Skip to main content
10. febrúar 2020

Ráðherra skipar Jón Atla rektor HÍ til næstu fimm ára

""

Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði og núverandi rektor Háskóla Íslands, mun gegna embættinu áfram til næstu fimm ára. Að fenginni tillögu háskólaráðs skólans afhenti Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra honum skipunarbréf þessa efnis á dögunum. 

Embætti rektors var auglýst laust til umsóknar í desember og umsóknarfrestur rann út 3. janúar síðastliðinn. Jón Atli var eini umsækjandinn um embættið og samþykkti háskólaráð á fundi sínum 9. janúar sl. að tilnefna hann í embætti rektors Háskóla Íslands til næstu fimm ára frá 1. júlí 2020 að telja.

Jón Atli var kjörinn rektor Háskóla Íslands vorið 2015 og tók formlega við embætti þann 1. júlí það ár. Hann er 29. rektorinn sem gegnir embættinu frá því að Háskólinn var stofnaður árið 1911. Jón Atli lauk prófi í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1984, M.S.E.E. prófi frá Purdue-háskóla  í Bandaríkjunum 1987 og doktorsprófi í rafmagnsverkfræði 1990 frá sama skóla.

Samkvæmt lögum um opinbera háskóla er rektor formaður háskólaráðs, yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan skólans og utan. Hann hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki heildarstefnu í málefnum háskólans. Rektor ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi skólans og á milli funda háskólaráðs fer hann með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans.
 

Jón Atli Benediktsson tekur við skipunarbréfi um embætti rektors úr hendi Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra.