Stórauknir möguleikar á skiptinámi við Kaliforníuháskóla
Háskóli Íslands skrifaði nýverið undir samstarfssamning um nemendaskipti við Kaliforníuháskóla sem nær til alls Kaliforníuháskólakerfisins en undir það heyra tíu háskólar, þ.á.m. UC Berkeley, UCLA, UC San Diego og UC Santa Barbara (UCSB).
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, heimsótti UCSB fyrir ári síðan og endurnýjaði við það tækifæri samstarfssamning sem verið hefur í gildi milli Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ og UCSB til fjölda ára, ásamt því að leggja drög að nýja samningnum sem nú er orðinn að veruleika. Auk samstarfs við UCSB hafa HÍ og UC Berkeley verið í samstarfi um árabil en nemendur HÍ hafa þurft að greiða skólagjöld í báða skólana til þessa.
Með nýja samningnum er samstarf HÍ og Kaliforníuháskóla útvíkkað til muna. Nú geta nemendur HÍ í grunn- og framhaldsnámi í nær öllum námsgreinum farið í skiptinám við alla skólana í Kaliforníuháskólakerfinu og greiða ekki skólagjöld frekar en við aðra skóla sem HÍ hefur gert samninga um skiptinám við.
Skólarnir tíu sem nemendur geta sótt um skiptinám í næsta skólaár:
• UC Berkeley
• UC Davis
• UC Irvine
• UCLA
• UC Merced
• UC Riverside
• UC San Diego
• UC San Francisco
• UC Santa Barbara
• UC Santa Cruz
Allt að tólf nemendur eiga kost á að fara í skiptinám í heilt skólaár frá og með næsta skólaári 2021-2022 en ef farið er í eitt misseri geta enn fleiri nemendur nýtt sér tækifærið. Þá tekur HÍ við sama fjölda nemenda frá samstarfsskólunum.
Kaliforníuháskóli var stofnaður árið 1869 og eru yfir 280.000 nemendur við háskólana tíu. Námsframboð við skólana er afar fjölbreytt en hægt er að velja um yfir 800 námsleiðir. Skólarnir raðast hátt á alþjóðlegum matslistum yfir bestu háskóla heims, t.a.m. er UC Berkeley í 13. sæti á lista Times Higher Education World University Rankings (THE).