Skip to main content

Doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild: Magnús Sigurðsson

Doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild: Magnús Sigurðsson  - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. september 2019 13:00 til 15:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasal

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fimmtudaginn 12. september 2019 fer fram doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Þá ver Magnús Sigurðsson doktorsritgerð sína í almennri bókmenntafræði sem nefnist Fegurðin – Er –. Emily Dickinson í íslenskum bókmenntaheimi  (Beauty – be not caused –. Emily Dickinson and Icelandic Literary Culture). Andmælendur eru Soffía Auður Birgisdóttir, fræðimaður við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Höfn í Hornafirði, og Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn Ástráðs Eysteinssonar, prófessors í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, prófessor í ensku við Háskóla Íslands, og Gauti Kristmannsson, prófessor í þýðingafræði við Háskóla Íslands. 

Um rannsóknina

Rannsóknin fjallar um bandaríska ljóðskáldið Emily Dickinson (1830–1886), með áherslu á túlkun og viðtökur ljóða hennar á síðari tímum, bæði erlendis sem og á Íslandi. Rannsóknin er þverfræðileg, á mörkum bókmenntafræði, þýðingafræði og ritlistar. Sérstaklega er fjallað um stöðu íslensks þýðanda og íslenskrar ljóðlistar andspænis ljóðum Dickinson, og mynda þýðingar doktorsefnisins á allmörgum ljóða Dickinson hluta rannsóknarinnar. Ein meginforsenda rannsóknarinnar er að verkefni bókmenntaþýðenda skarist í senn við frumsaminn skáldskap og við túlkunarstarf gagnrýnenda og fræðimanna, en þýðingar myndi þó jafnframt sérstaka og að ýmsu leyti sjálfstæða gerð orðræðu. 

Doktorsefnið

Magnús Sigurðsson (f. 1984) lauk B.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands árið 2007 og M.A.-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskólanum í Lundi árið 2012. Árið 2007 komu út þýðingar hans á Söngvunum frá Písa, ljóðabálki bandaríska ljóðskáldsins Ezra Pounds, og árið 2014 þýðingar hans á ljóðum bandarísku skáldkonunnar Adelaide Crapsey, Bláar hýasintur. Þá kom út úrval þýðinga Magnúsar á bandarískum samtímaskáldum í bókinni Að lesa ský árið 2018. Doktorsnemi hlaut styrk úr Háskólasjóði Eimskipafélags Íslands til að vinna að doktorsrannsókn sinni.

Magnús Sigurðsson.

Doktorsvörn við Íslensku- og menningardeild: Magnús Sigurðsson