Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 4. maí 2023

5/2023

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2023, fimmtudaginn 4. maí var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Arnar Þór Másson, Brynhildur Ásgeirsdóttir, Davíð Þorláksson (á fjarfundi), Hólmfríður Garðarsdóttir, Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Sigurður Tómasson (varamaður fyrir Katrínu Atladóttur), Silja Bára R. Ómarsdóttir, Vilborg Einarsdóttir og Þorvaldur Ingvarsson. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson.

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að engin athugasemd hefði borist við fundargerð síðasta fundar og hún verið samþykkt með rafrænni undirritun. Rektor bar upp tillögu um að tekið yrði á dagskrá erindi sem borist hafði eftir útsendingu dagskrár og fundargagna og varðar breytingar á fyrirkomulagi við inntöku nemenda í tannlæknisfræði við Tannlæknadeild. Dagskrártillagan var samþykkt. Ekki voru gerðar athugasemdir við fyrirliggjandi dagskrá fundarins né heldur við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og greindi Hólmfríður frá því að hún myndi víkja af fundi undir dagskrárlið 2b.

2.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.

a.    Drög ársreiknings Háskóla Íslands fyrir árið 2022, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs. Fyrir fundinum lágu drög að ársreikningi Háskóla Íslands fyrir árið 2022 ásamt umsögn endurskoðunarnefndar háskólaráðs. Jenný Bára gerði grein fyrir drögunum og Ólafur Pétur Pálsson, formaður endurskoðunarnefndar, reifaði umsögn nefndarinnar. Fram kom að endurskoðunarnefnd gerir ekki athugasemdir við ársreikninginn og leggur til að hann verði samþykktur. Málið var rætt.
– Ársreikningur Háskóla Íslands fyrir árið 2022 samþykktur einróma og rektor falið að undirrita hann fyrir hönd Háskóla Íslands.

b.    Kjaramál. Staða samninga, sbr. síðasta fund.
Inn á fundinn (gegnum fjarfundarbúnað) kom Guðmundur R. Jónsson, formaður samráðsnefndar háskólaráðs um kjaramál. Gerði hann grein fyrir stöðu mála varðandi gerð kjarasamninga félaga starfsfólks Háskóla Íslands. Fram kom að Félag háskólakennara hefur samþykkt kjarasamning til eins árs, en viðræður standa yfir við Félag prófessora við ríkisháskóla. Guðmundur R. reifaði tillögu samráðsnefndar varðandi gerð samnings við Félag prófessora. Málið var rætt og svöruðu rektor og Guðmundur R. spurningum. Hólmfríður Garðarsdóttir vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

– Tillaga samráðsnefndar um kjaramál samþykkt samhljóða.

Jenný Bára vék af fundi.

3.    Niðurstöður háskólaþings 26. apríl 2023.
Inn á fundinn kom Erla Guðrún Ingimundardóttir, aðallögfræðingur Háskóla Íslands. Rektor gerði grein fyrir niðurstöðum háskólaþings sem haldið var 26. apríl 2023. Á þinginu voru m.a. samþykkt drög að endurskoðaðri málstefnu Háskóla Íslands sem málnefnd Háskólans mun fara yfir í ljósi ábendinga sem fram komu á þinginu. Að því búnu verða lokadrög lögð fram til afgreiðslu í háskólaráði.

Á þinginu var einnig samþykkt ályktun hóps þingfulltrúa um fyrirkomulag vinnurýma við Háskóla Íslands. Málið var rætt og kynnti Erla Guðrún minnisblað sem hún hefur tekið saman um það. Í umræðum kom m.a. fram að kveðið er á um fyrirkomulag húsnæðismála Háskólans í stofnsamningi Fasteigna Háskóla Íslands ehf., dags. 29. júní 2021. Til viðbótar er forsenda í samningi fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Fasteigna HÍ frá 28. október 2022, vegna láns til endurbóta á Sögu, þess efnis að lántaki standi faglega að endurbótum fasteignarinnar og í samræmi við þær almennu kröfur sem gerðar eru til fasteigna- og framkvæmdamála á vegum ríkisins.

