Skip to main content
24. mars 2023

Oculis - sprotafyrirtæki HÍ - skráð á Nasdaq

Oculis - sprotafyrirtæki HÍ - skráð á Nasdaq - á vefsíðu Háskóla Íslands

Augnlyfjaþróunarfyrirtækið Oculis, sem er eitt af sprotafyrirtækjum HÍ, var skráð í bandarísku kauphöllina Nasdaq í gær. Þetta er fyrsta sprotafyrirtæki Háskóla Íslands sem nær þeim eftirtektarverða árangri að vera skráð á markað en áhersla er lögð á hagnýtingu rannsókna og nýsköpun í starfi skólans. Að baki fyrirtækinu og hugmyndunum að þeim lausnum sem það býður standa þeir Einar Stefánsson, prófessor emeritus í augnlækningum, og Þorsteinn Loftsson, prófessor emeritus í lyfjafræði. 

„Þetta var afskaplega gaman, við vorum í aðalstöðvum Nasdaq og hjálpuðum þeim að opna markaðinn í gær með að hringja bjöllum og ýmislegt fleira,“ segir Einar Stefánsson í samtali við RÚV um þessi merkilegu tímamót.

Uppfinning vísindamannanna tveggja snýst um þróun augndropa sem útrýmir sprautunálum. Svokallaðar nanóagnir úr sýklódextrínum hafa verið þróaðar til að ferja lyf í augndropunum frá yfirborði augans til bakhluta þess. Samhliða því hefur verið unnt að hætta að sprauta lyfinu í augað. Þetta átti ekki að vera fræðilega mögulegt en þeir Þorsteinn og Einar hafa nú sannað það gagnstæða. 

Einar Stefánsson, prófessor emeritus, er mikilsvirtur vísindamaður og einn sá afkastamesti við Háskóla Íslands og Landspítala. Rannsóknir hans hafa margsinnis orðið kveikja að nýsköpun og sprotafyrirtækjum en hann hefur ítrekað verið verðlaunaður fyrir störf sín í þágu vísinda. Einar var t.d. valinn heiðursvísindamaður Landspítala fyrir fáeinum árum og haustið 2014 tók hann við sérstökum heiðursverðlaunum Danska augnlæknafélagsins fyrir afar mikilvægt framlag til rannsókna í augnlæknisfræði á alþjóðavettvangi. Hann hlaut heiðursverðlaun Ásu Guðmundsdóttir Wright fyrir árið 2008 en sama ár hlaut hann svokölluð Jules Gonin verðlaun.  Einar hefur einnig verið sæmdur gullmedalíu á þingi norrænna augnlækna.

Þorsteinn Loftsson, prófessor emeritus, er afar virtur vísindamaður og einn sá afkastamesti á landinu. Eftir hann liggur fjöldi stórmerkilegra uppfinninga á sviði lyfja- og læknisfræði en þeim til verndar hafa tugir einkaleyfa verð skráðir í fjölmörgum þjóðlöndum. Þorsteinn er í hópi þeirra sem eiga flest skráð einkaleyfi við Háskóla Íslands auk þess sem hann hefur komið að stofnun sprotafyrirtækja sem byggja starf sitt alfarið á uppfinningum. Þorsteinn hefur ennfremur verið einstaklega duglegur að afla erlendra styrkja til að gera rannsóknir mögulegar á ýmsum sviðum lyfja- og læknisfræði. Þorsteinn hefur verið á sérstökum lista matsfyrirtækisins Thomson Reuters yfir áhrifamestu vísindamenn samtímans ásamt nokkrum öðrum Íslendingum.

Þorsteinn Loftsson og Einar Stefánsson kampakátir í höfuðstöðvum Nasdaq-kauphallarinnar í New York í gær.
Einar og Þorsteinn ásamt forsprökkum Oculis sem er nú með höfuðstöðvar í Sviss og útibú víða um heim.....