Skip to main content
25. september 2020

Þakklæti og virðing

Þakklæti og virðing - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (25. september):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Í vikulok er mér efst í huga þakklæti og virðing fyrir því hvernig ykkur hefur í sameiningu tekist að halda starfi Háskóla Íslands gangandi af þeim krafti og gæðum sem við stefnum ávallt að. Það hefur verið flókið að sækja vinnu og stunda nám, m.a. sökum grímunotkunar, og vil ég þakka ykkur öllum fyrir hversu vel þið hafið brugðist við íþyngjandi og síbreytilegum aðstæðum.

Það er sérlega ánægjulegt hvað mörg okkar nýttu sér skimun í boði Íslenskrar erfðagreiningar í síðustu viku og þessari. Sem betur fer kom á daginn að veiran virðist ekki hafa verið eins útbreidd í háskólasamfélaginu og margir óttuðust. Þetta breytir þó ekki því að baráttunni er ekki lokið. Við verðum áfram að gæta varúðar, beita einstaklingsbundnum sóttvörnum og halda fjarlægð. Með samstilltu sóttvarnaátaki náum við sigri í baráttunni við veiruna. Ég sendi þeim sem hafa veikst mínar bestu batakveðjur. Tímabundnu skimunarátaki fyrir starfsfólk og stúdenta Háskóla Íslands er nú lokið í bili og ber að þakka Íslenskri erfðagreiningu fyrir rausnarlegt framtak.

Ég minni á COVID-19 síðu Háskóla Íslands þar sem hægt er að kynna sér flest það er lýtur að starfi skólans við núverandi aðstæður. Þar eru m.a. uppfærðar leiðbeiningar fyrir starfsfólk og stúdenta sem hafa grun um að vera með COVID-19 og einnig fyrir þá sem hafa staðfest smit. 

Sú mikla áskorun sem felst í núverandi ástandi hefur leitt til áfalla en líka margvíslegra sigra sem þið hafið unnið með því að tileinka ykkur nýja tækni, þróa frumlegar aðferðir til þekkingarleitar, lærdóms og samskipta og sjálfsagt mun tíminn leiða í ljós að ýmislegt af því mun nýtast okkur til framtíðar.

Ég er stoltur yfir framlagi starfsfólks og stúdenta við að ná tökum á faraldrinum hér innanlands. Þetta hefur enn og aftur sýnt og sannað að við eigum afburða vísindafólk sem eflir okkur trú um gildi rannsókna og þekkingar.

Esjan fékk hvítan koll í vikunni samtímis því sem haustið setti lit sinn á laufið. Njótum þess að horfa á árstíðirnar takast á og reynum að hvílast yfir helgina. Söfnum orku fyrir verkefnin fram undan. Munum að jákvæðar hugsanir fleyta okkur ótrúlega langt.

Góða helgi.

Jón Atli Benediktsson, rektor“

Gimli