Skip to main content

Reglur nr. 211-2022

Reglur um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, nr. 211/2022

PDF-útgáfa

1. gr. Almennt.

Hugvísindastofnun er rannsóknastofnun sem starfrækt er við Háskóla Íslands og heyrir undir Hugvísindasvið. Hún er jafnframt þjónustumiðstöð rannsókna á fræðasviðinu og rannsóknastofur sviðsins starfa innan vébanda hennar.

2. gr. Hlutverk.

Hlutverk Hugvísindastofnunar er:

  1. að styðja við rannsóknasamstarf innan Hugvísindasviðs og við innlenda og erlenda fræðimenn utan þess,
  2. að sinna, ásamt rannsóknastjóra Hugvísindasviðs, ráðgjöf og aðstoð við rannsóknastarf á vettvangi Hugvísindasviðs, m.a. við öflun styrkja, skipulag, mótun og stjórnun rannsóknaverkefna, ráðstefnu- og fundahald og útgáfu,
  3. að stýra ráðstefnum og útgáfu sem stjórn stofnunarinnar ákveður að efna til,
  4. að úthluta, í samvinnu við forseta Hugvísindasviðs og rannsóknastjóra, styrk­þegum, starfsmönnum rannsóknaverkefna og nemendum í rannsóknanámi aðstöðu, eftir því sem unnt er,
  5. að annast ýmsa þjónustu við rannsóknastofur innan Hugvísindastofnunar samkvæmt nánari ákvörðun stjórnar.

Verkefnum sínum og hlutverki skal stofnunin sinna í samvinnu við stjórnsýslu Hugvísindasviðs.

3. gr. Skipulag stofnunarinnar.

Innan vébanda Hugvísindastofnunar starfa rannsóknastofur. Þær geta borið heitið stofnun skv. heimild í 3. tölul. 27. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Þær eru samstarfsvettvangur rannsakenda á Hugvísindasviði og sinna eftir atvikum rannsóknum í eigin nafni.

Aðildarstofur Hugvísindastofnunar eru grunnstofur og þverfræðilegar rannsókna­stofur með heimilisfesti á Hugvísindasviði.

Grunnstofur Hugvísindastofnunar eru:

  1. Bókmennta- og listfræðastofnun,
  2. Guðfræðistofnun,
  3. Heimspekistofnun,
  4. Málvísindastofnun,
  5. Sagnfræðistofnun,
  6. Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Kveðið er á um skipulag, atkvæðisrétt og stjórn grunnstofa í starfsreglum sem stjórn Hugvísindastofnunar setur þeim.

Þverfræðilegar rannsóknastofur teljast til aðildarstofa samkvæmt hefð og/eða ákvörðun stjórnar Hugvísindastofnunar. Formaður stjórnar slíkrar rannsóknastofu skal vera úr röðum akademískra starfsmanna á Hugvísindasviði. Stjórn Hugvísindastofnunar setur þessum rannsóknastofum starfsreglur.

Stjórn Hugvísindastofnunar getur heimilað að innan Hugvísindastofnunar eða aðildarstofa hennar, með samþykki viðkomandi stjórnar, sé komið á fót öðrum rannsóknastofum á sviði hugvísinda. Umfang og skipulag starfseminnar getur verið með misjöfnu sniði. Nánar er kveðið á um starfsemi slíkra rannsóknastofa í starfsreglum sem stjórn Hugvísindastofnunar setur.

Stjórnsýsla Hugvísindastofnunar er hluti af skrifstofu Hugvísindasviðs og starfs­menn stofnunarinnar tilheyra starfsliði skrifstofunnar. Forseti fræðasviðsins er yfirmaður stofnunarinnar og rekstrarstjóri hugvísindasviðs gegnir sama hlutverki gagnvart henni og starfsliði hennar eins og gildir um Hugvísindasvið almennt.

4. gr. Stjórn og fagráð.

Stjórn Hugvísindasviðs, sem skipuð er deildarforsetum fræðasviðsins auk fulltrúa nemenda, fer jafnframt með stjórn Hugvísindastofnunar. Í reglum þessum vísar „stjórn Hugvísindastofnunar“ því til stjórnar sviðsins. Forseti sviðsins er formaður stjórnar og kemur fram fyrir hennar hönd.

