Skip to main content
5. maí 2023

Styrkur til að útbúa nýtt kennsluefni í íslensku fyrir fjöltyngda grunnskólanema

Styrkur til að útbúa nýtt kennsluefni í íslensku fyrir fjöltyngda grunnskólanema - á vefsíðu Háskóla Íslands

Verkefni sem miðar að ritun gæðatexta fyrir fjöltyngda grunnskólanemendur og mótun kennsluleiðbeininga um notkun þeirra í skólastarfi hefur hlotið styrk úr Íslenskusjóðnum við Háskóla Íslands. Þetta er í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og heildarupphæð styrksins nemur þremur milljónum króna.

Markmið Íslenskusjóðsins er að stuðla að því að íslenska verði áfram töluð á Íslandi og tilgangur hans að veita styrki til að efla vald á íslensku máli barna og fullorðinna, einkum fjöltyngdra barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra. Sjóðurinn styrkir verkefni sem styðja við og efla notkun á íslensku máli, svo sem þróunarverkefni á leikskóla- og grunnskólastigi, námskeið, bókaútgáfu, t.d. fjölmálabóka, vefsíður, efni fyrir snjalltæki og annað sem álitlegt þykir til að ná markmiði sjóðsins.

Sigríður Ólafsdóttir, dósent við Deild kennslu- og menntunafræða á Menntavísindasviði HÍ, hefur hlotið styrk fyrir rannsóknarverkefnið Íslenskur námsorðaforði og stigvaxandi fjölbreytni íslenskrar tungu: Námsefni og kennsluhættir með fjöltyngdum grunnskólanemendum.

Verkefnið felur í sér ritun tuttugu gæðatexta fyrir fjöltyngda grunnskólanemendur og mótun kennsluleiðbeininga um notkun þeirra í skólastarfi. Unnið verður með stigvaxandi fjölbreytni í orðaforða, lesskilningi, umræðu- og ritunarfærni sem saman leggja mikilvægan grunn að námsframvindu nemenda í íslenskum skólum. Verkefnið byggist á samstarfi Menntavísindasviðs og Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Menntamálastofnunar.

Afurðir fyrri verkefna, styrkt af Rannsóknasjóði HÍ og Markáætlun um tungu og tækni, verða lögð til grundvallar: a) Listi yfir íslenskan námsorðaforða, LÍNO-2, byggður á nýrri málheild með samtímatextum og námsefni Menntamálastofnunar, MÍNO; b) Viðmið um einkenni íslensks mál, frá einföldu til hins flóknara; c) 30 textar byggðir á viðmiðunum og með orðum LÍNO-2; c) Þýðingar á orðum LÍNO-2 og textunum á sex tungumál.

Umfjöllunarefnin snerta á daglegum viðfangsefnum, áskorunum og samskiptum sem eru sammannleg börnum og ungmennum víða um heim.

Um sjóðinn

Íslenskusjóðinn stofnuðu Elsa Sigríður Jónsdóttir og Tómas Gunnarsson til minningar um foreldra þeirra, þau Sigríði S. Sigurðardóttur og Jón Sigurðsson og Björgu Tómasdóttur og Gunnar Guðmundsson. 

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið sem jafnframt er formaður stjórnar, Samúel Lefever, dósent við Deild faggreinakennslu á Menntavísindasviði, og Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem öðru máli við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk

Myndir Kristins Ingvarssonar frá úthlutun styrksins má finna hér að neðan.
 

Frá úthlutun styrksins í Hátíðasal í gær. Frá vinstri: Jóhanna Einarsdóttir. Sigríður Ólafsdóttir,  Jón Atli Benediktsson, Samúel Lefever og Daisy Neijman.
Verkefnið byggist á samstarfi Menntavísindasviðs og Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Menntamálastofnunar og hér má sjá aðstandendur þess.
Gestir við athöfnina.
Gestir við athöfnina.
Sigríður Ólafsdóttir tekur við styrknum úr hendi Jóns Atla Benediktssonar.
Sigríður Ólafsdóttir segir frá verkefninu.
Gestir við athöfnina.
Jón Atli Benediktsson rektor ávarpar gesti.
Aðstandendur verkefnisins, rektor og stjórn sjóðsins