Skip to main content
27. apríl 2020

Vísindavefurinn svarar í þágu samfélagsins um COVID-19

""

Vísindavefurinn hefur síðustu daga og vikur lagt höfuðþunga á að styðja við íslenskt samfélag með upplýstri miðlun réttra upplýsinga sem snerta COVID-19 sjúkdóminn og kórónuveiruna sem honum veldur. 

„Vefurinn hefur svarað gríðarlegum fjölda nýrra spurningar um þetta efni og hvatt vísindasamfélagið til upplýstrar umræðu um COVID-19 þar sem birting nýrra upplýsinga á sér stað á Vísindavefnum,“ segir Jón Gunnar Þorsteinsson, ritstjóri vefsins. 

Hann segir að Háskólinn hafi hvatt vísindamenn til að senda inn efni til birtingar á Vísindavefnum í þágu þessarar upplýstu umræðu, t.d. afmörkuð svör við hverju einu sem viðkemur viðfangsefninu, tölulegar staðreyndir auk ábendinga til lesenda vefsins um traust og vandað vísindalegt efni.  

„Sérstök þverfræðileg ritnefnd var sett á laggirnar innan vefsins til að stýra efnismiðluninni sem tengist þessari upplýstu umræðu en í því sambandi má nefna leiðréttingar á rangfærslum, hagfræðilega ráðgjöf, svör við siðferðilegum álitamálum og fjölmargt annað sem gagnast almenningi, stjórnvöldum, fjölmiðlafólki og öðrum á þessum óvissutímum. Það er mikill styrkur að þessari ritnefnd og í henni er einvala lið fræðimanna sem býr yfir mikilli þekkingu sem gagnast almenningi og þjóðinni allri á þessum tímum. Með ritnefndinni og þeim tengslum sem hún hefur við fræðasamfélagið allt, er hægt að bregðast fljótt og hratt við ýmsu sem tengist COVID-19, hvort sem það eru falsfréttir, rangtúlkanir eða einfaldlega upplýsingar sem gagnlegt er að skýra betur út fyrir fólki.“

Að sögn Jóns Gunnars hefur vefurinn einnig dregið fram öll eldri svör sem tengjast faraldrinum en í því sambandi má nefna svör um veirur almennt, veirusýkingar, smitsjúkdóma, faraldsfræði, sýkingar, bóluefni, bólusetningar, lyf og lækningu. Hér er fátt eitt talið. 

Vísindavefurinn slegið aðsóknarmet ítrekað

Jón Gunnar segir að Vísindavefurinn hafi náð rækilega til almennings, fagaðila og fjölmiðla á tímum samkomubannsins og slegið aðsóknarmet ítrekað. „Vísindavefur Háskóla Íslands sló t.d. vikulegt aðsóknarmet sitt núna í mars og það reyndar í tvígang. Frá 16. mars til 22. mars voru vikulegir notendur rúmlega 45.000 og höfðu aldrei verið fleiri. Í vikunni þar á eftir var metið strax slegið þegar vikulegir notendur mældust hartnær 50 þúsund. Öll vinsælustu svör vefsins tengdust þá COVID-19 með einum eða öðrum hætti.“
 
Í þessu sambandi má nefna svör við spurningum eins og: Hvaðan kom COVID-19-veiran? Er hægt að smitast tvisvar af COVID-19? Drepur handspritt kórónaveiruna og hvernig eru veirur greindar í mönnum?

Jón Gunnar segir að þessi mikla aðsókn sýni á ótvíræðan hátt hversu mikilvægur Vísindavefurinn er sem miðill þegar beina þurfi réttum gögnum að þjóðinni, ekki síst á óvissutímum. 

Hér er hægt að fylgjast með upplýstri umræðu á Vísindavefnum um COVID-19

Hér er hægt að sjá öll flokkuð svör á Vísindavefnum sem tengjast veirum og COVID-19

Um verkefnið í heild sinni og ritnefndina má lesa hér

Jón Gunnar Þorsteinsson