Skip to main content
20. apríl 2022

Tíu ára afmæli Lífvísindaseturs fagnað

Tíu ára afmæli Lífvísindaseturs fagnað - á vefsíðu Háskóla Íslands

Tíu ára afmæli Lífvísindaseturs verður fagnað föstudaginn 22. apríl með glæsilegri dagskrá um leið og stefna setursins til næstu fimm ára verður kynnt. Þar er m.a. lögð áhersla á áframhaldandi uppbyggingu innviða í lífvísindum, öflugt framhaldsnám og þjálfun vísindamanna framtíðarinnar og stuðning við bæði rannsókna- og nýsköpunarsamfélagið. Afmælishátíðin verður einnig send út í streymi.

Lífvísindasetur Háskóla Íslands var formlega stofnað í nóvember 2011 og varð því tíu ára í fyrra. Heimsfaraldur kórónuveiru kom hins vegar í veg fyrir að hægt væri að fagna afmælinu þá en óhætt er að segja að faraldurinn snerti beint viðfangsefni setursins. Lífvísindi ná nefnilega yfir grunnrannsóknir á lífverum og einingum þeirra, frumunum og þeim örverum sem lifa í þeim og á og valda sjúkdómum. Ýmsar fræðigreinar teljast til lífvísinda, þar á meðal þroskunarfræði, læknisfræði, lyfjaþróun, líftækni, lífefnafræði landbúnaðar, skógrækt, þróunarfræði, umhverfisfræði, örverufræði og erfða- og frumulíffræði.

Lífvísindasetur hefur frá upphafi verið með heimilisfesti við Læknadeild en nú á vormánuðum fluttist heimilisfestið til Heilbrigðisvísindastofnunar HÍ. Lífvísindasetrið er opið öllum þeim sem stunda rannsóknir á sviði sameindalífvísinda í landinu. Með þessu fyrirkomulagi er markmiðið að deila rannsóknaraðstöðu og -innviðum og efla þannig slagkraft íslensks vísindasamfélags.

Samstarfsvettvanginn skapa yfir 60 rannsóknarhópar við HÍ, Landspítala, Raunvísindastofnun Háskólans, Tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Akureyri, Landbúnaðarháskóla Íslands, Hjartavernd og Krabbameinsfélag Íslands. Rannsóknir innan setursins eru þverfræðilegar í eðli sínu og snerta m.a. krabbamein, stofnfrumur, taugalíffræði, ónæmisfræði, örverufræði, þroskunarfræði og lífeðlisfræði. Rannsóknahópunum tengist auk þess fjölbreytt starfsemi sem gjarnan einkennist af fjölbreyttum rannsóknarverkefnum meistara- og doktorsnema auk nýdoktora. Eftir þessu öfluga starfi hefur verið tekið því Lífvísindasetur hlaut ársfundaverðlaun Háskóla Íslands fyrir frumkvæði og forystu þegar verðlaunin voru fyrst veitt árið 2019. 

Nauðsynlegt að halda í við gríðarhraða þróun lífvísinda

Í nýrri stefnu Lífvísindaseturs til ársins 2026, sem kynnt verður á afmælisráðstefnunni, er undirstrikuð sú gríðarlega hraða þróun og framfarir sem orðið hafa innan lífvísindanna á undanförnum árum, m.a. við ræktun smálíffæra, nýrra myndgreiningaraðferða sem hafa opnað nýja sýn á starfsemi frumna og lífvera, hina byltingarkenndu CRISPR/Cas9 aðferð að ógleymdri hraðri þróun bóluefna gegn COVID-19. „Til að tryggja að íslensk vísindi haldi í við þróunina er mikilvægt að efla rannsóknastarfið enn frekar. Auk þess er mikilvægt að auka samstarf stofnana, einkum hvað varðar uppbyggingu innviða og tækja,“ segir m.a. í hinni nýju stefnu og undirstrikuð sú krafa að nýta bæði tækni og aðstöðu til fullnustu á sem hagkvæmastan hátt. 