Fagráð stofnunarinnar er skipað stjórnarformönnum aðildarstofa (sbr. 3. gr.) og einum fulltrúa nemenda sem skráðir eru í doktorsnám á Hugvísindasviði, sem tilnefndur er af stjórn félags doktorsnema á Hugvísindasviði til eins árs í senn.

Formaður fagráðs er kosinn árlega, á fyrsta fundi ráðsins. Hlutkesti ræður ef atkvæði falla jöfn. Formaður fagráðs kynnir eftir þörfum hugmyndir ráðsins, ályktanir og tillögur fyrir stjórn Hugvísindastofnunar en fagráð fundar einnig reglulega með stjórnar­formanni Hugvísindastofnunar.

5. gr. Fundir stjórnar og fagráðs.

Stjórn Hugvísindasviðs fjallar um mál er varða Hugvísindastofnun á reglubundnum fundum sínum eða sérstökum fundum eftir atvikum. Hún skal þó að minnsta kosti einu sinni á misseri helga sérstakan fund málefnum Hugvísindastofnunar og boða þá þann starfsmann stjórnsýslu sviðsins sem fer með umsjón verkefna stofnunarinnar á fundinn. Hann hefur málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt. Að öðru leyti gilda sömu reglur og um aðra fundi stjórnar Hugvísindasviðs.

Skylt er að boða stjórnarfund um málefni Hugvísindastofnunar óski tveir eða fleiri stjórnarmenn þess. Sama gildir ef rektor ber fram slíka ósk og hefur hann þá rétt til setu á fundinum, málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt. Stjórn aðildarstofu getur einnig óskað eftir sérstökum stjórnarfundi um málefni hennar og hefur þá stjórnarformaður hennar sama rétt til setu á fundinum.

Auk hefðbundinnar vistunar í skjalakerfi Háskóla Íslands skulu fundargerðir funda sem helgaðir eru málefnum stofnunarinnar birtar á heimasíðu hennar.

Formaður stjórnar Hugvísindastofnunar, eða starfsmaður í umboði hans, boðar fyrsta árlegan fund fagráðs, sem halda skal á fyrsta ársfjórðungi, með viku fyrirvara hið minnsta. Stjórnarformaður Hugvísindastofnunar situr fundinn, með málfrelsi og tillögu­rétt, en ekki atkvæðisrétt. Aðra fundi sem ráðið kann að halda boðar formaður þess með sama fyrirvara. Hann boðar stjórnarformann Hugvísindastofnunar á fundi ráðsins eftir þörfum og stjórnarformaður getur sömuleiðis óskað eftir sameiginlegum fundi með ráðinu. Skylt er að boða fund fagráðs óski tveir eða fleiri ráðsmenn þess.

Í fundarboði skal greina frá dagskrá fundar.

Falli atkvæði jöfn í atkvæðagreiðslum um ályktanir eða samþykktir fagráðsins ræður atkvæði formanns.

Starfsmaður stjórnsýslu Hugvísindasviðs situr fundi ráðsins og annast fundargerðir, sem vistaðar skulu í skjalakerfi háskólans.

Ársfundur Hugvísindastofnunar skal vera hluti af fyrsta sviðsþingi Hugvísindasviðs hvert almanaksár. Þar skal kynna starf síðasta árs og fjalla um þau málefni sem undir stofnunina heyra eftir því sem tilefni er til.

6. gr. Verkefni stjórnar, fagráðs og starfsfólks.

Stjórn Hugvísindastofnunar vinnur, undir forystu formanns, að sameiginlegum málefnum stofnunarinnar, meðal annars stefnumótun og rekstri. Stjórn tekur ákvarðanir um ráðstöfun fjárveitingar sem stofnunin fær frá Hugvísindasviði og annarra tekna og fylgist með ráðstöfun þess fjár sem stofnunin veitir öðrum.

Fagráð er samstarfsvettvangur aðildarstofa innbyrðis og gagnvart stjórn Hugvísindastofnunar. Það fjallar um stefnumótun og innra starf Hugvísindastofnunar og leggur tillögur sínar fyrir stjórn.

