Skip to main content

Doktorsvörn í sagnfræði: Hrafnkell Lárusson

Doktorsvörn í sagnfræði: Hrafnkell Lárusson - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
12. apríl 2021 13:00 til 15:00
Hvar 
Nánar 
Aðgangur ókeypis

Mánudaginn 12. apríl 2021 fer fram doktorsvörn við Sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands. Þá ver Hrafnkell Lárusson doktorsritgerð sína í sagnfræði, Lýðræði í mótun. Félagastarf, fjölmiðlun og þátttaka almennings 1874-1915. Vörnin fer fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00. Hægt verður að fylgjast með henni í streymi með því að smella hér.

Andmælendur við vörnina verða dr. Íris Ellenberger, lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og dr. Páll Björnsson, prófessor við Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.

Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Guðmundar Hálfdanarsonar, prófessors við Háskóla Íslands. Einnig voru í doktorsnefnd dr. Ragnheiður Kristjánsdóttir, og dr. Sigurður Gylfi Magnússon, prófessorar við sama skóla.

Steinunn Kristjánsdóttir, forseti Sagnfræði- og heimspekideildar, stjórnar athöfninni.

Um rannsóknina

Markmið rannsóknar Hrafnkels er að greina lýðræðisþróun á Íslandi á tímabilinu 1874–1915 og hvort – og þá hvaða – áhrif almenningur hafði á þessa þróun. Áherslan er á virkni og þátttöku almennings í starfi félaga og félagshreyfinga sem studdu með beinum eða óbeinum hætti við eflingu og þróun lýðræðis og er sjónum sérstaklega beint að Austurlandi. Við greininguna er reynt að varpa ljósi á afstöðu almennings gagnvart lýðræðisstofnunum og kjörnum fulltrúum en einnig er tekið tillit til annarra áhrifaþátta, s.s. þróunar menntunar á tímabilinu, búsetu- og atvinnubreytinga og valdaafstæðna í nærsamfélögum. Í hnotskurn er þessu verki ætlað að vera félags-, menningar- og stjórnmálasöguleg rannsókn á áhrifum (eða áhrifaleysi) almennings á lýðræðisþróun á Íslandi á tímabilinu 1874–1915.

Um doktorsnefnið

Hrafnkell er með MA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Hluta af doktorsnámi sínu varði hann við IfiS-PAN í Varsjá (sem er hluti pólsku vísindaakademíunnar), fyrst sem skiptinemi og síðar sem Erasmus+ nemandi. Hrafnkell var forstöðumaður Héraðsskjalasafns Austfirðinga 2008-2013, verkefnisstjóri hjá Stofnun rannsóknarsetra Háskóla Íslands 2013-2014. Hann starfar nú sem sérfræðingur á sviði þjóðlendurannsókna hjá Þjóðskjalasafni Íslands. 

Hrafnkell Lárusson.

Doktorsvörn í sagnfræði: Hrafnkell Lárusson