Samstarf við Háskólann í Gdansk | Háskóli Íslands Skip to main content
5. mars 2020

Samstarf við Háskólann í Gdansk

""

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirritaði í vikunni samstarfssamning fyrir hönd Háskólans við Háskólann í Gdansk í Póllandi. Undirritunin fór fram á þilfari fullkomins hafrannsóknaskips pólska háskólans að viðstaddri Lilju Dögg  Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra eftir ferð með skipinu.

Rektor og ráðherra voru í fylgdarliði íslensku forsetahjónanna í opinberri heimsókn þeirra til Póllands þar sem borgirnar Varsjá og Gdansk voru heimsóttar. 

Háskólinn í Varsjá var meðal viðkomustaða hópsins sem átti fund með Marcin Palys, rektor Varsjárháskóla, um samstarf Íslands og Póllands í menntamálum og pólskukennslu við Háskóla Íslands en ætlunin er að efla hana í samstarfi við Varsjárháskóla. Í heimsókninni í Varsjárháskóla flutti Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, enn fremur vel sótt erindi undir yfirskriftinni „Defending Asgard. Independence and Human Rights. The Use of History in Human Rights“.

Frá fundi mennta- og menningarmálaráðherra og rektors með fulltrúum Háskólans í Gdansk.

Þá áttu Jón Atli, Lilja, Aneta Oniszczuk-Jastrząbek, aðstoðarrektor upplýsingatækniþróunar og alþjóðatengsla við Háskólann í Gdansk, og Piotr Stepnowski, aðstoðarrektor vísinda, ásamt fleirum góðan fund á meðan á heimsókninni stóð. Að fundinum loknum undirrituðu Jón Atli og  samstarfssamning milli skólanna sem fyrr segir. Samningurinn nær til nemenda- og kennaraskipta auk samstarfs um kennslu- og rannsóknasamstarf.

Alls á Háskóli Íslands í samstarfi við 12 háskóla í Póllandi á fjölbreyttum fræðasviðum en samstarfið nær m.a. til nemenda- og kennaraskipta og rannsókna.

Aneta Oniszczuk-Jastrząbek, aðstoðarrektor upplýsingatækniþróunar og alþjóðatengsla við Háskólann í Gdansk, og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, undirrita samstarfssamning háskólanna tveggja að viðstaddri Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra.