Skip to main content
17. september 2020

Nýtum tækifæri til skimunar fyrir COVID-19

Nýtum tækifæri til skimunar fyrir COVID-19 - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi orðsendingu til stúdenta og starfsfólks í dag (17. september):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Fyrst af öllu vil ég þakka hversu vel þið hafið tekið rausnarlegu boði Íslenskrar erfðagreiningar um skimun vegna COVID-19. Um 450 mættu í skimun að Smáratorgi 3 í Kópavogi í gær og í þeim hópi var mikill fjöldi starfsfólks og nemenda Háskóla Íslands. Eitt smit var staðfest sem er þó ekki talið tengjast Háskólanum. 

Nemendum og starfsfólki stendur til boða ókeypis skimun einnig í dag og á morgun. Ég vil hvetja þau ykkar sem ekki hafa nýtt þetta úrræði til að bóka tíma hér. Boðslykill okkar er HI_COVID

Ég vil ítreka að skimun er hvorki ætluð þeim sem eru í sóttkví né þeim sem hafa einkenni. Hún er líka aðeins fyrir þá sem hafa verið á háskólasvæðinu undanfarna 10 daga.

Þegar þessu skimunarátaki er lokið er unnt að hefja kortlagningu á útbreiðslu smita hér í Háskóla Íslands. Það er mikilvægt að sem flestir fari í skimun og vil ég hvetja nemendur skólans sérstaklega til að nýta þetta tækifæri. Þeir sem hafa smitast í Háskólanum starfa flestir í mismunandi byggingum og tengjast því ekki. Af þeirri ástæðu er nauðsynlegt að afla meiri gagna til að ná utan um útbreiðsluna. 

Við þessar aðstæður eru margir óvissir, bæði kennarar og nemendur, um hvort óhætt sé koma í skólann. Almennt gildir að húsnæði Háskóla Íslands sé opið, en rafræn kennsla er að jafnaði í boði fyrir alla sem það kjósa. Gildir þetta jafnt um nemendur og kennara. 

Félagslífið er afar mikilvægur partur af þeirri upplifun sem stúdentar sækjast eftir í Háskóla Íslands. Því miður þarf þessi þáttur að gjalda fyrir þær áskoranir sem við glímum nú við. Ég vil hvetja nemendafélög eindregið til að fresta öllu skemmtanahaldi um sinn. Munum að þetta er tímabundið ástand og við fáum bæði tækifæri og tilefni fyrir skemmtanir þegar þetta er gengið yfir.

Munum einnig að handþvottur og aðrar einstaklingsbundnar smitvarnir eru besta vörnin. Fylgjum reglum almannavarna. Verum heima ef minnstu einkenna er vart. Hlöðum niður smitrakningarappi landlæknis. 

Verum ábyrg og lausnamiðuð.

Gangi ykkur vel kæru nemendur og samstarfsfólk.

Jón Atli Benediktsson, rektor“

háskólasvæðið