Stjórn tekur ekki ákvarðanir um veigamikil hagsmunamál aðildarstofa án samráðs við fagráð. Stjórn sker úr vafaatriðum er upp kunna að koma og varða innri starfsemi stofnunarinnar.

Starfsfólk Hugvísindastofnunar er hluti af miðlægri stjórnsýslu Hugvísindasviðs. Það ber ábyrgð á daglegu starfi hennar, í samræmi við starfslýsingu, undir stjórn formanns stjórnar og rekstrarstjóra sviðsins. Starfsfólk tekur einnig þátt í stefnumótun með stjórn stofnunarinnar og fagráði í samræmi við starfslýsingu.

Um ráðningu starfsfólks fer eftir ákvæðum sameiginlegra reglna fyrir Háskóla Íslands.

7. gr. Fjármál o.fl.

Reikningshald Hugvísindastofnunar, aðildarstofa hennar og annarra rannsóknastofa skal vera hluti af reikningshaldi háskólans í umsjón og á ábyrgð sviðsforseta og rekstrar­stjóra Hugvísindasviðs í hans umboði.

Tekjur Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands eru fyrst og fremst framlag frá Hugvísindasviði sem ákveðið er ár hvert. Tekjur geta einnig verið:

  1. styrkir til einstakra verkefna,
  2. greiðslur fyrir þjónustu við umfangsmikil verkefni, t.d. hlutdeild í styrkjum,
  3. greiðslur fyrir aðra þjónustustarfsemi,
  4. tekjur af útgáfustarfsemi,
  5. aðrar tekjur, t.d. framlög frá Háskóla Íslands, styrkir frá hinu opinbera eða einkaaðilum, gjafir og framlög úr ríkissjóði eftir því sem kveðið er á um í fjárlögum.

Fjárveiting Hugvísindasviðs til Hugvísindastofnunar er um leið fjárveiting þess til aðildarstofa og er ætlað að skapa þeim fjárhagslegan grundvöll eftir því sem kostur er. Stjórn Hugvísindastofnunar ákveður skiptingu fjárins og skal tryggja samræmi milli fjárveitingar til Hugvísindastofnunar og þeirra verkefna sem hún ætlar stofnuninni að sinna. Forstöðumenn aðildarstofa skulu skila stjórn Hugvísindastofnunar áætlun um ráðstöfun fjárveitingar frá Hugvísindastofnun og bera ábyrgð á henni gagnvart stjórninni og forseta Hugvísindasviðs. Fjárreiður þeirra í heild, sem og fjárreiður annarra rannsóknastofa, heyra undir sameiginlegan rekstur hugvísindasviðs á ábyrgð sviðsforseta.

Hugvísindastofnun er heimilt að taka að sér þjónustuverkefni gegn gjaldi. Háskólaráð setur nánari reglur um fyrir hvaða þjónustu má innheimta gjöld og setur gjaldskrá, sem endurskoða skal árlega, sbr. 71. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Hugvísindastofnun greiðir í Rannsóknasjóð Háskóla Íslands ákveðið hlutfall af öllum tekjum af þjónustuverkefnum samkvæmt nánari ákvörðun háskólaráðs.

Veiti Hugvísindastofnun þjónustu í frjálsri samkeppni við atvinnustarfsemi annarra aðila skal sú starfsemi stofnunarinnar afmörkuð frá öðrum rekstri. Gæta ber að þeim ákvæðum samkeppnislaga sem banna niðurgreiðslu samkeppnisrekstrar með opinberu fé. Um stjórnunar- og aðstöðugjald af sértekjum fer eftir ákvæðum 73. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands.

8. gr. Gildistaka.

Reglur þessar, sem háskólaráð hefur sett að fenginni tillögu stjórnar Hugvísinda­sviðs og á grundvelli heimildar í 3. mgr. 11. gr. laga nr. 85/2008 um opinbera háskóla, öðlast gildi 1. júlí 2022. Frá sama tíma falla úr gildi reglur 1022/2009, um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands.

Háskóla Íslands, 7. febrúar 2022.