Skip to main content
17. maí 2021

Skráning hafin í sumarnám við Háskóla Íslands

Skráning hafin í sumarnám við Háskóla Íslands - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands býður annað árið í röð á sumarnám sem hentar bæði þeim sem eru nú þegar í námi og öðrum sem hyggja á háskólanám eða vilja efla færni sína. Skráning er hafin í þau námskeið sem í boði verða í allt sumar.

Sumarnámið er í boði í góðri samvinnu við og með stuðningi stjórnvalda en með þessu framtaki er verið að bregðast við aðstæðum í samfélaginu í kjölfar kórónaveirufaraldursins og sporna gegn atvinnuleysi og efla menntun. 

Í boði eru námskeið á öllum fimm fræðasviðum skólans. Mörg námskeiðanna eru öllum opin en sum henta sérstaklega núverandi nemendum og öðrum sem hyggja á háskólanám eða þeim sem vilja efla færni sína. 

Þau fyrstu hefjast í byrjun júní og kennslu í síðustu námskeiðunum lýkur í ágúst. Nemendur eru hvattir til að skrá sig fyrir 1. júní en frestur til að skrá sig í námskeið er þó í sumum tilvikum lengri.

Þau sem vilja taka námskeið hjá Háskólanum á sumarmisseri en ætla ekki í áframhaldandi nám greiða 3.000 kr. skráningargjald fyrir hvert námskeið. Núverandi nemendur Háskóla Íslands þurfa hins vegar ekki að greiða fyrir sumarnámið og það sama á við verðandi nemendur Háskólans sem hafa greitt skráningargjaldið fyrir árið 2021-2022.

Hægt er að kynna sér ríkulegt námsframboð Háskóla Íslands í sumar og finna svör við ýmsum spurningum um námið á vef skólans.

Til viðbótar sumarnámi hyggst Háskóli Íslands bjóða upp á fjölmörg sumarstörf fyrir námsmenn. Þau má finna á vef Vinnumálastofnunar.

 

Nemendur í sumarnámi 2020