Skip to main content

Fundargerð háskólaráðs 7. september 2023

8/2023

HÁSKÓLARÁÐSFUNDUR

Ár 2023, fimmtudaginn 7. september var haldinn fundur í háskólaráði Háskóla Íslands sem hófst kl. 13.00.

Fundinn sátu Jón Atli Benediktsson, Davíð Þorláksson, Guðvarður Már Gunnlaugsson (varamaður fyrir Arnar Þór Másson, á fjarfundi), Hólmfríður Garðarsdóttir (á fjarfundi), Katrín Björk Kristjánsdóttir, Ólafur Pétur Pálsson, Rebekka Karlsdóttir (varamaður fyrir Brynhildi Ásgeirsdóttur), Silja Bára Ómarsdóttir, Vilborg Einarsdóttir og Þorvaldur Ingvarsson. Katrín Atladóttir boðaði forföll og varamaður hennar einnig. Fundinn sátu einnig Magnús Diðrik Baldursson, sem ritaði fundargerð, og Þórður Kristinsson (á fjarfundi).

1.    Setning fundar.
Rektor setti fundinn og greindi frá því að fundargerð síðasta fundar hefði verið samþykkt og hún birt á háskólavefnum. Þá spurði rektor hvort einhver gerði athugasemd við dagskrá fundarins og var svo ekki. Ekki voru gerðar athugasemdir við liðinn „bókfærð mál“ og skoðast hann því samþykktur. Þorvaldur Ingvarsson greindi frá því að hann myndi sitja hjá við afgreiðslu liðar 7a. Loks spurði rektor hvort einhver lýsti sig vanhæfan til að taka þátt í meðferð máls á dagskrá og var svo ekki.

2.    Staða mála í upphafi háskólaárs 2023-2024.
Rektor fór yfir helstu mál á döfinni í Háskóla Íslands frá síðasta fundi háskólaráðs 1. júní sl.

3.    Fjármál Háskóla Íslands. Staða, horfur, áætlun.
a.    Rekstraryfirlit Háskóla Íslands janúar-júní 2023.
Inn á fundinn kom Jenný Bára Jensdóttir, sviðsstjóri fjármálasviðs, og fór yfir yfirlit um rekstur Háskóla Íslands á tímabilinu janúar-júní 2023. Málið var rætt og svaraði Jenný Bára spurningum.

Jenný Bára og Silja Bára viku af fundi.

b.    Staða framkvæmda og viðhaldsverkefna, sbr. fund ráðsins 1. júní sl.
Inn á fundinn kom Kristinn Jóhannesson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs, og greindi frá stöðu framkvæmda- og viðhaldsverkefna á lóð Háskóla Íslands. Málið var rætt og svaraði Kristinn spurningum.

c.    Nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs.
Inn á fundinn kom Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor og starfsmaður framkvæmdanefndar vegna nýbyggingar fyrir Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands við Læknagarð og endurbóta á Læknagarði. Hákon Hrafn skýrði frá stöðu mála varðandi undirbúning nýbyggingar fyrir Heilbrigðisvísindasvið í tengslum við nýjan Landspítala, endurbætur á Læknagarði og áformað niðurrif hluta Eirbergs. Fram kom að framkvæmdanefndin telur nauðsynlegt að stækka fyrirhugað heilbrigðisvísindahús til að koma þar fyrir tannlæknaklínik. Málið var rætt og svaraði Hákon Hrafn spurningum fulltrúa í háskólaráði. Málið verður áfram á dagskrá háskólaráðs.

Kristinn og Hákon Hrafn viku af fundi.

4.    Minnisblað um viðbrögð við ábendingum nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu starfsári, sbr. 10. gr. starfsreglna háskólaráðs og fund þess 1. júní sl.
Rektor fór yfir tillögu að viðbrögðum við ábendingum nefndar háskólaráðs um störf ráðsins á liðnu starfsári, sbr. 10. gr. starfsreglna ráðsins og fund þess 1. júní sl. Fram kom að tillagan felur ekki í sér breytingu á starfsreglum háskólaráðs. Málið var rætt.
– Samþykkt einróma.

5.    Funda- og starfsáætlun háskólaráðs 2023-2024.
Rektor fór yfir drög að funda- og starfsáætlun háskólaráðs fyrir starfsárið 2023-2024. Málið var rætt og beindi rektor því til fulltrúa í háskólaráði að koma ábendingum á framfæri við ritara ráðsins tímanlega fyrir næsta fund þess.

Kaffihlé.

