og þrívíddargrunngögn í myndinni eru frá Jarðvísindastofnun HÍ, Vatnajökulsþjóðgarði og Veðurstofu Íslands. Styrktaraðilar eru Umhverfis- og auðlindaráðuneyti og Loftslagssjóður.

Öll velkomin á frumsýninguna meðan húsrúm leyfir en gætum vandlega að sóttvörnum.

Munum handþvott og að spritta hendur.

Nándarmörk eru 1 metri.

Grímuskylda er þar sem ekki er unnt að hafa 1 metra milli einstaklinga og grímuskylda er í Hátíðasal.

Til að minnka smithættu er eindregið mælst til þess að fólk beri grímur á göngum HÍ og í anddyri Aðalbyggingar, en gangar eru hluti af ferðarými.

Heimildarmyndin Hinn stóri samhljómur Sandsins eftir Þorvarð Árnason, vísindamann og forstöðumann rannsóknaseturs HÍ á Höfn, og Gunnlaug Þór Pálsson kvikmyndagerðarmann verður frumsýnd í Hátíðasal Háskóla Íslands föstudaginn 24. september kl. 16:30.

Hinn stóri samhljómur Sandsins