Skip to main content
28. nóvember 2017

Unnur Anna valin háskólakona ársins

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild og forstöðukona Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum, var valin háskólakona ársins af stjórn Félags háskólakvenna þann 21. nóvember sl.

Stjórn Félags háskólakvenna ákvað á 89 ára afmæli félagsins að heiðra árlega eina háskólakonu fyrir framlag sitt til samfélagsins. Leitað var til félagskvenna og háskólasamfélagsins um tilnefningar og bárust fjölmargar ábendingar um konur sem skarað hafa fram úr á sínu fagsviði og verið öðrum háskólakonum góðar fyrirmyndir.

Fyrir valinu varð Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands. Í tilkyningu frá Félagi háskólakvenna segir:

„Unnur Anna hefur komið að fjölmörgum rannsóknum síðastliðin 20 ár sem margar beinast að áhrifum hvers kyns áfalla á heilsu fólks. Hún hefur hlotið veglega rannsóknarstyrki til að kanna samspil erfða og heilsufarlegra afleiðinga alvarlegra sálrænna áfalla, nú síðast 2 milljóna evra styrk frá Evrópska rannsóknarráðinu. Styrkurinn er mikil viðurkenning á vísindalegu framlagi Unnar Önnu. Framlag hennar til vísindanna er óumdeilt en niðurstöður rannsókna hennar hafa birst í ýms­um virt­ustu tíma­rit­um heims á viðkom­andi fræðasviðum.

Unnur Anna lauk BA gráðu í sálfræði við Háskóla Íslands 1996 og doktorsgráðu í klínískri faraldsfræði við Karolinska Institutet í Svíþjóð árið 2003. Hún hefur verið prófessor við HÍ frá 2012 og var varaforseti Læknadeildar á árunum 2013-2017. Hún hefur verið forstöðukona Miðstöðvar í lýðheilsuvísindum við HÍ frá árinu 2007. Unnur Anna hefur einnig starfað við Harvard School of Publich Health frá árinu 2009.

Félag háskólakvenna og kvenstúdenta var stofnað árið 1928 og verður því 90 ára á næsta ári. Margt hefur breyst í menntunarmálum landsmanna á þessum 89 árum og staða háskólakonunnar í dag allt önnur en hún var við stofnun félagsins. Stofnfélagar voru aðeins fimm og segir það nokkru til um hversu fáar konur höfðu þá lagt í langskólanám. Háskólakonur hafa margar hverjar náð langt á sínum fræðasviðum og unnið ótal áfangasigra sem margir hafa þó farið fram hjá hinum almenna borgara. Með því að heiðra nú árlega eina háskólakonu fyrir framlag sitt til samfélagsins vill stjórn Félags háskólakvenna vekja athygli á ólíkum störfum og afrekum félagskvenna sinna svo það megi verða hvatning öðrum konum sem stunda langskólanám.“

Unnur Anna Valdimarsdóttir, prófessor við Læknadeild