6.    Undirbúningur gjaldtöku fyrir bílastæði á lóð Háskóla Íslands, sbr. fund ráðsins 1. júní sl.
Silja Bára og Kristinn Jóhannesson komu aftur inn á fundinn. Rektor og Kristinn greindu frá stöðu mála varðandi undirbúning gjaldtöku fyrir bílastæði á lóð Háskóla Íslands, sbr. fyrri fundi háskólaráðs, síðast 1. júní sl. Fram kom m.a. að áformað er að gera heildaráætlun um málið fyrir árslok og að gjaldtaka hefjist um mitt ár 2024 samhliða mótvægisaðgerðum, m.a. í formi svokallaðs U-passa. Málið var rætt ítarlega og verður það áfram á dagskrá háskólaráðs.

Fulltrúar stúdenta lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Fulltrúar stúdenta styðja að sjálfsögðu stefnu háskólans í átt að vistvænna háskólasamfélagi en telja einstaklega mikilvægt að vandað verði til verka þannig að hagsmunir stúdenta séu tryggðir. Fulltrúar stúdenta ítreka því mikilvægi þess að U-passi á lágu verði sé stúdentum til boða áður en eða samhliða því að gjaldskylda hefst á háskólasvæðinu, eins og fulltrúar stúdenta hafa áður talað fyrir, bæði hér í háskólaráði og í Stúdentaráði. Leggjum við þá einkum áherslu á að skýr áform um U-passa, þá verð, tímasetning og útfærsla verði komin áður en gjaldtaka er kynnt, ásamt öðrum viðeigandi úrræðum fyrir stúdentahópinn. Þá er mikilvægt að upplýsingagjöf til stúdenta sé höfð í fyrirrúmi þar sem þetta er stórt hagsmunamál stúdenta.

Katrín Björk Kristjánsdóttir
Rebekka Karlsdóttir“

7.    Bókfærð mál.
a.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á reglum nr. 890/2016 um doktorsnám og doktorspróf við Heilbrigðisvísindasvið.

– Samþykkt. Þorvaldur Ingvarsson sat hjá við afgreiðslu málsins.

b.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga að breytingu á reglum nr. 60/2019 um meistaranám við Heilbrigðisvísindasvið. Varðar forkröfur við inntöku í meistaranám í Matvæla- og næringarfræðideild.
– Samþykkt.

c.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Beiðni um undanþágu frá lágmarksfjölda nemenda sem teknir verði inn í nám í hjúkrunarfræði fyrir fólk með annað háskólapróf.
– Samþykkt.

d.    Fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Félagsstofnunar stúdenta.
– Samþykkt. Fulltrúi Háskóla Íslands í stjórn Félagsstofnunar stúdenta er Baldur Þórhallsson, prófessor, og varamaður er Ragnhildur Ísaksdóttir, sviðsstjóri mannauðssviðs. Skipunartíminn er tvö ár.

e.    Verðskrá leigurýma í Sögu vegna gesta Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

f.    Gjaldskrá íþróttahúss Háskóla Íslands.
– Samþykkt.

g.    Frá Heilbrigðisvísindasviði: Tillaga um að rektor bjóði vísindamanni að taka við starfi prófessors án auglýsingar í samræmi við 2. mgr. 17. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla og 3. mgr. 36. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009.
– Samþykkt.

8.    Mál til fróðleiks.
a.    Ávarp rektors við brautskráningu kandídata 24. júní 2023.
b.    Drög að dagatali Háskóla Íslands 2023-2024.
c.    Yfirlit um skipan starfsnefnda, annarra nefnda og stjórna frá 1. júlí 2023, sbr. síðasta fund.
d.    Yfirlit um nefndir, stjórnir og ráð sem háskólaráð hefur aðkomu að og sem fyrirséð er að skipa þurfi eða tilnefna í á haustmisseri 2023.
e.    Viljayfirlýsing um aukið samstarf eða sameiningu Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands, dags. 15. ágúst 2023.
f.    Samstarf háskóla.
g.    Upplýsingasíða um gervigreind.
h.    Skilagrein um framkvæmd stefnu Háskóla Íslands, HÍ26, tímabilið 2022-2023, sbr. fund ráðsins 4. maí sl.
i.    Glærur fjármála- og efnahagsráðherra um stöðu og áherslur í ríkisfjármálum 25. ágúst 2023.
j.    Fréttabréf Háskólavina, dags. 29. ágúst 2023.

Fleira var ekki gert.
Fundi slitið kl. 15.30.