Skip to main content
21. ágúst 2020

Sóttvarnir og hólfaskipting bygginga

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag (21. ágúst 2020):

„Kæru nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands.

Kennsla við Háskóla Íslands er nú að hefjast af fullum krafti og er afar ánægjulegt að sjá hversu mikill hugur er í öllum að tryggja öflugt og blómlegt skólastarf á háskólaárinu sem nú gengur í garð.

COVID-19 faraldurinn setur vissulega mark sitt á skólastarfið á þessu hausti og leggur Háskóli Íslands höfuðáherslu á að tryggja öryggi og velferð allra, nemenda og starfsfólks. Því tekur allt skipulag skólastarfsins mið af tilmælum sóttvarnarlæknis og yfirvalda hverju sinni.

Einstaklingsbundnar sóttvarnir ykkar, kæru nemendur og starfsfólk, s.s. handþvottur,  sótthreinsun og nándarmörk (minnst 1m), munu skipta sköpum við smitvarnir í Háskóla Íslands á komandi vikum og mánuðum.

Í meginatriðum leggur Háskóli Íslands rafræna kennslu til grundvallar á þessu hausti, en við munum þó nýta eftir fremsta megni möguleikann á staðkennslu, sérstaklega fyrir nýnema sem hafa sjaldan eða aldrei verið fleiri.

Þessa dagana er verið að útfæra skiptingu bygginga í hólf þar sem fleiri en 100 manns koma saman og er fyrirkomulagið kynnt nánar á COVID-19 síðu Háskólans. Byggingarnar sem um ræðir eru:

  • Askja
  • Árnagarður
  • Háskólatorg
  • Eirberg
  • Háskólabíó
  • Stakkahlíð
  • VR II

Til að hólfaskiptingin skili árangri er mikilvægt að gæta sérstaklega að sóttvörnum þegar farið er á milli hólfa og að dvelja ekki á göngum heldur nota þá eingöngu sem ferðarými á milli stofa.

Nemendum er heimilt að borða nesti í kennslustofum en brýnt er að þrífa eftir sig og taka matarafganga og rusl með sér. Starfsfólk er hvatt til að borða á skrifstofum eða í kaffistofum tengdum starfseminni. Félagsstofnun stúdenta mun bjóða fjölnota matarbakka á sérstöku tilboðsverði.

Starfsfólk með undirliggjandi sjúkdóma eða í sérstökum áhættuhópum er hvatt til að ráðfæra sig við næstu stjórnendur varðandi vinnufyrirkomulag og mögulega heimavinnu.

Í nýjustu leiðbeiningum á COVID-19 síðu Háskóla Íslands er farið vandlega yfir almennar sóttvarnir, þrif og nándarmörk, fjöldatakmarkanir og aðgreiningu hópa. Ég hvet ykkur öll til að kynna ykkur þessar upplýsingar og fylgja leiðbeiningum.

Kæru nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands. Ég vil minna á að núverandi ástand er tímabundið, en með sameiginlegu átaki munum við tryggja öflugt skólastarf og standa vörð um gæði náms og kennslu við Háskóla Íslands.

Góða helgi
Jón Atli Benediktsson, rektor“

Aðalbygging Háskóla Íslands