Skip to main content

Doktorsvörn í læknavísindum - Sigrún Þorsteinsdóttir

Doktorsvörn í læknavísindum - Sigrún Þorsteinsdóttir - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
20. september 2019 13:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Fréttatilkynning vegna doktorsvarnar

Föstudaginn 20. september ver Sigrún Þorsteinsdóttir doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið: Beinasjúkdómur hjá sjúklingum með mergæxli og forstig þess og lifun þeirra eftir greiningu sjúkdómsins. Bone Disease and Survival in Multiple Myeloma and its Precursor. 

Andmælendur eru dr. Annette Juul Vangsted, yfirlæknir á blóðlækningadeild Ríkisspítalans í Kaupmannahöfn, og dr. Signý Vala Sveinsdóttir, sérfræðilæknir í blóðlækningum við Blóðlækningadeild Landspítala.

Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor við Læknadeild. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Gunnar Sigurðsson, prófessor emeritus við Læknadeild, dr. Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar, og dr. Ola Landgren, prófessor og yfirlæknir við Memorial Sloan Kettering sjúkrahúsið í New York.

Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar, stjórnar athöfninni sem fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands og hefst kl. 13:00.

Ágrip af rannsókn

Mergæxli er illkynja sjúkdómur sem einkennist af stjórnlausri skiptingu plasmafrumna í beinmerg. Nær öll tilfelli mergæxlis koma í kjölfar þess er kallast forstig mergæxlis (góðkynja einstofna mótefnahækkun; monoclonal gammopathy of undetermined significance, MGUS). Mergæxli veldur beinaúrátum og beinbrotum og tíðni beinbrota er einnig aukin hjá einstaklingum með forstig mergæxlis. Markmið doktorsverkefnisins var að skoða beinasjúkdóm og lifun sjúklinga með mergæxli og forstig þess. Verkefninu var skipt í þrjá hluta. Í fyrsta hluta þess var beinþéttni í einstaklingum með forstig mergæxlis skoðuð. Í öðrum hluta verkefnisins var lifun hjá sjúklingum með mergfrumuæxli í Svíþjóð á árunum 1973-2013 skoðuð miðað við lifun í almennu þýði (hlutfallsleg lifun). Í þriðja hluta verkefnisins var sjónum beint að tengslum beinbrota og lifunar hjá mergæxlissjúklingum. Niðurstöður fyrsta hluta verkefnisins benda til þess að beinþéttni sé ekki lægri í einstaklingum með forstig mergæxlis, en að beinastærð sé aukin. Í öðrum hluta verkefnisins var sýnt fram á að lífslíkur mergæxlissjúklinga í öllum aldursflokkum upp að 80 ára aldri við greiningu hafa aukist mikið samhliða því að nýjum lyfjameðferðum hefur verið beitt. Að lokum sýndu niðurstöður þriðja hluta rannsóknarinnar að sjúklingar sem hljóta beinbrot eftir greiningu mergæxlis eru í tvöfaldri hættu á dauða. Þessar niðurstöður undirstrika alvarleika beinbrota hjá mergæxlissjúklingum.   

Abstract

Multiple myeloma (MM) is a malignant disorder characterized by an uncontrolled proliferation of plasma cells in the bone marrow. MM is preceded by the precursor condition monoclonal gammopathy of undetermined significance (MGUS). MM causes lytic bone lesions and fractures, and individuals with MGUS have an increased risk of fractures. The project was divided into three parts. The aim of the first part was to compare bone mineral density (BMD) in individuals with MGUS with individuals without MGUS. The aim of the second part was to analyze relative survival in MM in Sweden during 1972-2013. The aim of the third part was to analyze the association of fractures on survival after MM diagnosis. Results from the first part of the project indicate that although individuals with MGUS do not have a decreased BMD, bone volume is increased. In the second part it was demonstrated that increased use of novel agents in MM patients improved survival in MM patients dramatically. Analysis on the association of fractures and survival in MM showed that MM patients that developed a fracture after the time of diagnosis were at twofold increased risk of dying compared to MM patients without a fracture. These results stress the importance of bone disease in MM.

Um doktorsefnið

Sigrún Þorsteinsdóttir er fædd árið 1986. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 2006 og kandídatsprófi í læknisfræði frá Kaupmannahafnaháskóla árið 2014. Hún hefur starfað sem læknir á lyflækningasviði Landspítala frá árinu 2015 samhliða doktorsnáminu. Sigrún er nú að hefja störf sem nýdoktor við rannsóknina Blóðskimun til bjargar. Foreldrar Sigrúnar eru Guðlaug Magnúsdóttir félagsráðgjafi (1948-2014) og Þorsteinn Helgason sagnfræðingur. Börn Sigrúnar eru tvíburarnir Guðjón Pétur Þorkelsson og Helga Matthildur Þorkelsdóttir sem eru 6 ára gömul.

Sigrún Þorsteinsdóttir ver doktorsritgerð sína í læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands föstudaginn 20. september kl. 13:00.

Doktorsvörn í læknavísindum - Sigrún Þorsteinsdóttir