Skip to main content
6. mars 2020

Neyðarstig almannavarna vegna COVID-19

""

Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna kórónaveiru (COVID-19). Fyrstu smit innanlands hafa nú verið staðfest. Í kjölfarið hefur verið lýst yfir neyðarstigi almannavarna. Það er gert m.a. á grunni þess að sýkingin er nú farin að breiðast út innanlands.

Virkjun neyðarstigs hefur ekki teljandi áhrif á almenning umfram hættustig sem varað hefur frá 28. febrúar sl. Ekki hefur verið lagt á samkomubann. 

Starfsmenn og stúdentar Háskóla Íslands eru beðnir um að halda ró sinni um leið og minnt er á mikilvægi þess að fylgja leiðbeiningum sóttvarnalæknis. 

Nýjustu upplýsingar er ávallt að finna á vef Landlæknisembættisins.

Sóttvarnalæknir beinir því sérstaklega til þeirra sem teljast til viðkvæmra hópa, einkum þeirra sem eru með undirliggjandi sjúkdóma og eldri einstaklinga að forðast mannamót að óþörfu og að huga vel að hreinlætisaðgerðum.

Þeir sem finna fyrir einkennum og hafa mögulega verið útsettir fyrir smiti t.d. vegna ferðalaga eru hvattir til að hringja í 1700 og fá leiðbeiningar. Fólk er beðið að halda sig heima ef það veikist og koma ekki veikt í skólann.

Gáið hvert að öðru, hvetjið fólk til að fara heim ef það virðist veikt og gáið sérstaklega að fólki sem hefur ekki sterkt tengslanet á Íslandi.

Vakin er sérstök athygli á viðbragðsáætlun Háskóla Íslands vegna Covid-19 veirufaraldursins.