Skip to main content

Doktorsvörn í hagfræði - Haukur Freyr Gylfason

Doktorsvörn í hagfræði - Haukur Freyr Gylfason - á vefsíðu Háskóla Íslands
Hvenær 
27. mars 2023 14:00 til 16:00
Hvar 

Aðalbygging

Hátíðasalur

Nánar 
Aðgangur ókeypis

Mánudaginn 27. mars 2023 ver Haukur Freyr Gylfason doktorsritgerð sína í hagfræði við Hagfræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin ber heitið Réttmætisathugun á túlkun hegðunar leikmanna í mælgileik Gneezy (Interpreting behavior of agents in Gneezy’s cheap-talk game). Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl. 14 og er öllum opin.

Leiðbeinandi Hauk Freys er dr. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands og í doktorsnefnd sitja dr. Kári Kristinsson, prófessor við Háskóla Ísland og dr. Arthur Schram, prófessor við University of Amsterdam.

Andmælendur eru dr. Urs Fischbacher, prófessor við University of Konstanz, Konstanz, Þýskalandi og dr. Tibor Neugebauer, prófessor við University of Luxembourg, Luxembourg, Luxembourg.

Vörninni stýrir dr. Birgir Þór Runólfsson dósent og deildarforseti Hagfræðideildar Hí.

Hægt er að fylgjast með athöfninni í beinu streymi.

Um doktorsefnið
Haukur Freyr Gylfason fæddist í Reykjavík 1973.  Hann lauk BSc gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands, BA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands, MA gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og meistaragráðu í hagfræði frá University of York.  Haukur Freyr hóf doktorsnám árið 2018 og hefur síðan sinnt doktorsverkefni sínu.

Ágrip
Óheiðarleiki og vantraust eru alvarlegar félagslegar og efnahagslegar áskoranir sem samfélög standa frammi fyrir þar sem milljarðar tapast á hverju ári vegna skattsvika, tryggingasvika og verulegs eftirlitskostnaðar. Markmið þessa doktorsverkefnis var að kanna hvort hægt væri að túlka hegðun sendenda í mælgileik Gneezy (2005) sem heiðarlega eða óheiðarlega og hvort hægt væri að túlka hegðun viðtakenda sem lýsingu á trausti eða vantrausti.

Það sem gerir leik Gneezy (2005) einstaklega aðlaðandi er að rannsakandi hefur fulla þekkingu á hegðun sérhvers leikmanns. Það sem gerir það mögulegt að kanna, í sama leiknum, bæði heiðarleika og traust í tengslum við bakgrunn og persónuleika leikmanna og gæti nýst í að skýra þann breytileika sem er til staðar í heiðarleika og trausti. Að því gefnu þá gæti leikur Gneezy reynst verðmæt viðbót við aðra hegðunarmælingar fyrir þá sem eru að rannsaka heiðarleika og traust við þær aðstæður þar sem leikendur leika við raunverulegan og tiltekinn andstæðing.

Niðurstöður þessa verkefnis styðja við réttmæti þeirrar túlkunnar að hægt sé að túlka hegðun sendenda og viðtakenda sem annars vegar heiðarlega og hins vegar trausta. Fyrir sendendur hafði samanlagður fjöldi athugana um hegðun þeirra ásættanlega fylgni við persónuleikaþáttinn heiðarleika og auðmýkt sem gefur til kynna að bæði mælitækin hafi verið að mæla sama hugtakið. Að auki, þegar viðtakendum var gert ljóst að sendendur gætu verið að vara við því að treysta þeim með því að lofa viðtakendum engu þá var sterk fylgni á milli hegðunar viðtakenda og sértæks trausts.

Að þessu sögðu þá gæti leikur Gneezy (2005) verið gagnlegur til að kanna heiðarleika og traust.

Mánudaginn 27. mars 2023 ver Haukur Freyr Gylfason doktorsritgerð sína í hagfræði við Hagfræðideild Háskóla Íslands.

Doktorsvörn í hagfræði - Haukur Freyr Gylfason