Yfir 2.000 kandídatar brautskráðir frá Háskóla Íslands - bein útsending | Háskóli Íslands Skip to main content
26. júní 2020

Yfir 2.000 kandídatar brautskráðir frá Háskóla Íslands - bein útsending

""

Rúmlega 2.000 kandídatar brautskrást úr grunn- og framhaldsnámi á útskriftarathöfnum Háskóla Íslands í Laugardalshöll á morgun, laugardaginn 27. júní. Engir gestir verða viðstaddir athafnirnar en streymt var beint frá athöfnunum og má nálgast upptöku hér.

Brautskráningarathafnir verða tvær líkt og undanfarin ár en þó með öðru sniði vegna fyrirmæla sóttvarnayfirvalda um takmörkun á samkomum.

Á fyrri brautskráningarathöfninni, sem hefst kl. 10, fá kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Heilbrigðisvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði útskriftarskírteini sín. Samtals brautskráist 501 frá fyrrnefnda sviðinu og 283 frá því síðarnefnda. 

Seinni athöfnina, sem hefst kl. 13.30, sækja kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Félagsvísindasviði, Hugvísindasviði og Menntavísindasviði. Þar brautskrást 593 frá Félagsvísindasviði, 270 frá Hugvísindasviði og 403 frá Menntavísindasviði.

Áhersla hefur verið lögð á að athöfnin sé örugg m.t.t. sóttvarna og var hún skipulögð í samráði við sóttvarnayfirvöld. Þannig verður Laugardalshöllinni skipt í tvö svæði, merkt A og B, og verður kandídötum deilt á þau svæði á athöfnunum. Enn fremur verður boðið upp á sérstakt svæði með tveimur metrum á milli sæta fyrir þau sem vilja.

Samanlagt verða 1.112 kandídatar brautskráðir úr grunnnámi að þessu sinni og 938 úr framhaldsnámi. Alls munu því 2.050 kandídatar útskrifast frá Háskóla Íslands á morgun. Í hópi brautskráningarkandídata eru fyrstu nemendurnir sem ljúka hagnýtu eins árs námi í ýmsum tungumálum sem skólinn kennir og fyrstu nemendirnir af námsleiðunum hagnýt leikskólafræði og hnattrænni fræði á framhaldsstigi. 

Líkt og áður mun rektor Háskóla Íslands flytja ávarp við athöfnina og þá mun þær Guðrún Höskuldsdóttir, BS í verkfræðilegri eðlisfræði, og Isabel Alejandra Díaz, BA í stjórnmálafræði og spænsku og nýkjörinn forseti Stúdentaráðs, ávarpa gesti fyrir hönd brautskráningarkandídata. Þá stígur tónlistakonan GDRN á stokk á báðum brautskráningarathöfnum og flytur tónlist sína.

Háskóli Íslands brautskráði 399 kandídata í febrúar síðastliðnum og því hafa alls 2.449 útskrifast frá skólanum það sem af er ári.
 

Nemendur taka við brautskráningarskírteinum.