Á fundum háskólaráðs 7. október 2021, 5. maí 2022 og 13. apríl 2023 hefur verið fjallað um skipulagningu starfsaðstöðu í nýbyggingum og eldri byggingum sem breyta þarf eða endurnýja í framtíðinni með hliðsjón af viðmiðum stjórnvalda um verkefnamiðuð vinnurými. Á þetta við um Sögu, væntanlega byggingu fyrir heilbrigðisvísindasvið á Landspítalareit og aðrar framkvæmdir til framtíðar.

Unnið hefur verið að útfærslu starfsaðstöðu í Sögu í samræmi við ákvarðanir háskólaráðs, sbr. bókun á fundi ráðsins 5. maí 2022. Við útfærslu viðmiða stjórnvalda innan HÍ hefur verið gengið út frá því að ná fram sem bestri nýtingu og sveigjanleika. Leitað hefur verið til faglegra sérfræðinga og sérstaklega að því gætt að útfærslan stuðli að framgangi markmiða Háskóla Íslands í HÍ26 um starfsánægju og góðan vinnustað og að hún taki mið af starfsskyldum akademískra starfsmanna.

Hólmfríður Garðarsdóttir og Silja Bára R. Ómarsdóttir lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Í framhaldi af ályktun háskólaþings frá 27. apríl sl. hvetja tveir fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði rektor til þess að beita sér fyrir því að ná sátt um skipan starfsaðstöðu akademísks starfsfólks í nýju aðsetri Menntavísindasviðs á Sögu og um leið að huga að hinu sama í byggingu Heilbrigðisvísindasviðs sem nú rís, í samræmi við áeggjan í ályktun þingsins þar sem segir að HÍ „skuli taka til fullra varna“ ef til stendur að skerða vinnuaðstöðu starfsfólks.

Í skýrslu Framkvæmdasýslu ríkisins Viðmið um vinnuumhverfi, frá 2020, segir: „Verkefni stofnana eru ólík og starfsfólkið er fjölbreyttur hópur.“ […] „Skipulag vinnuumhverfis hefur mikil áhrif á dagleg störf og líðan starfsfólks og því er mikilvægt að huga markvisst að félagslegu vinnuumhverfi og þróun þess þegar vinnurými er skipulagt.“ […] „Velferð starfsfólks er höfð að leiðarljósi“ (bls. 8). Þar er einnig tiltekið að þarfagreiningar skuli fara fram og að: „Byggt [sé] á niðurstöðum greiningarvinnu“ (bls. 12). Úr þessum orðum má lesa að Framkvæmdasýslan sem slík ákveði ekki hvernig vinnurými skal skipulagt heldur þau sem vinna munu á staðnum. Þann skilning má að auki lesa úr orðum kaflans „Aukin vellíðan og bætt heilsa“, en þar segir: „Í verkefnamiðuðu vinnuumhverfi nýtir starfsfólkið fjölbreytta vinnuaðstöðu eftir þörfum.“ (bls. 20). (Undirstrikun okkar).

Krafan um 7m2 einkarými – þeirra sem þess óska – er hógvær krafa og enn er mögulegt að koma til móts við hana. Með því væri stuðlað að góðum starfsanda og því að traust ríki milli stjórnenda og starfsfólks. HÍ býr að miklum mannauði og mikilvægt er að tryggja þeim fjölbreytta hópi vinnuaðstæður sem mæta margvíslegum þörfum.

Hólmfríður Garðarsdóttir

Silja Bára R. Ómarsdóttir

Fulltrúar háskólasamfélagsins í háskólaráði“

Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

Erla Guðrún og Guðmundur R. viku af fundi.

