Skip to main content
18. apríl 2018

Valinn úr hópi 6.000 umsækjenda um styrk við Cambridge

Bergþór Traustason, BS-nemi í verkfræðilegri eðlisfræði í Háskóla Íslands, hefur hlotið styrk frá hinum virta Cambridge-háskóla í Bretlandi til að hefja framhaldsnám í líftækni í haust. Bergþór er meðal tæplega 100 erlendra nemenda sem valdir voru úr hópi nærri 6.000 umsækjenda um styrk til náms við skólann.

Styrkurinn er veittur innan svokallaðrar Gates Cambridge styrkjaáætlunar sem er sú virtasta sem erlendum nemendum við Cambridge stendur til boða. Áætlunin byggist á framlagi Bill and Melinda Gates Foundation til Cambridge-háskóla árið 2000 en markmið hennar er að styrkja til náms framúrskarandi erlenda námsmenn.

Bergþór lýkur BS-námi í verkfræðilegri eðlisfræði frá Verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands í vor og hyggst afla sér meistaragráðu í líftækni við Cambridge-háskóla í framhaldinu. Hann segir áhuga sinn liggja í þróun nýrrar tækni til að rækta smáþörunga sem nota má til að vinna ýmsar vörur, eins og prótein og andoxunarvörur, á skilvirkan og umhverfisvænan hátt. Þess má geta að Bergþór vann að nýsköpunarverkefni tengdu þessu ásamt tveimur öðrum nemendum við Háskóla Íslands sumarið 2016 og voru þau tilnefnd til Nýsköpunarverðlauna forseta Íslands árið 2017 fyrir verkefnið. 

Við þetta má bæta að Bergþór hlaut í fyrravor styrk til að vinna tíu vikna verkefni við California Institute of Technology – Caltech í Pasadena í Kaliforníu í Bandaríkjunum og dvaldi hann við skólann í fyrrasumar.

En hvers vegna ákvað Bergþór að sækja um nám við Cambridge, einn virtasta háskóla í heimi?  „Með því að fara til Cambridge fæ ég tækifæri til að vinna með vísindamönnum sem eru leiðandi á heimsvísu á mínu áhugasviði en það er fjöldi rannsóknarhópa innan efnaverkfræði- og líftæknideildarinnar að gera ótrúlega áhugaverðar og fjölbreyttar rannsóknir. Það sem skipti þó mestu er að skólinn er að byrja með þessa nýju námslínu í líftækni sem er sértaklega gerð fyrir nemendur sem eru með bakgrunn í eðlisfræði, verkfræði eða tölvunarfræði. Hún veitir sterkan grunn í líftækni ásamt áherslu á þverfaglegar rannsóknir og samstarf við ýmis líftæknifyrirtæki þarna úti.“

Samkeppni um styrki úr Gates Cambridge styrkjaáætluninni var afar hörð sem fyrr segir en alls sóttu tæplega 5.800 nemendur um styrk fyrir næsta skólaár. Við val á þeim 92 kandídötum sem fengu styrk að þessu sinni var m.a. horft til þekkingar nemenda, mögulegra leiðtogahæfileika og hugmynda nemendanna um hvernig nám þeirra myndi bæta líf annarra. Þess má geta að Bergþór er fyrsti Íslendingurinn til að hljóta styrk úr áætluninni frá árinu 2007. 

Aðspurður hvernig hann telji að námið við Háskóla Íslands hafi búið hann undir framhaldsnám erlendis segir Bergþór: „Ég held að námið í HÍ sé almennt nokkuð gott og samhliða því hef ég líka fengið fjömörg tækifæri til að stunda rannsóknir og sinna dæmatímakennslu sem er að mínu mati gífurlega verðmæt reynsla.“

Nánari upplýsingar um styrkjaáætlunina má finna á heimasíðu Cambridge-háskóla.

 

Bergþór Traustason