Skip to main content
14. desember 2018

Siðfræðistofnun veitir stjórnvöldum ráðgjöf um siðfræðileg efni

Siðfræðistofnun Háskóla Íslands, sem er rannsóknarstofnun innan vébanda Hugvísindastofnunar skólans, verður stjórnvöldum til ráðgjafar í siðfræðilegum efnum tímabilið 1. janúar 2019 til 31. desember 2021. Þetta kemur fram í samstarfssamningi sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Vilhjálmur Árnason, stjórnarformaður Siðfræðistofnunar, undirrituðu í gær.

Stofnunin mun vinna með stjórnvöldum að eftirfylgni og innleiðingu tilmæla í skýrslu starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu, sem var birt í september sl. Samkvæmt samningnum getur hvert ráðuneyti einnig óskað eftir ráðgjöf Siðfræðistofnunar um einstök mál á sínu málefnasviði, þar með talið um fyrirhugaða lagasetningu. Þá geta Alþingi og stofnanir þess óskað eftir ráðgjöf Siðfræðistofnunar.

Greiðslur úr ríkissjóði fyrir verkið munu nema 10 milljónum króna árlega.

Vilhjálmur Árnason, stjórnarformaður Siðfræðistofnunar, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrita samkomulagið.
Fulltrúar Hugvísindasviðs og Siðfræðistofnunar ásamt rektor og forsætisráðherra og fulltrúum stjórnvalda eftir undirritunina í gær.