4.    Framkvæmd stefnu Háskóla Íslands 2021-2026, HÍ26.
Inn á fundinn kom Steinunn Gestsdóttir, aðstoðarrektor kennslumála og þróunar, og greindi frá niðurstöðum svonefnds akkerisfundar sem haldinn var í Hátíðasal 3. maí sl. Málið var rætt.

Steinunn vék af fundi.

Kaffihlé.

5.    Eftirfylgni ytri úttektar Gæðaráðs á Háskóla Íslands.
Inn á fundinn kom Katrín Regína Frímannsdóttir, stefnu- og gæðastjóri, og fór yfir stöðu gæðakerfis Háskóla Íslands, eftirfylgni með ytri úttekt á Háskóla Íslands á vegum Gæðaráðs háskóla og mögulegar áherslubreytingar í næstu lotu rammaáætlunar Gæðaráðs (QEF3). Málið var rætt og svaraði Katrín spurningum.

Katrín vék af fundi.

6.    Sameiginleg störf (stefnubundin), sbr. fund ráðsins 2. júní sl. Staða mála.
Ólafur Pétur greindi frá stöðu mála varðandi sameiginleg störf þvert á fræðasvið og deildir. Fram kom m.a. að búið er að ráða í sex störf og tvö eru í undirbúningi. Málið var rætt og svaraði Ólafur Pétur spurningum.

7.    Fyrirkomulag reksturs í Háskólabíói, ásamt drögum að tillögu að starfsreglum, sbr. fund ráðsins 2. febrúar sl.
Fyrir fundinum lágu drög tillögu að starfsreglum fyrir Háskólabíó. Rektor gerði grein fyrir málinu og var það rætt.

– Samþykkt einróma.

8.    Málefni Endurmenntunar Háskóla Íslands.
Inn á fundinn komu Halla Jónsdóttir, endurmenntunarstjóri, og Róbert H. Haraldsson, formaður stjórnar Endurmenntunar, og greindu frá stefnu og starfsemi Endurmenntunar. Málið var rætt og svöruðu Halla og Róbert spurningum.

Halla og Róbert viku af fundi.

9.    Erindi vegna breytingar á fyrirkomulagi við inntöku nemenda í tannlæknisfræði við Tannlæknadeild.
Inn á fundinn kom Magnús Jökull Sigurjónsson, lögfræðingur á skrifstofu rektors. Rektor greindi frá því að eftir lokun rektorsskrifstofu sl. föstudag hafi borist erindi varðandi breytingu á fyrirkomulagi við inntöku nemenda í tannlæknisfræði við Tannlæknadeild sem samþykktar voru í háskólaráði 12. janúar sl. Magnús Jökull gerði grein fyrir framlögðu minnisblaði um tillögu að afgreiðslu háskólaráðs og var það rætt.

– Samþykkt samhljóða, en Brynhildur, Hólmfríður og Katrín Björk sátu hjá.

10.    Bókfærð mál.
a.    Frá Stefnu- og gæðaráði Háskóla Íslands: Rammi fyrir notkun gervigreindar í Háskóla Íslands.

– Samþykkt.

b.    Frá Stefnu- og gæðaráði: Leiðbeiningar um notkun gervigreindar í Háskóla Íslands.

– Samþykkt.

c.    Frá kennslusviði: Tillaga um breytta dagsetningu lokadags úrsagnar úr prófum á haustmisseri.

– Samþykkt.

d.    Frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði: Tillaga um að lífefnafræði verði færð úr Raunvísindadeild í Líf- og umhverfisvísindadeild. Breyting á 128. og 132. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.

– Samþykkt.

e.    Frá stjórn Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.: Viljayfirlýsing vegna Vísindagarða Háskóla Íslands ehf.

– Samþykkt.

11.    Mál til fróðleiks.
a.    Úthlutun úr Kennslumálasjóði 2023.
b.    Reglur um Vigdísarverðlaunin.
c.    Inngangur rektors á háskólaþingi 26. apríl.
d.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 27. apríl 2023.
e.    Vígsla Eddu, húss íslenskunnar.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.55.