Skip to main content
23. mars 2023

Styrkur úr Almanakssjóði – Almanak Háskóla Íslands

Styrkur úr Almanakssjóði – Almanak Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Veittur hefur verið styrkur úr Almanakssjóði til að festa kaup á safni Íslandsalmanaks – Almanaki Háskóla Íslands – frá upphafsárinu 1837 allt til ársins 1874.

Fyrstu árgangar almanaksins eru fágætir mjög og seljast dýrt. Nýlega gerðist það að bókasafnari hafði samband við dr. Þorstein Sæmundsson stjörnufræðing og bauð honum til sölu öll almanökin frá upphafsári allt til ársins 1874. Þorsteinn gekk að kaupunum, en þar sem hann er nú að láta af störfum við almanakið viðraði hann þá hugmynd við dr. Gunnlaug Björnsson vísindamann, að síðari eftirmenn við almanakið fengju þetta safn til varðveislu. 

Íslandsalmanakið, öðru nafni Almanak Háskólans, hefur komið út síðan 1837. Almanakið er annað elsta rit sem út er gefið á Íslandi. Fram til 1922 sáu prófessorar við Háskólann í Kaupmannahöfn um útreikningana en íslenskir fræðimenn um textann. Frá 1923 hefur hvort tveggja verið í höndum Íslendinga. 

Upphaflega hafði Kaupmannahafnarháskóli (sem jafnframt var háskóli Íslendinga) einkarétt til almanaksútgáfu. Einkarétturinn fluttist til Háskóla Íslands árið 1921 og var ekki afnuminn fyrr en 2009. Hið íslenska þjóðvinafélag hóf útgáfu almanaks árið 1875 og hefur alla tíð síðan haft leyfi til að taka Almanak Háskólans upp í sitt almanak. Í hálfa öld sá Þjóðvinafélagið um útgáfu beggja almanakanna. Er það skýringin á því að þessum tveim almanökum er oft ruglað saman.
   
 

Undanfarin sextíu ár, eða um þriðjung af útgáfutíma almanaksins, hefur dr. Þorsteinn Sæmundsson annast útreikning og ritstjórn þess. Þorsteinn lætur nú af störfum og Gunnlaugur tekur við umsjón Almanaksins. Þeir hittu Jón Atla Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, fyrr í vikunni þar sem styrkurinn var afhentur. MYND/Kristinn Ingvarsson

Eftir að einkaleyfi til útgáfu almanaka var aflétt hafa margir tekið upp almanaksútgáfu. Flestir hafa stuðst við Almanak Háskólans varðandi hreyfanlegar dagsetningar. Þó hefur það brugðist nokkrum sinnum, sérstaklega á þessu ári, þegar svonefndur rímspillir varð til þess að seinka gömlu misserunum umfram venju. 

Undanfarin sextíu ár, eða um þriðjung af útgáfutíma almanaksins, hefur dr. Þorsteinn Sæmundsson annast útreikning og ritstjórn þess. Fyrstu sex árin vann hann verkið með dr. Trausta Einarssyni og síðustu 13 árin með dr. Gunnlaugi Björnssyni. Auk almanaksins hefur Þorsteinn haldið úti vefsíðu (www.almanak.hi.is) þar sem finna má margvíslegan fróðleik sem tengist almanakinu. Þorsteinn lætur nú af störfum og Gunnlaugur tekur við umsjón Almanaksins. 
   

Um sjóðinn

Almanakssjóður var stofnaður samkvæmt lögum nr. 25, 27. júní 1921 um einkaleyfi handa Háskóla Íslands til útgáfu almanaks. Markmið sjóðsins er m.a. greiða kostnað við útreikning á almanökum háskólans, að styrkja rannsóknir í stjarnfræði og rímfræði, stærðfræði og stærðfræðilegri eðlisfræði og útgáfu vísindalegra rita í þessum fræðum. 

Jón Atli Benediktsson, Þorsteinn Sæmundsson og Gunnlaugur Björnsson við afhendingu styrksins