Sound of Vision verðlaunað í nýsköpunarkeppni ESB | Háskóli Íslands Skip to main content
6. desember 2018

Sound of Vision verðlaunað í nýsköpunarkeppni ESB

""

Evrópska rannsóknarverkefnið Sound of Vision, sem vísindamenn við Háskóla Íslands hafa haft forystu um, hlaut fyrstu verðlaun í flokknum „Tækni fyrir samfélag“ í úrslitum Nýsköpunarverðlauna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Innovation Radar Prize 2018, sem afhent voru í Vín í dag. 

Sound of Vision verkefnið hefur staðið yfir undanfarin þrjú ár en það hlaut alls fjögurra milljóna evra styrk úr rannsóknaráætlun Evrópusambandsins, Horizon 2020, árið 2015. Markmið þess er að þróa hátæknibúnað til þess að hjálpa blindum og sjónskertum að skynja umhverfi sitt. Meðal búnaðarins sem þróaður hefur verið innan Sound of Vision verkefnisins er skynbelti sem sett er utan um mitti notandans þar sem það nemur upplýsingar úr umhverfinu og miðlar þeim til notanda fyrir tilstilli lítilla mótora sem titra, hver með sínu lagi ef svo má segja. Beltið nýtist einnig þeim sem einhverra hluta vegna geta ekki notað hefðbundin skynfæri tímabundið. Það getur átt við starfsfólk í ýmsum aðstæðum, eins og við reykköfun eða öryggisgæslu í hávaða. Þróun búnaðarins hefur verið unnin í góðu samstarfi við blint og sjónskert fólk hér á landi.

Verkefnið lýtur forystu Rúnars Unnþórssonar, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild Háskóla Íslands, en auk hans koma Árni Kristjánsson, prófessor við Sálfræðideild, og hópur nýdoktora, doktorsnema og rannsóknarmanna innan skólans að verkefninu ásamt Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og verkfræðingum frá háskólum og stofnunum í fjórum öðrum Evrópulöndum, Rúmeníu (University Politehnica of Bucharest), Ítalíu, Póllandi og Ungverjalandi.

Mörg þúsund verkefni, sem notið stuðnings á vegum Horizon 2020 rannsóknaráætlunar Evrópusambandsins, voru rýnd fyrir nýsköpunarkeppnina og á endanum tilnefndi dómnefnd 50 verkefni í fimm flokkum til verðlaunanna. Sound of Vision var tilnefnt í flokknum „Tækni fyrir samfélag“ (e. Tech for Society) ásamt níu öðrum verkefnum en eins og nafnið gefur til kynna er þar að finna verkefni sem hafa mjög jákvæð áhrif á samfélög og líf fólks. Almenningi gafst svo kostur á að velja bestu verkefnin í hverjum flokki í sérstakri netkosningu á vefsíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og stóð sú kosning til 12. nóvember. Þar hafnaði Sound of Vision í þriðja sæti í sínum flokki en fjögur efstu verkefnin í hverjum flokki komust í úrslit verðlaunanna sem fram fóru í Vín í Austurríki í gær og dag.

Þar öttu Rúnar Unnþórsson og samstarfsfólk hans kappi við aðstandendur 19 annarra nýsköpunarverkefna og kynntu hugmyndina á bak við Sound of Vision fyrir dómnefnd skipaðri sérfræðingum. Krýndir voru siguvegarar í hverjum hinna fimm flokka sem keppt var í auk þess einn sigurvegari var valinn í heildarkeppninni. Það fór svo að Sound of Vision hlaut fyrstu verðlaun í flokknum „Tækni fyrir samfélag“  og m.a. verðlaunagrip því til staðfestingar.

Sigurvegari í heildarkeppninni var svissneska fyrirtækið Gr3n sem þróað hefur tímamótaaðferð til endurvinnslu á plasti en lesa má um sigurvegara í hverjum flokki á heimasíðu verðlaunanna.

Verðlaunin sem aðstandendur Sound of Vision hljóta munu án ef auðvelda áframhaldandi þróun búnaðarins en stefnt er að því að stofna sprotafyrirtæki í kringum hugmyndina á næsta ári með það fyrir augum að koma búnaðinum í almenna notkun.

Myndband sem skýrir virkni búnaðarins 

Heimasíða Sound of Vision 

Háskóli Íslands óskar aðstandendum Sound of Vision innilega til hamingju með verðlaunin.

Rúnar Unnþórsson