Bent er á að samstarf þessara ólíku aðila um uppbyggingu innviða hafi gengið afar vel  hingað til og tekur Lífvísindasetur m.a. þátt í þremur stórum innviðaverkefnum á vegvísi Innviðasjóðs þar sem stefnt er að frekari uppbyggingu til framtíðar. Þau nefnast:

  • Efnagreining – frá frumefnum til lífsameinda (EFNGREIN)
  • Frá sameindum til sniðlækninga – heildstæð aðstaða fyrir nútíma lífvísindi (SAMSNIÐ)
  • Íslenskir rafrænir innviðir til stuðnings við rannsóknir (IREI) 

Þá er einnig bent á að markmið Lífvísindaseturs rími bæði vel við stefnu Vísinda- og tækniráðs fyrir árin 2020–2022 um að efla gæði í háskólastarfi og færni á vinnumarkaði og stefnu Háskóla Íslands fyrir árin 2021–2026 en þar er mikil áhersla lögð á vandað framhaldsnám og framúrskarandi vísindi.

Litafruma úr mús; Vimentin er grænt og sýnir frymisnetið en erfðaefnið er blátt (DAPI). Mynd: Romain Maurice Jacques Lasseur

Öflugt nám og stuðningur við sprota í lyfja- og líftækniiðnaði

Forsprakkar Lífvísindaseturs benda hins vegar á að betur megi ef duga skuli í hinni hörðu samkeppni innan alþjóðlegs vísindasamfélags og því þurfi að efla innviði og tækjakost enn frekar á næstu árum. „Með því að tryggja aðgang íslenskra vísindamanna að nýjustu tækni og aðferðum verða rannsóknir þeirra samkeppnishæfar á heimsmælikvarða. Það gerir vísindasamfélagið á Íslandi að mestu leyti sjálfbært,“ segir m.a. í stefnunni. 

Þá er á áætlun að efla enn frekar framhaldsnám í lífvísindum, meðal annars í gegnum prógramm sem nefnist „Graduate Program in Molecular Life Sciences (GPMLS)“ og hefur verið starfrækt undanfarin ár. Þar er boðið upp á bæði fræðslu í formi styttri námskeiða og fyrirlestra erlendra sérfræðinga. Auk þess skapar GPMLS samtal milli nemenda og leiðbeinanda þvert á stofnanir, deildir og svið. „Góð þjálfun og vandað nám er undirstaða vísindastarfs og leggur grunninn að öflugu atvinnulífi. Markmið Lífvísindaseturs er að halda áfram þessu mikilvæga starfi og bjóða upp á sameiginlega fyrirlestra og námskeið sem eru forsenda þess að lífvísindi haldi áfram að blómstra á Íslandi,“ segir m.a. í stefnunni en þess má geta að Nóbelsverðlaunahafar hafa verið meðal fyrirlesara á vegum Lífvísindaseturs. 

Bent er á að nokkur nýsköpunarfyrirtæki hafa orðið til innan Lífvísindaseturs á grundvelli rannsókna vísindamanna setursins og talsverð reynsla er komin á að vinna með slíkum fyrirtækjum og að aðstoða þau í fyrstu skrefum þeirra. „Mikill áhugi er á að efla slík tengsl enn frekar og aðstoða þannig við sókn íslenskra lyfja- og líftæknifyrirtækja,“ segir í stefnunni.

Unnið er að því með Vísindagörðum Háskóla Íslands að koma upp sprotaaðstöðu fyrir líftækni- og lyfjaiðnaðinn á Íslandi til að hjálpa minnstu fyrirtækjunum að komast á legg. „Þannig geta sprotar sprottið með því að nýta kjarnaaðstöðu Lífvísindaseturs en sprotafyrirtæki hafa oftast takmörkuð fjárráð og geta sjaldnast byggt þá aðstöðu strax sem þau þurfa til sinna rannsókna. Þetta mun lækka þröskuldinn við að koma líftæknifyrirtækjum á fót og vonandi auka fjölda þeirra sem ná flugi,“ segir einnig í stefnunni.

Farið verður nánar yfir þessa framtíðasýn um leið og horft verður um farinn veg á afmælishátíð Lífvísindaseturs 22. apríl. Hátíðin hefst kl. 14 í fyrirlestrarsal Veraldar – húss Vigdísar og stendur til 16:05.

Dagskrá afmælishátíðarinnar má finna hér

Kennari kennir nemendum á lagsjá