Skip to main content
2. nóvember 2020

Skólastarf með takmörkunum heimilt í öllum byggingum Háskólans 

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (2. nóvember):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Nú er nýr mánuður og ný vika hafin með breyttu fyrirkomulagi, þar sem einungis tíu manns mega koma saman með ákveðnum undantekningum sem hér verður lýst. 

Seint í gærkvöldi setti heilbrigðisráðherra nýja reglugerð í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra með það fyrir augum að tryggja sem minnsta röskun á skólastarfi vegna COVID-19. 

Reglugerðin, sem tekur gildi á morgun, þann 3. nóvember, gerir m.a. eftirfarandi að verkum:

  • Skólastarf er heimilt í öllum byggingum Háskóla Íslands að því uppfylltu að minnst 2 metrar séu á milli einstaklinga og fjöldi nemenda og kennara í hverri kennslustofu og lesrými fari aldrei yfir 10. 
  • Verkleg og klínísk kennsla er heimil að uppfylltum kröfum um sóttvarnir og með því skilyrði að nemendur og kennarar noti hlífðargrímu
  • Nemendur mega ekki fara milli hópa í kennslu en starfsfólki og kennurum er slíkt heimilt. 
  • Í sameiginlegum rýmum innan skólans, t.d. við innganga, á göngum og salernum, má víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að allir noti hlífðargrímur. 
  • Ekki er heimilt að hafa aðra viðburði í byggingum skólans nema þá sem tengjast námi eða kennslu.
  • Sameiginlegir snertifletir í kennslustofum verða sótthreinsaðir milli nemendahópa auk þess sem sameiginlegur búnaður og snertifletir verða hreinsaðir daglega.

Lokapróf í Háskóla Íslands í desember fara fram á netinu sem fjarpróf, nema í undantekningartilvikum, s.s. samkeppnispróf og tiltekin próf þar sem gæði námsmats og jafnræði nemenda verða ekki tryggð á netinu. Samkvæmt reglugerð ráðherra er heimilt að halda samkeppnispróf, þýðingarmikil lokapróf og staðbundnar námslotur fyrir allt að 30 manns í vel loftræstum rýmum. Fræðasvið og deildir munu ákveða í samráði við kennslusvið hvaða próf falla undir undanþáguákvæðið. Tilkynning um staðpróf verður birt eigi síðar en 11. nóvember nk.

Samstaða og öflugar sóttvarnir eru besta leiðin til þess að til að sporna við útbreiðslu veirunnar. Notum því hlífðargrímur, þvoum hendur vandlega og sprittum. Ég hvet ykkur öll til að virða einnig fjölda- og fjarlægðarmörk.

Ég vona innilega að ykkur gangi vel í námi og starfi í vikunni fram undan.

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

""